Anna Lára vinnur ferð til Þýskalands

19.mar.2024

Félag þýzkukennara hefur um árabil með stuðningi frá Goethe Institut og Þýska sendiráðinu staðið fyrir samkeppni sem kallast Þýskuþraut. Þar gefst nemendum sem eru komnir áleiðis í námi kostur á að taka þátt í þýskuprófi til að sjá hver staða þeirra er miðað við jafnaldra í öðrum skólum. Nemendur í FAS hafa oft tekið þátt í gegnum árin og mörgum hefur gengið ágætlega. Félagið stendur líka fyrir stuttmyndasamkeppni og eru bæði þrautin og stuttmyndasamkeppnin liður í að kynna þýsku fyrir nemendum.

Síðustu árin hefur þrautinni verið skipt í tvö stig og fer skiptingin eftir því hversu langt nemendur eru komnir á náminu. Stig eitt gerir ráð fyrir að nemendur taki þrjá áfanga í þýsku til stúdentsprófs en á stigi tvö hafa nemendur lokið 4 – 6 áföngum. Hér í FAS þurfa nemendur að taka fjóra áfanga í þriðja máli til stúdentsprófs.

Að þessu sinni völdu þrír nemendur í FAS að taka þátt í prófinu og tóku þau þrautina á stigi tvö. Prófin eru svo send til Félags þýzkukennara sem fer yfir úrlausnirnar. Það er til nokkurs að vinna því fyrir efstu sætin á hvoru stigi er í boði hálfsmánaðar ferð í sumarbúðir í Þýskalandi. Að auki var ákveðið að draga einn úr hópi 20 efstu sem gæti einnig farið í sumarbúðirnar. Þegar úrslit í þrautinni voru kunngerð var ljóst að allir þrír nemendur FAS höfðu staðið sig ljómandi vel. Anna Lára Grétarsdóttir gerði sér lítið fyrir og varð efst keppenda á stigi tvö og er því á leið til Þýskalands seinni partinn í júlí.

Laugardaginn 16. mars stóð Félag þýzkukennara fyrir verðlaunahátíð fyrir bæði Þýskuþrautina og stuttmyndasamkeppnina. Þar mætti Anna Lára og tók á móti viðurkenningu fyrir frammistöðuna og hitti aðra verðlaunahafa. Við óskum Önnu Láru hjartanlega til hamingju og hlökkum til að heyra af ferðalaginu í sumar.

Aðrar fréttir

Útskrift frá FAS

Útskrift frá FAS

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast 10 stúdentar og 16 nemendur úr gunnnámi fjallamennsku. Nýstúdentar eru; Almar Páll Lárusson, Amylee Vitoria Da Silva Trindade, Anna Lára Grétarsdóttir, Atli Steinar Siggeirsson, Filip Orzedowski, Guðjón Arnar...

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Síðasti áfangi í grunnnámi Fjalla-FAS, Lokaferð, kláraðist í vikunni. Í þeim áfanga skipuleggja nemendur í sameiningu sína eigin ferð og leiða hana og kennarar eru þeim innan handar. Nemendur fá tækifæri til að sýna fram á þá færni sem þau hafa öðlast í náminu í...

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Níu annars árs nemendur fóru með þeim Dan Saulite og Ívari F. Finnboga í átta daga vetrarleiðangur á Vatnajökul 15. til 22. maí. Hópurinn fór upp Skáfallsjökul og náði í Grímsvötn á fjórða degi í frábæru veðri. Daginn eftir var brostið á með stormi sem stóð í tvo daga...