Félag þýzkukennara hefur um árabil með stuðningi frá Goethe Institut og Þýska sendiráðinu staðið fyrir samkeppni sem kallast Þýskuþraut. Þar gefst nemendum sem eru komnir áleiðis í námi kostur á að taka þátt í þýskuprófi til að sjá hver staða þeirra er miðað við jafnaldra í öðrum skólum. Nemendur í FAS hafa oft tekið þátt í gegnum árin og mörgum hefur gengið ágætlega. Félagið stendur líka fyrir stuttmyndasamkeppni og eru bæði þrautin og stuttmyndasamkeppnin liður í að kynna þýsku fyrir nemendum.
Síðustu árin hefur þrautinni verið skipt í tvö stig og fer skiptingin eftir því hversu langt nemendur eru komnir á náminu. Stig eitt gerir ráð fyrir að nemendur taki þrjá áfanga í þýsku til stúdentsprófs en á stigi tvö hafa nemendur lokið 4 – 6 áföngum. Hér í FAS þurfa nemendur að taka fjóra áfanga í þriðja máli til stúdentsprófs.
Að þessu sinni völdu þrír nemendur í FAS að taka þátt í prófinu og tóku þau þrautina á stigi tvö. Prófin eru svo send til Félags þýzkukennara sem fer yfir úrlausnirnar. Það er til nokkurs að vinna því fyrir efstu sætin á hvoru stigi er í boði hálfsmánaðar ferð í sumarbúðir í Þýskalandi. Að auki var ákveðið að draga einn úr hópi 20 efstu sem gæti einnig farið í sumarbúðirnar. Þegar úrslit í þrautinni voru kunngerð var ljóst að allir þrír nemendur FAS höfðu staðið sig ljómandi vel. Anna Lára Grétarsdóttir gerði sér lítið fyrir og varð efst keppenda á stigi tvö og er því á leið til Þýskalands seinni partinn í júlí.
Laugardaginn 16. mars stóð Félag þýzkukennara fyrir verðlaunahátíð fyrir bæði Þýskuþrautina og stuttmyndasamkeppnina. Þar mætti Anna Lára og tók á móti viðurkenningu fyrir frammistöðuna og hitti aðra verðlaunahafa. Við óskum Önnu Láru hjartanlega til hamingju og hlökkum til að heyra af ferðalaginu í sumar.