Opnum dögum lýkur – nýr framhaldsskólameistari í Hornafjarðarmanna

13.mar.2024

Í dag er þriðji og síðasti dagur opinna daga og mikið búið að vera um að vera. Morguninn byrjaði líkt og fyrri dagar á morgunleikfimi. Að því loknu fengum við góða gesti. Það voru læknanemar frá Ástráði með fræðslu um kynlíf, kynheilbrigði og samskipti. Í löngu pásunni höfðu nemendur val um það hvort hafragrauturinn yrði snæddur úti eða inni og völdu einhverjir að setjast að snæðingi fyrir utan Nýheima.

Þá var komið að því að spila Hornafjarðarmanna en það hefur verið reglulega gert frá árinu 2004. Það var sjálfur útbreiðslustjórinn Albert Eymundsson sem kom og stýrði spilinu. Í upphafi var spilað á 10 borðum en þegar kom að úrslitaspilinu að þá voru það Agnes Heiða, Gunnar Óli og Ingólfur sem áttust við. Á endanum var það Gunnar Óli sem stóð uppi sem nýkrýndur framhaldsskólameistari og fékk hann að launum miða á árshátíðina sem verður annað kvöld.

Í hádeginu voru grillaðir hamborgarar og að venju voru þeim gerð góð skil. Eftir hádegið var verið að kynna nám í hússtjórnarskólum og lýðháskólum og var sú kynning í höndum Kristjáns og Línu. Þá var hægt að stunda ýmis konar hreyfingu, t.d. að spila fótbolta eða fara í líkamsrækt. Opnum dögum lauk svo með því að nemendur hittust í nokkrum smærri hópum þar sem var verið að meta starfið síðustu daga. Það er skemmst frá því að segja að nemendur eru mjög sáttir við fyrirkomulagið og hafa átt góðar stundir.

Annað kvöld verður svo árshátíð skólans. Borðhaldið verður á Heppunni og ball á eftir á Hafinu.

Aðrar fréttir

Félagslíf er mikilvægt í skólastarfi

Félagslíf er mikilvægt í skólastarfi

Nú er skólastarfið komið á gott skrið. Hluti af skólastarfi í FAS er að hlúa að félagslífinu og það er gert með klúbbastarfi. Forsvarsmenn nemendafélagsins; þær Helga Kristey, Nína Ingibjörg og Isabella Tigist hafa undanfarið verið að undirbúa félagslíf annarinnar....

Skólastarf vorannar komið á skrið

Skólastarf vorannar komið á skrið

Nú er skólastarf vorannarinnar óðum að taka á sig mynd. Það hófst á mánudag en þá var farið yfir áfanga vorannarinnar samkvæmt hraðtöflu. Kennsla hófst svo samkvæmt stundaskrá í gær, þriðjudag. Ef það eru einhverjir enn að velta fyrir sér að skrá sig í fjarnám að þá...

Jólafrí og upphaf vorannar

Jólafrí og upphaf vorannar

Í dag lýkur starfi haustannar formlega og allar einkunnir eiga að vera komnar í INNU. Þá er líka komið jólafrí í skólanum sem er örugglega kærkomið hjá flestum. Skólastarf vorannar hefst mánudaginn 6. janúar klukkan 8:30 en þá eiga nemendur að mæta hjá...