FAS vinnur nú að umfangsmiklu samstarfsverkefni um ábyrga ferðaþjónustu ásamt skólum frá Tyrklandi og Ítalíu. Að því tilefni fóru fjórir kennarar frá FAS, allir úr fjallamennskudeildinni, til Adana í Tyrklandi til að hitta samstarfsaðilana. Sú ferð var farin um miðjan desember.
Ferðalagið var langt en þegar á áfangastað var komið var hitastigið um 15-20 gráður og mjög frábrugðinn menningarheimur. Fundardagarnir voru langir og strangir en við fengum þó að kynnast suðausturhluta Tyrklands, svæðinu sem jarðskjálftarnir nú í febrúar höfðu mikil áhrif á.
Dagana 27. febrúar – 4. mars tókum við í FAS ásamt Markaðsstofu Reykjaness á móti samstarfsaðilum okkar frá Tyrklandi og Ítalíu. Að þessu sinni funduðum við á Reykjanesi og ferðuðumst þar um og kynntum gestum okkar fyrir ábyrgri ferðaþjónustu á Íslandi.
Næsti liður í verkefninu er nemendaferð til Tyrklands en þangað halda þrír nemendur og tveir kennarar í apríl.