Önnur hæfniferð Fjallamennskunámsins

27.maí.2022

Þá er síðasta áfanga fjallamennskunámsins lokið en seinni hópurinn í hæfniferð hefur nýlokið ævintýralegri ferð. Að þessu sinni stóð leiðangur upp á Öræfajökul uppi sem sigurvegari kosninganna en nemendur og kennarar velja í sameiningu verkefni við hæfi í hæfniferð.

Á fyrsta degi lagði hópurinn lokahönd á skipulag og búnað í FAS og lagði af stað í Öræfin þar sem Óli hjá Local Guide skutlaði okkur upp að jökli um Sléttubjörg ofan við Hnappavelli. Gangan hófst því í um 800 metra hæð en það var kærkomið þar sem við bárum þungar birgðir fyrir þriggja nátta dvöl á jöklinum. Við gengum upp jökulinn, upp að Hnappi og settum upp tjaldbúðir í 1800 metra hæð á öskju Öræfajökuls í skafrenningi, kulda og roki. Í sameiningu byggðum við stóran skjólvegg og öll hjálpuðumst við að við að tjalda og byggja skjól.

Á öðrum degi var gengið yfir öskjuna í átt að Dyrhamri (1917 m) og Hvannadalshnjúk (2110 m). Við toppuðum öll Dyrhamar eftir þrjár spannir og fengum að launum stórkostlegt útsýni yfir Svínafellsjökul, Tindaborg og öræfska fjalladýrð. Þá héldu sum í átt að Hvannadalshnjúk og toppuðu hann einnig en önnur fóru á Rótarfjallshnjúk (1848 m) á leið heim í náttstað. Á þriðja degi gengum við í austurátt að Sveinstindi (2044 m) og Sveinsgnípu (1925 m) og toppuðum báða tindana, Sveinstindur er annar hæsti tindur landsins. Dagurinn gekk vel og þegar við komum aftur í tjaldbúðir tókum við smá kaffitíma en héldum síðan aftur út og klifruðum upp á Hnapp (1849 m) og þau sem ekki fóru á Rótarfjallshnjúk daginn áður héldu þangað líka.

Á fjórða degi var komið að því að ljúka dvöl okkar á Öræfajökli en við héldum niður af stærsta eldfjalli landsins um Kvískerjaleið og enduðum við hið fagra Múlagljúfur. Þar mættum við undrandi ferðamönnum sem spurðu hvort þau þyrftu allan þennan búnað sem við bárum á bakinu til þess að skoða gljúfrið.

Af þessari frægðarsögu sjáið þið að það vantar ekki kraftinn í útskriftarnemendur Fjallamennskunámsins. Við viljum þakka þeim öllum fyrir frábæran vetur og vonumst til að hitta útskriftarhópinn á fjöllum í sumar!

Takk fyrir okkur, Árni Stefán, Erla Guðný og Íris R.

Aðrar fréttir

Jólafrí og upphaf vorannar

Jólafrí og upphaf vorannar

Í dag lýkur starfi haustannar formlega og allar einkunnir eiga að vera komnar í INNU. Þá er líka komið jólafrí í skólanum sem er örugglega kærkomið hjá flestum. Skólastarf vorannar hefst mánudaginn 6. janúar klukkan 8:30 en þá eiga nemendur að mæta hjá...

Námskeið í landvörslu í FAS

Námskeið í landvörslu í FAS

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) býður upp á námskeið í landvörslu á vorönn 2025 og hljóta þau sem standast áfangann réttindi í landvörslu. Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir. FAS fékk hefur leyfi Umhverfisstofnunar til að kenna þetta námskeið. Námið...

Hilmar Óli valinn í æfingahóp U18 drengja

Hilmar Óli valinn í æfingahóp U18 drengja

Þjálfarar yngri landsliða Íslands hafa tilkynnt fyrstu æfingahópa sína fyrir komandi verkefni. Meðal þeirra sem fengu kallið í æfingahóp U18 drengja er Hilmar Óli Jóhannsson, nemandi á afreksíþróttasviði Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu (FAS). Hilmar Óli er...