Dagana 22. – 25. maí var annar af tveimur valáföngum í klifri haldinn og tóku níu nemendur þátt í námskeiðinu. Veðrið réði för og námskeiðið byjraði á svæðinu Háabjalla – sem hentar einstaklega vel fyrir byrjendur. Ekki spillti veðrið fyrir en það var sól og blíða. Næsta dag var farið í Stardal og dótaklifur tekið fyrir. Nokkrir nemendur leiddu sína fyrstu dótaleið þennan dag.
Ekki er hægt að ætlast til að fá gott veður á Íslandi þrjá daga í röð þannig að farið var inn hjá Klifurfélaginu Björk á þriðja degi og aðeins unnið í línuvinnu þar auk þess sem aðstaðan þar var nýtt til klifurs.
Síðasta daginn vorum við svo í mekka klettaklifursins á Íslandi, Hnappavöllum og eyddum blautum morgni í að byggja dótaakkeri og fara í aðra fjölspanna línuvinnu eins og hægt var. Seinnipartinn var svo bara klifrað eins og hver hafði smekk til.
Kennarar á námskeiðinu voru Dan Saulite, Mike Walker og Ívar F. Finnboga.