Nýverið fengu þeir Ástvaldur Helgi Gylfason og Tómas Eldjárn Vilhjálmsson kennarar í Fjallamennskunámi FAS tveggja milljóna króna styrk úr Þróunarsjóði námsgagna. Styrkinn ætlar þeir að nota til að skrifa og þróa kennsluefni í rötun sem mun meðal annars nýtast beint nemendum í fjallamennskunáminu.
Hugmyndin er að útbúa handbók sem nemendur muni geta stuðst við í gegnum allt námið sitt og mun taka fyrir rötun með korti, áttavita, gps og öðrum snjalltækjum. Ætlunin er bæði að uppfæra gamalt námsefni sem og að búa til nýtt sem hentar þeim staðli sem unnið er eftir í dag í leiðsögninni. Námsefnið verður gefið út rafrænt en einnig verða gerð kennslumyndbönd. Þeir Ástvaldur og Tómas stefna á að ljúka námsefnisgerðinni fyrir haustið 2023.
Þetta eru frábærar fréttir því það er mikilvægt að til sé gott námsefni í fjallamennskunáminu. Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.