Síðasti áfangi annars árs nema við fjallamennskubraut FAS lauk með átta daga leiðangri á Vatnajökli þar sem nemendur drógu sleða á eftir sér með öllum þeim búnaði og vistum sem þurfti til að geta athafnað sig á jöklinum við fjölbreyttar aðstæður.
Nemendur nýttu sér þá þekkingu og reynslu sem þeir höfðu öðlast á síðastliðnum árum í náminu til að rata á öruggan hátt um jökulinn en gist var sex nætur í tjaldi og eina nótt í fjallaskála Jörfa á Grímsfjalli. Miklar breytingar voru í veðri á þeim tíma sem leiðangurinn stóð yfir og þurfti að stytta hann um tvo daga vegna þess en bróðurpart tímans var varið í hvítblindu. Ferðast var frá Skálafellsjökli og yfir í Grímsvötn en þaðan var ferðinni heitið í Hermannaskarð og að lokum niður Breiðamerkurjökul.
Það er skemmst frá því að segja að ferðin gekk mjög vel og hópurinn var einstaklega flottur. Allir unnu saman eins og smurð vél við oft á tíðum krefjandi aðstæður.
Kennarar voru Ívar Freyr Finnbogason og Tómas Eldjárn Vilhjálmsson.