Í dag var komið að síðasta uppbroti annarinnar og núna höfðu nemendur veg og vanda að því að skipuleggja það. Það var ákveðið að spila Hornafjarðarmanna og skyldu verðlaun veitt fyrir efstu þrjú sætin. Að auki átti að verðlauna þann sem slökustum árangri náði í fyrstu umferð.
Það var byrjað að spila á níu borðum og eftir nokkrar umferðir hófust níu manna úrslit. Þeir sem báru sigur úr býtum á sínu borði komust í úrslitakeppnina. Þar áttust við Hermann Þór, Karen Ása og Tómas Nói og var spilað grand. Þegar spilinu lauk stóð Tómas Nói uppi sem sigurvegari, Karen Ása var í öðru sæti og Hermann Þór varð þriðji.
Sá sem beið lægstan hlut í fyrstu umferð var Sævar Rafn og fékk hann skammarverðlaunin. Öllum verðlaunum var vandlega pakkað inn í jólapappír og því ekki alveg ljóst hver þau voru. Það vakti þó athygli að skammarverðlaunin voru í stærsta pakkanum.
Flott framtak hjá ykkur krakkar og gaman að þið skylduð velja Hornafjarðarmanna því hann er jú nokkurs konar einkennisspil fyrir okkar svæði.
Félagslíf er mikilvægt í skólastarfi
Nú er skólastarfið komið á gott skrið. Hluti af skólastarfi í FAS er að hlúa að félagslífinu og það er gert með klúbbastarfi. Forsvarsmenn nemendafélagsins; þær Helga Kristey, Nína Ingibjörg og Isabella Tigist hafa undanfarið verið að undirbúa félagslíf annarinnar....