Haustið 2009 var farið að bera töluvert á birki- og víðiplöntum um miðbik Skeiðarársands og þá voru settir niður fimm reitir á sandinn. Reitirnir sem hver um sig er 25 m2 voru settir niður svo hægt væri að fylgjast markvisst með þessum breytingum á náttúrunni. Tilgangurinn var líka sá að fá nemendur til að skoða náttúruna í kringum sig en FAS hefur alla tíð lagt á það áherslu að gera nemendur meðvitaða um umhverfi sitt.
Í haust var farið í mæliferð þann 1. september að öllum reitunum. Fyrir ferðina var nemendum skipt í hópa því allir fá ákveðið hlutverk. Það er margt sem þarf að gera á vettvangi og mikilvægt að vinnan gangi vel fyrir sig. Að þessu sinni var ákveðið að bjóða nokkrum gestum með í ferðina. Það má líta að það sem skref í áttina til að leyfa almenningi að fylgjast með skólastarfi og þeim vinnubrögðum sem við leggjum áherslu á í FAS. Einnig var Kristín Hermannsdóttir frá Náttúrustofu Suðausturlands með í för og fylgdi einum hópnum á vettvangi.
Það hafa oft sést meiri breytingar á milli ára en núna. Reyndar var töluvert um nýjar plöntur í reitunum en þær eru enn svo litlar að þær eru ekki mældar sérstaklega. En til að komast í þann hóp að fylgst sé með plöntum árlega þurfa þær að hafa náð a.m.k. 10 cm hæð. Haustið 2014 var mjög mikið um fiðrildalirfur en núna sáust þær varla. Þó mátti merkja á mörgum plantnanna að skordýr hefðu komið þar við. Aðeins sást ummerki um beit á einni plöntu. Minna var um krækiber en oft áður og aðeins sást kindaskítur í reit eitt.
Haustið 2014 var nokkuð um sand í dældum og sandurinn var sums staðar það þykkur að hann náði að kæfa litlar plöntur. Sandfok var núna einungis áberandi í einum reit.
Þegar hæð trjánna er skoðuð sérstaklega eru tiltölulegar litlar breytingar á hæð trjánna á milli ára. Einhver tré hækka um örfáa cm á meðan önnur standa nánast í stað. Það er ekki ólíklegt að kuldi í vor og fyrri hluta sumars hafi þar áhrif. Stærsta tréð innan mælireitanna þetta árið var 180 cm á hæð.
Síðustu daga hafa nemendur svo unnið úr gögnunum sem söfnuðust. Sú vinna flest m.a. í því að skoða tölulegar upplýsingar á milli ára og velta fyrir sér líklegum skýringum á breytingum. Líkt og fyrri ár verða niðurstöður ferðarinnar birtar á http://nattura.fas.is/
Hjördís Skírnisdóttir