Jöklaferð í Öræfin

02.des.2020

Grunnnámskeið í jöklaferðamennsku var haldið dagana 27. – 30. nóvember með seinni helming nemendahópsins. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Árni Stefán Haldorsen, Bjartur Týr Ólafsson, Elín Lóa Baldursdóttir og Sólveig Sveinbjörnsdóttir. Sem áður var markmið námskeiðsins að byggja ofan á línuvinnu, kynnast virkni og hegðun jökla, að læra rétta notkun mannbrodda og æfa ísklifur. Námskeiðið byrjaði í fyrirlestrasal Nýheima en fór eftir það fram á skriðjöklum Öræfajökuls.

Námskeiðinu hafði þurft að fresta vegna samkomutakmarkanna, og var því í seinna lagi, enda jöklarnir orðnir bláir og harðir og búið að snjóa á þá, auk þess sem dagarnir eru nú orðnir stuttir. Dagsbirtan var þó fullnýtt og unnið myrkranna á milli.

Skipulag námskeiðsins var með svipuðu sniði og fyrra námskeiðið. Byrjað var í Nýheimum og farið yfir hagnýtar upplýsingar, jöklabúnað, virkni og hegðun jökla. Eftir hádegismat var ferðinni heitið á Falljökul þar sem farið var í að stilla og festa brodda á skó og farið í grunnatriði broddatækni og hvernig þeim skal beita í mismunandi aðstæðum.

Daginn eftir var stefnan sett hátt á Virkisjökul og fékk hópurinn þá góðan tíma til að halda áfram að æfa broddatæknina, lesa í landslag jökulsins og velja góða leið. Þegar komið var á efri sléttu Virkisjökuls voru ístryggingar kynntar og að því loknu æfði hópurinn sig niður í jökulsprungu og klifra upp línuna. Áður en heim var haldið skoðuðum við fallegan íshelli.

Á sunnudeginum héldum við á Fjallsjökul og æfðum ísklifur í frábæru veðri og aðstæðum. Farið var yfir uppsetningu akkera fyrir ísklifur í ofanvaði, upprifjun í tryggingu klifrara, klifurtækni og fleira.

Seinasta daginn var haldið á Kvíárjökul og farið yfir hífingar og einstefnuloka. Nemendur beittu þessu svo til að æfa sprungubjörgun, auk þess sem tími gafst til að æfa betur önnur atriði sem farið hafði verið í á námskeiðinu.

Námskeiðslok voru með hefðbundnu sniði, búnaður var flokkaður og yfirfarinn, námskeiðið rýnt til gangs, spurningum svarðað og ráðleggingar fyrir framhaldið gefnar. Námskeiðið tókst afar vel og hópurinn sýndi flottar framfarir yfir þessa fjóra daga. Við þökkum kærlega fyrir okkur. Myndirnar eru frá @skulipalmason.

Árni Stefán

[modula id=“11395″]

Aðrar fréttir

Útskrift frá FAS

Útskrift frá FAS

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast 10 stúdentar og 16 nemendur úr gunnnámi fjallamennsku. Nýstúdentar eru; Almar Páll Lárusson, Amylee Vitoria Da Silva Trindade, Anna Lára Grétarsdóttir, Atli Steinar Siggeirsson, Filip Orzedowski, Guðjón Arnar...

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Síðasti áfangi í grunnnámi Fjalla-FAS, Lokaferð, kláraðist í vikunni. Í þeim áfanga skipuleggja nemendur í sameiningu sína eigin ferð og leiða hana og kennarar eru þeim innan handar. Nemendur fá tækifæri til að sýna fram á þá færni sem þau hafa öðlast í náminu í...

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Níu annars árs nemendur fóru með þeim Dan Saulite og Ívari F. Finnboga í átta daga vetrarleiðangur á Vatnajökul 15. til 22. maí. Hópurinn fór upp Skáfallsjökul og náði í Grímsvötn á fjórða degi í frábæru veðri. Daginn eftir var brostið á með stormi sem stóð í tvo daga...