Snjóflóðafræði og leiðsögn

26.mar.2025

Snjóflóðanámskeið framhaldshópsins í fjallamennskunámi FAS var haldið á Dalvík, 21.-26. febrúar. Eins og fram hefur komið hafa snjóaðstæður á landinu verið heldur fátæklegar og snjóalög erfið. Því var meiri áhersla lögð á leiðsögn, undirbúning, veður og skipulag á þessu námskeiði og áherslan minni á snjóflóðafræðin, vegna snjóaðstæðna. Nemendur fengu þó tækifæri til þess að spreyta sig á snjóathugunum, gryfjugerð og snjóprófunum og auðvitað félagabjörgun en hana þarf að æfa reglulega. Allir morgnar byrjuðu á morgunfundi þar sem nemendur og kennarar fóru yfir snjóaðstæður, veðurspá og áætlun dagsins. Einnig fengu nemendur upprifjun á snjófræðum. 

Snjóalög stýrðu algjörlega för og það var mikill lærdómur fólginn í því að hugsa um það hvar snjórinn sest til út frá veðri og vindum og velja bestu leið fyrir daginn hverju sinni. Það var áskorunin á þessu námskeiði, að finna snjóinn, lesa í veðrið og sannreyna. Hópnum tókst vel til í þessum snjó- og veðurlestri og fann góðan snjó í fínu veðri nánast alla dagana. 

Námskeiðið fór fram á fjallaskíðum og tókst öllum að bæta kunnáttu og tækni, bæði á upp- og niðurleið. Að geta ferðast um á fjallaskíðum stækkar leikvöllinn töluvert og eykur ánægju en krefst þess að taka tillit til snjóflóðahættu og landslagslesturs. 

Hópurinn fékk að kynnast Tröllaskaga og Eyjafirði enn betur. Farið var á fjöll í Svarfaðardal, Karlsárfjall, gengið á fjöll upp frá Hlíðarfjalli, á Illviðrishnjúk við Siglufjarðarskarð og á Kaldbak í Eyjafirði. Síðasti dagurinn var fullkomlega nýttur á Illviðrishnjúk í blíðu og dúnmjúkri lausamjöll. Frábær endir á góðu námskeiði og einn af þessum æðislegu skíðadögum sem sitja eftir. 

Við kennararnir erum virkilega ánægð með námskeiðið og vonum að nemendur haldi heim með fullan poka af veganesti og innblástur til áframhaldandi fjallaskíðamennsku og snjóflóðaspeki. Markmiðið er auðvitað að smita þau af fjallaskíðabakteríunni. Það var gaman að sjá nemendur tileinka sér aðferðir og tækni yfir námskeiðið og tóku allir miklum framförum. Þetta er sterkur hópur, áhugasamur og með vilja og getu til þess að fara lengra. Við viljum hvetja þau til þess að fara út, undirbúa sig vel og nýta þessa reynslu til þess að æfa ákvarðanatöku í snjóflóðalandslagi, þetta kemur einungis með því að fara út og gera og maður heldur áfram að læra út lífið. Takk fyrir samveruna! 

Kennarar voru Erla Guðný Helgadóttir og Smári Stefánsson. Greinina skrifaði Erla. 

Aðrar fréttir

Hárið frumsýnt á laugardag

Hárið frumsýnt á laugardag

Söngleikurinn Hárið verður frumsýndur í Mánagarði næstkomandi laugardag undir leikstjórn Svandísar Dóru Einarsdóttur. Samstarf á milli Leikfélags Hornafjarðar og FAS á sér langa sögu og í gegnum tíðina hafa fjölmargir nemendur tekið þátt í uppfærslum. Þeir nemendur...

Grunnur í fjallaskíðamennsku

Grunnur í fjallaskíðamennsku

Veturinn hefur verið á undanhaldi þetta árið en lét þó sjá sig þá daga sem fjallaskíðanámskeiðið var haldið og nemendur fengu góðan snjó flesta dagana en það námskeið var haldið 7.-10. mars 2025. Þó að snjóþekjan væri ansi þunn í neðri hluta fjalla þá var hægt að...

Skíðagöngunámskeið – framhald

Skíðagöngunámskeið – framhald

Nýlega var framhaldsnámskeið í skíðagöngu haldið í fallegum fjöllum rétt sunnan við Borgarfjörð eystri. Hópurinn hafði aðsetur í hlýlegum Húsavíkurskála, sem reyndist frábær bækistöð með viðarkyndingu og notalegu andrúmslofti. Það var ævintýri út af fyrir sig að...