Söngleikurinn Hárið verður frumsýndur í Mánagarði næstkomandi laugardag undir leikstjórn Svandísar Dóru Einarsdóttur. Samstarf á milli Leikfélags Hornafjarðar og FAS á sér langa sögu og í gegnum tíðina hafa fjölmargir nemendur tekið þátt í uppfærslum. Þeir nemendur sem taka þátt í sýningunni fá einingar fyrir sína vinnu og gefst um leið tækifæri til að kynnast fjölbreyttu lífi leikhússins. Vinna við verkefnið hófst strax á síðustu önn en hefur verið af fullum krafti frá upphafi vorannarinnar.
Hárið er rokksöngleikur sem gerist á hippatímabilinu þegar stríð í Víetnam og fleiri löndum í Asíu var í algleymingi. Þá reis unga fólkið upp í Ameríku og krafðist frelsis og þess að geta notið lífsins. Þetta er í annað sinn sem FAS tekur þátt í uppfærslu á Hárinu.
Aðstandendur sýningarinnar núna lofa ógleymanlegri tónlist, kraftmiklu leikhúsi og einstakri upplifun. Það er uppselt á frumsýningu og töluvert selt á aðrar sýningar en gert er ráð fyrir 10 sýningum. Við hvetjum alla til að panta miða og drífa sig á frábæra skemmtun.