Heimsókn til Skotlands

Í síðustu viku fóru Eyjólfur og Hulda í heimsókn til Skotlands að kynna sér útivistarnám, en sl. 6 ár hefur FAS boðið upp á nám í fjallamennsku. Skólinn sem heimsóttur var heitir University of the Highlands and Islands (UHI). Hann er háskóli sem starfar í nánu samstarfi við 13 skoska framhaldsskóla og rannsóknarstöðvar og eru starfsstöðvar skólans víða í norður Skotlandi. Skólinn sem var heimsóttur er í Fort William, bæ sem Skotarnir nefna „Útivistarhöfuðborg Bretlandseyja”.

Markmið heimsóknarinnar var að kynna sér nám og kennslu í útivist og skapa tengsl milli FAS og UHI. Móttökur voru virkilegar góðar og ræddu Eyjólfur og Hulda við stjórnendur, kennara og nemendur. Þau fóru einnig í heimsókn til starfsstöðvar skólans á eyjunni Skye sem er undan vesturströnd Skotlands. Hver starfstöð hefur sérhæft sig í ákveðinni gerð útivistar s.s. fjallahjólreiðum, fjallgöngum, klettaklifri, kayak róðri bæði vatna- og sjókayak og fleiru.

Umhverfi og allur aðbúnaður í UHI er virkileg góður, en eitt er það sem Skotana vantar og er það jökullinn. Heimsókn í jöklaveröldina okkar vakti mikinn áhuga og var rætt af fullri alvöru um nemendaskipti milli skólanna og annað samstarf.

FAS hlýtur Menntaverðlaun Suðurlands

Menntaverðlaun Suðurlands voru afhent í gær við hátíðlega athöfn í Fjölbrautarskóla Suðurlands á Selfossi. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga veita árlega verðlaunin fyrir framúrskarandi framlag á sviði menntunar á Suðurlandi.
Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin sem í þetta sinn fóru til Framhaldsskólans í Austur- Skaftafellssýslu. Hér í FAS hefur verið unnið markvisst að náttúrufarsrannsóknum frá árinu 1990 og eru nemendur skólans ávalt þátttakendur í þeim rannsóknum.
Á hverri önn fara nemendur í ákveðnum áföngum í vettvangsferðir og kynnast náttúrurannsóknum með mælingum og rannsóknarúrvinnslu. Þannig eru jökulsporðar mældir og fylgst er með framvindu gróðurs á Skeiðarársandi ásamt því að fylgjast með álftastofni í Lóni og fuglar taldir í Óslandi.
FAS starfar í samstarfi við Jöklarannsóknafélag Íslands, Fuglaathugunarstöð Suðausturlands og Náttúrustofu Suðausturlands. Sérþekking þeirra er mikilvæg og kynnast nemendur þannig náttúrunni og fá leiðsögn í vísindalegri úrvinnslu sem mun nýtast þeim í frekara námi.
Nánari upplýsingar um náttúrufarsrannsóknir í FAS má sjá á slóðinni nattura.fas.is
Við í FAS erum ótrúlega stolt af því að hljóta þessa viðurkenningu og tileinkum hana öllum þeim hafa komið að vöktunarverkefnum í gegnum árin.

Upphaf vorannar 2017

Í morgun byrjaði skólastarf í FAS með svipuðum hætti og hefur verið undanfarin ár. Skólasetning var kl. 10.00 þar sem skólameistari fór yfir ýmsa þætti og kynningar voru á dagatali vorannar. Að skólasetningu lokinni hittu nemendur umsjónarkennarana sína og áttu með þeim stuttan fund varðandi skipulag sitt fyrir komandi vorönn.
Á morgun 5. Janúar hefst svo kennsla samkvæmt stundaskrá.

Annarlok

Það myndast alltaf ákveðin stemmning innan veggja skólans í desember þegar önnin klárast og nemendur vinna af kappi við að skila síðustu verkefnunum og spenningurinn við að komast í jólafrí er að taka yfir.
Síðasta kennsluvika fyrir jólafrí er nú að klárast og voru þær breytingar gerðar þetta skólaárið að ekki eru hefbundin lokapróf heldur er svokallað lokamat. Vinna nemenda yfir önnina vegur því meira og mæta nemendur svo í lokamatsviðtal hjá kennara hvers áfanga í stað þess að mæta í lokapróf.

Í lok síðustu viku kynntu nemendur í listgreinum sína vinnu fyrir samnemendum og almenningi. Það hefur skapast sú hefð að kynning nemenda í listgreinum sé í Vöruhúsinu þar sem margir af þeim áföngum fara fram.
Kynningin tókst mjög vel og voru nemendur með sýningar á verkum sínum ásamt því að nemendur í matreiðslu sáu um veitingar fyrir gesti og gangandi.

Í síðustu viku kláruðu 8 nemendur Smáskipanám sem kennt hefur verið í lotum hér í FAS á önninni. Kennt var í þremur lotum, alls 11 daga og var það Gunnlaugur Dan Ólafsson sem sá um kennsluna. Við óskum nemendunum innilega til hamingju með þennan áfanga.

Fyrsti stúdentinn frá FAS til að hljóta doktorsgráðu

vedis_vidbÞann 22. nóvember síðastliðinn varði Védís Helga Eiríksdóttir doktorsritgerð sína í lýðheilsuvísindum sem ber heitið: Heilsa barnshafandi kvenna og fæðingaútkomur á tímum mikilla efnahagsþrenginga á Íslandi – Maternal health indicators during pregnancy and birth outcomes during times of great macroeconomic instability: the case of Iceland.
Markmið doktorsverkefnisins var að rannsaka möguleg áhrif íslenska efnahagshrunsins 2008 á heilsu barnshafandi kvenna og fæðingarútkomur. Ennfremur að kanna að hversu miklu leyti efnahagsástandið á Íslandi skýrði mögulegar heilsufarsbreytingar hjá ófrískum konum og afkvæmum þeirra.
Védís er Hornfirðingur og eru foreldrar hennar Eiríkur Sigurðsson og Vilborg Gunnlaugsdóttir.
Védís útskrifaðist frá FAS vorið 1998 og er hún fyrsti stúdentinn frá skólanum til að hljóta doktorsgráðu.
Við erum einstaklega stolt af Védísi og óskum henni innilega til hamingju með áfangann.

Leiklist á vorönn

piltur-og-stulkaÁ vorönn mun FAS bjóða upp á áfanga í leiklist og setja upp leikrit eins og venja er. Það er unnið í samvinnu við Leikfélag Hornafjarðar og Tónskóla Austur- Skaftafellssýslu.
Leikstjóri sýningarinnar verður Stefán Sturla Sigurjónsson sem við þekkjum vel en hann leikstýrði hjá okkur bæði Grease og svo síðasta Bítlasöngleiknum Love me do.
Nú hefur verið ákveðið að taka fyrir verkið Piltur og Stúlka sem gert er eftir bók Jóns Thoroddsen og var ákveðið að gera nútímaútfærslu á þessari fléttuástarsögu sem kom fyrst út árið 1850 og er talin fyrsta skáldsagan sem gefin er út á Íslandi.
Við munum því vinna verk sem er „byggt á sögunni“ og munum styðjast að einhverju leiti við leikgerð Emils Thoroddsens og bæta við dægurlögum sem gætu passað inn í verkið.
Fyrir utan okkar nemendur hér í FAS þyrftum við að fá til liðs við okkur eldra fólk og þá erum við að hugsa um tvær konur, helst eldri en 40 ára og tvo til þrjá karlmenn sem einnig væru helst eldri en 40 ára.