Mælingar á Heinabergsjökli

Í dag fór nemendur í INGU1NR05 til að sinna árlegum mælingum á Heinabergsjökli. Með í för voru þau Kristín og Snævarr frá Náttúrustofu Suðausturlands og einnig Eyjólfur og Hjördís frá FAS.
Það var töluverður garri á Höfn þegar var farið af stað og veðurspáin ekkert allt of góð. Það kom því skemmtilega á óvart að uppi við jökulinn var nánast logn og því auðvelt að framkvæma mælingar.
Fyrir þá sem ekki vita að þá liggur Heinabergsjökull fram í jökullón og því þarf að notast við þríhyrningamælingar til að finna út vegalend frá ákveðnum punktum á landi og í jökulsporðinn. Undanfarin ár hefur jökullinn verið að rýrna og hopa og eftir mælingar fyrir ári síðan kom í ljós að mælingar frá punkti 155 eru ekki lengur marktækar því þar sem áður var jökulsporður eru nú bara jakar. Því var að þessu sinni einungis stuðst við mælilínu 157 sem er sunnar á jökulruðningunum.
Mælingar gengu ljómandi vel og það náðist að safna þeim gögnum sem þarf að nýta við útreikninga. Í framhaldinu verður staða jökulsins reiknuð og nemendur þurfa að vinna skýrlsu um ferðina.

[modula id=“9736″]

Ungmennaþing í Nýheimum

Eftir hádegi í gær var haldið ungmennaþing í Nýheimum og voru það nemendur úr 8., 9. og 10. bekk Grunnskóla Hornafjarðar og nemendur í FAS sem tóku þátt.
Í byrjun voru tveir fyrirlestrar um mannréttindi annars vegar og hamingju og vellíðan hins vegar. Það voru þau Magnús Guðmundsson frá Amnesty og Margrét Gauja Magnúsdóttir sem fluttu fyrirlestrana. Þar á eftir voru málstofur þar sem ákveðin málefni voru til umræðu. Alls voru málstofurnar fimm og umræða í hverri um 20 mínútur þannig að allir nemendur kynntust öllum málstofum. Umfjöllunarefni dagsins voru: andleg heilsa, mannréttindi, skólakerfi, staðalímyndir og kynheilbrigði. Tilgangurinn með málstofunum var að fá nemendur til að koma með lausnir á ýmsu sem þeir telja vandamál og ræða hispurslaust um mikilvæg málefni. Ungmennaráð Hornafjarðar mun síðan vinna úr upplýsingunum og leggja til endurbætur þar sem þess er þörf.
Þeir sem stóðu að ungmennaþinginu er ánægðir með afraksturinn og voru sérstaklega ánægðir með líflega umræður sem urðu þó aldursbilið sé töluvert.
Að loknu ungmennaþinginu var boðið upp á pizzu sem gerð voru góð skil.

[modula id=“9734″]

Almannavarnir með kynningu í FAS

Yfirlitsmynd um jarðvárvöktun á Veðurstofunni.

Í dag fengum við til okkar góða gesti. Það voru fulltrúar Almannavarna og lögreglunnar á Suðurlandi. Starfsemi Almannavarna snýst um skipulag og stjórn aðgerða þegar hætta vofir yfir.
Tilgangur heimsóknarinnar var að kynna starfsemi Almannavarna fyrir nemendum og starfsfólki í FAS.
Það voru fulltrúar lögreglu og Veðurstofu sem sögðu frá margþættri vinnu sem stuðlar að öflugu eftirliti með náttúruöflunum. Farið var yfir úrkomuna miklu sem varð seinni hluta september og olli miklu vatnsveðri og eyðilagði vegi og brýr á suðausturhorninu en sá atburður var mjög óvenjulegur. Þá kynnti Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðvár náttúruvöktunarverkefni Veðurstofunnar en þar er m.a. fylgst með veðri, eldgosum, jarðskjálftum og flóðum.
Í ljós kom að til eru viðbragðsáætlanir fyrir hættuástand svo að tími til að bregðast við verði sem stystur því það getur skipt sköpum fyrir almenning.

Við þökkum gestunum kærlega fyrir góðan og gagnlegan fund. Það er mjög mikilvægt að allir viti af starfsemi Almannavarna og geti brugðist við þegar hætta steðjar að.

Afmælisfjör í FAS

Það hefur heldur betur verið líflegt í Nýheimum í dag og margt um manninn. Tilefnið er að sjálfsögðu 30 ára afmæli skólans.
Í morgun mættu þeir hópar sem hafa verið að störfum á Vísindadögum til að leggja lokahönd á vinnuna sem í öllum tilfellum var að gera vinnuna sýnilega.
Á hádegi var svo sýningin opnuð formlega. Það var skólameistari sem bauð gesti velkomna og í kjölfarið kynntu hóparnir vinnu sína á Vísindadögum. Eftir það gafst gestum tækifæri til að skoða afmælissýninguna en þar er meðal annars að finna; heimildamynd um sögu skólans, alls kyns myndir frá skólastarfinu, fatatísku síðustu 30 ára, könnun um viðhorf Hornfirðinga til FAS, viðtöl og fleira. Skólinn bauð upp á hádegisverð sem mæltist vel fyrir.

Það var einkar ánægjulegt að sjá hversu margir komu í Nýheima í dag en hingað komu um 200 manns. Við viljum vekja athygli á að afmælissýningin verður opin til 3. nóvember og hægt er að skoða hana á opnunartíma Nýheima.

[modula id=“9733″]

Vísindadagar í FAS

Nú í morgunsárið hófust hinir árlegu Vísindadagar í FAS. Viðfangsefnið að þessu sinni er 30 ára afmæli skólans. Nemendur vinna að ýmsum verkefnum sem varða skólann og líklegt er að íbúar sveitarfélagsins verði varir við það á ýmsan hátt. Einn hópurinn er t.d. að leggja fyrir könnun í síma og aðrir eru að vinna að ýmis konar heimildaröflun.

Á föstudag, 27. október verður síðan blásið til mikillar afmælisveislu í Nýheimum þar sem afrakstur vinnunnar verður sýndur. Skólinn býður upp á veitingar á milli 12:00 og 14:00 þann dag. Við hvetjum alla sem geta til að koma í Nýheima og fagna með okkur þessum áfanga og skoða um leið vinnu nemenda.

Við hlökkum til að sjá ykkur !!

Á slóðum Kristjáns fjórða

Í áfanganum DANS2SS05 í FAS eru nemendur að læra dönsku og kynna sér danska menningu, siði og venjur. Til dæmis hafa nemendur kynnt sér ævi og störf Kristjáns 4. konungs, sem ríkti í Danmörku, Noregi og Íslandi frá 1588 – 1648.
Hluti þessa náms var síðan náms- og kynnisferð til Danmerkur 13. – 16.  október síðast liðinn.  Tilgangur ferðarinnar var meðal annars að sjá með eigin augum nokkrar af þeim byggingum, sem Kristján 4. lét reisa í Kaupmannahöfn.  En þar á meðal eru nokkrar fegurstu byggingar borgarinnar t.d. Rosenborg slot og Børssen.  Einnig var farið á söfn og að sjálfsögðu í Tívolíið.
Ferðin tókst í alla staði mjög vel og voru nemendur sammála um að þeir hefðu lært mikið um danskt samfélag.

Nemendur sóttu um styrki til fyrirtækja í sveitarfélaginu og viljum við færa þeim sem sáu sér fært að styrkja ferðina kærar þakkir. Okkur langar að benda á að þau fyrirtæki, sem ekki hafa lagt okkur lið geta gert það.  Reikningur í Landsbankanum er enn opinn.

                                                                                         Nemendur og kennari í DANS2SS05

 

[modula id=“9729″]