Nýtt foreldraráð í FAS

Í síðustu viku var haldinn foreldrafundur fyrir foreldra nemenda í FAS. Mæting var þokkaleg þó að við hefðum vissulega viljað sjá fleiri.

Á fundinum var farið yfir það helsta er varðar skólastarfið fram undan, bæði hvað varðar námið og félagslífið. Á fundinum var líka kosið í nýtt foreldraráð fyrir komandi skólaár. Nýtt foreldraráð er skipað af þeim: Guðrúnu Sturlaugsdóttur, Hugrúnu Hörpu Reynisdóttur og Sigrúnu Gylfadóttur. Við bjóðum þær hjartanlega velkomnar í hópinn og hlökkum til samstarfsins.

Skemmtilegt ungmennaþing í Nýheimum

Það var margt um manninn í Nýheimum í dag en þar var haldið ungmennaþing. Þátttakendur á þinginu voru nemendur í efstu bekkjum grunnskólans og nemendur FAS.

Dagskráin hófst á Nýtorgi þar sem farið var yfir það hvað væri framundan. Bæjarstjórinn okkar ávarpaði hópinn og bað menn að hafa í huga í vinnunni framundan að það sé mikilvægt að raddir ungmenna heyrist því það er jú hópurinn sem tekur við af okkur. Því næst var skipt í hópa og ákveðin málefni rædd. Hver hópur hafði ritara sem skráði niður það markverðasta í umræðunum. Það verður síðan unnið með þær upplýsingar og þær notaðar m.a. til að breyta og bæta samfélagið.

Í lok dagsins var svo öllum boðið upp á pizzu sem var gerð góð skil.

FAS með innlegg á norrænu heimsminjaráðstefnunni

Þessa vikuna er mikið um að vera á Kirkjubæjarklaustri. Þar ber hæst norræn heimsminjaráðstefna sem haldin er í nýrri gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs við Sönghól. Gestir á ráðstefnunni eru vel yfir hundrað og koma víða að. Þema ráðstefnunnar í ár er Samfélag og samvinna – í takt við náttúruna. Það er stefna þjóðgarðsins að stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu sem skapar störf og leggur jafnframt áherslu á staðbundna menningu. Á ráðstefnunni eru bæði innlendir og erlendir fyrirlesarar úr röðum fagfólks og sérfræðinga.

FAS hefur lengi átt mikil og góð samskipti við þjóðgarðinn. Það á við bæði með fræðslu af hálfu þjóðgarðsins og einnig hefur verið auðsótt að koma með nemendur í heimsókn. Það gildir bæði fyrir íslenska nemendur og eins nemendur í erlendum samstarfsverkefnum. Með tilkomu fjallamennskunámsins í FAS hafa samskipti skólans og þjóðgarðsins aukist enn því mörg af námskeiðum í fjallamennsku fara fram innan þjóðgarðsins.

Okkur í FAS þótti það mikill heiður að vera beðin um að vera með málstofu á ráðstefnunni og fá að kynna skólann, hvernig samstarfinu hefur verið háttað í gegnum tíðina og hver ávinningurinn af samstarfinu er. Það voru þær Hjördís og Svanhvít Helga sem sáu um málstofuna fyrir FAS og mættu ríflega 40 gestir til að hlýða á erindi þeirra. Eftir kynninguna voru umræður og sýndu gestirnir sérstakan áhuga á náminu í fjallamennsku og hvernig það eflir bæði samfélagið og samvinnuna við þjóðgarðinn. Myndirnar sem fylgja fréttinni eru fengnar af fésbókarsíðu Rannsóknarsetursins á Hornafirði.

Minnum á foreldrafundinn

Við viljum minna á foreldrafundinn í dag. Hann verður haldinn á Nýtorgi á milli 17 og 18 og verður boðið upp á súpu. Á fundinum verður farið yfir það markverðasta er varðar skólastarfið framundan. Þá munu fulltrúar frá nemendafélagi skólans mæta og kynna félagslíf skólans.

Við hvetjum alla foreldra til að mæta á fundinn til að fræðast um skólastarfið og eiga samtal um málefni síns fólks.

Námsferð til Ítalíu

Í síðustu viku voru fimm nemendur úr FAS ásamt kennurum í námsferð á Ítalíu. Verkefnið heitir „Rare routes“ en við höfum sagt frá því áður á heimasíðu okkar.

Ferðalagið til og frá Ítalíu var bæði langt og strangt. Það voru líka mikil ferðalög innanlands alla ferðina. Ferðin hófst í Milanó, þaðan var farið til Sestri Levante. Þar var aðalbækistöð hópsins í þrjá daga og var gist í nunnuklaustri. Hópurinn fór í styttri ferðir, m.a. til Vernazza, Riomaggoirre og Monterasso. Í skoðunarferðum fékk hópurinn ágætis yfirsýn yfir menningararf svæðisins. Veðrið var alls konar; það voru heit tímabil, það kom úrhelli með þrumuveðri og svo var stundum dálítið hvasst.

Seinni hluta ferðarinnar var dvalið í Flórens þar sem einnig var gist í nunnuklaustri. Einnig þar voru menningarminjar skoðaðar og síðasta daginn var farið til Siena og borgin skoðuð.

Hópurinn kom svo sannarlega heim reynslunni ríkari og náði að safna hressilega í minningarbankann.

Trjágróðurinn á Skeiðarársandi

Í dag var komið að árlegri ferð á Skeiðarársandinn en þangað hafa nemendur frá FAS farið frá árinu 2009. Skólinn er þar með fimm gróðurreiti og er farið til að skoða breytingar sem eiga sér stað á milli ára. Það voru tæpir tveir tugir sem fóru í ferðina í dag og gekk allt ljómandi vel.

Það er margt sem er verið að skoða hverju sinni. Það er t.d. reynt að áætla gróðurþekju í hverjum reit, nemendur læra að þekkja mismunandi plöntutegundir. Allar trjáplöntur innan hvers reit eru taldar og flokkaðar. Ef trjáplöntur eru hærri en 10 cm þarf að mæla hæð þeirra og mestan ársvöxt hverrar plöntu. Þá er horft eftir ummerkjum um beit eða afrán skordýra. Allar upplýsingar eru skráðar skilmerkilega á til þess gerð eyðublöð. Við tókum eftir allmörgum trjám þar sem hluti plöntunnar virtist líflítill eða jafnvel dauður. Við vitum að það hefur verið óvenju þurrt síðustu vikur og mánuði og það gæti verið möguleg skýring.

Næstu daga munu nemendur svo skoða gögnin nánar og vinna úr upplýsingum. Á endanum skila nemendur svo skýrslu um ferðina.

Svona ferðir á vettvangi eru alltaf mjög lærdómsríkar og skila oft mun meiru en seta inni í kennslustofu. Það var heldur ekki að sjá annað en allir væru sáttir með ferðina í dag.