Vel heppnuð ferð í Haukafell

17.sep.2024

Í dag var komið að „stóra“ deginum á Íslandi í ForestWell verkefninu en það var ferð í Haukafell þar sem Skógræktarfélag Austur-Skaftafellssýslu er með svæði. Tilgangur ferðarinnar var að njóta náttúrunnar en um leið að gera gagn. Það voru nemendur í 6. og 7. bekk Grunnskóla Hornafjarðar og nemendur í FAS auk nokkurra kennara sem fóru í ferðina. Hulda Laxdal sem er verkefnastjóri í ForestWell verkefninu hafði yfirumsjón með því sem fram fór í Haukafelli.

Það voru tæplega 100 manns sem komu í Haukafell í tveimur rútum og í byrjun var þeim skipt í þrjá hópa sem fóru á milli stöðva. Á fyrstu stöðinni var plantað trjám, á annarri stöðinni æfðu þátttakendur sig í að njóta þess að vera í skógarumhverfi og veita því athygli sem er í nánasta umhverfi. Það var mikið líf á þriðju stöðinni þar sem boðið var upp á alls kyns sprell og leiki. Hver hópur hafði um það bil 30 mínútur á hverri stöð. Að sjálfsögðu var svo nestispása þar sem skólinn bauð upp á heitt súkkulaði en allir áttu að koma með nesti að heiman.

Þátttakendur prófuðu í lok ferðar AR- námsefni verkefnisins, en það er námsefni sem sett er fram í formi viðbætts veruleika (Augmented Reality). Lesendur geta prófað námsefnið og AR nálgunina sjálfir með því að fara inn á þessa slóð og er skemmtilegra að gera það í snjallsíma frekar en tölvu: ForestWellness (8thwall.app). Hér eru smá leiðbeiningar; Velja Launch – Leyfa notkun myndavélarinnar – Velja Go AR – Velja textann og byrja 😊

Það er skemmst frá því að segja að ferðin í dag lukkaðist afar vel og ekki spillti fyrir að veðurguðirnir voru okkur hliðhollir. Það voru settar niður 70 birkiplöntur, 24 ilmreyniplöntur, 13 reyniplöntur af mörgum mismunandi tegundum og tveir garðahlynir. Þeir voru staðsettir sitthvoru megin við minningarskjöld um Ásgrím Halldórsson en hann hafði forgöngu um það að hefja skógrækt í Haukafelli.

Það var sællegur hópur sem kom til baka á Höfn rétt fyrir hádegi og allir reynslunni ríkari. Nú er svo bara að vona að plönturnar sem voru settar niður nái að vaxa og dafna. Hér fyrir neðan fylgja nokkrar myndir úr ferðinni.

 

Aðrar fréttir

Stöðumat og miðannarsamtöl

Stöðumat og miðannarsamtöl

Síðustu daga og vikur hafa nemendur verið að skila ýmsum vinnugögnum til kennara og jafnvel að taka einhver próf. Kennarar nota svo þessi gögn til að meta stöðu nemenda og setja þær upplýsingar í INNU. Þar geta nemendur fengið einkunnirnar G (góður árangur), V...

Rötun og útivist

Rötun og útivist

Sjö daga rötunar- og útivistaráfanga FAS lauk í september þar sem nemendur skipulögðu fimm daga ferð í óbyggðum með allt á bakinu. Áherslur áfangans voru að gera nemendur færa í að skipuleggja ferð á eigin vegum, rata með mismunandi aðferðum, hópastjórnun og...

Íþróttavika Evrópu

Íþróttavika Evrópu

FAS hefur í mörg ár verið þátttakandi í verkefninu heilsueflandi framhaldsskóli og fjallar reglulega um margt sem stuðlar að betri heilsu og vellíðan. Frá árinu 2016 hefur sveitarfélagið okkar verið heilsueflandi og gerir á sama hátt margt til að bæta heilsu og...