ForestWell menntaverkefnið

10.sep.2024

ForestWell er eitt af þeim fjölmörgu Erasmus+ menntaverkefnum sem FAS hefur tekið þátt í. Í ForestWell verkefninu er unnið er að gerð námsefnis í samstarfi menntastofnanna og fyrirtækja á sviði markaðsmála og stafrænna lausna frá Danmörku, Finnlandi, Írlandi, Íslandi og Slóveníu.

Markmið ForestWell verkefnisins er að vinna rafræna náms- og þjálfunarpakka fyrir ferðaþjónustu-, upplifunar- og heilsueflingarfyrirtæki auk menntastofnanna.

Megininntak námsefnisins er að benda á leiðir til að nýta velferðaráhrif skógar- og kjarrlendis til heilsueflingar og atvinnusköpunar annars vegar, og stuðla að velferð skóga og gróinna svæða hins vegar. Talsvert af námsefni er nú þegar komið á heimasíðu verkefnisins og eru lesendur hvattir til að líta þar inn og t.d. prófa í snjallsímum sínum að fræðast um skóga með aðferðum AR (Augmented Reality) eða viðbætts veruleika. Rétt er þó að taka það fram að heimasíðan er enn í vinnslu og því hnökra að finna hér og þar.

Samstarf þátttökuaðila verkefnisins fer að mestu fram rafrænt en þó hafa verið haldnir verkefnafundir í raunheimum í Finnlandi, Slóveníu og Írlandi. Í byrjun júní sl. hafði verið blásið til sambærilegs fundar hér á Höfn en skemmst er frá því að segja að íslenska vorið tók á móti fundargestum á frekar kaldranalegan máta og komust þeir ekki lengra en á Selfoss þar sem öllum leiðum til Hafnar hafði verið lokað vegna veðurs. Þessi fundur fór því að hluta fram á netinu og í skólastofu á Selfossi. Finnski þátttakandinn dvaldi hér á landi í nokkra daga eftir að fundinum og vinnu í tengslum við hann lauk og hefur á síðu ForestWell birt skemmtilega grein um heimsókn sína til Íslands sem lesa má hér. Myndin sem fylgir fréttinni er einmitt frá fundinum sem halda átti á Höfn.

ForestWell verkefninu lýkur á komandi vori en nú í haust verður blásið til viðburðar þar sem nemendur og starfsfólk FAS og nemendur og kennarar 6. og 7. bekkjar í Grunnskóla Hornafjarðar auk annarra áhugasamra aðila fara í Haukafell og planta þar 100 skógarplöntum og til að njóta þess góða ræktunarstarfs sem Skógræktarfélag Austur – Skaftafellssýslu hefur unnið á liðnum árum.

Viðburður þessi verður auglýstur á miðlum FAS þegar nær dregur og eru áhugasamir hvattir til að fylgjast með og taka þátt í skemmtilegum skógardegi.

Aðrar fréttir

Stöðumat og miðannarsamtöl

Stöðumat og miðannarsamtöl

Síðustu daga og vikur hafa nemendur verið að skila ýmsum vinnugögnum til kennara og jafnvel að taka einhver próf. Kennarar nota svo þessi gögn til að meta stöðu nemenda og setja þær upplýsingar í INNU. Þar geta nemendur fengið einkunnirnar G (góður árangur), V...

Rötun og útivist

Rötun og útivist

Sjö daga rötunar- og útivistaráfanga FAS lauk í september þar sem nemendur skipulögðu fimm daga ferð í óbyggðum með allt á bakinu. Áherslur áfangans voru að gera nemendur færa í að skipuleggja ferð á eigin vegum, rata með mismunandi aðferðum, hópastjórnun og...

Íþróttavika Evrópu

Íþróttavika Evrópu

FAS hefur í mörg ár verið þátttakandi í verkefninu heilsueflandi framhaldsskóli og fjallar reglulega um margt sem stuðlar að betri heilsu og vellíðan. Frá árinu 2016 hefur sveitarfélagið okkar verið heilsueflandi og gerir á sama hátt margt til að bæta heilsu og...