ForestWell er eitt af þeim fjölmörgu Erasmus+ menntaverkefnum sem FAS hefur tekið þátt í. Í ForestWell verkefninu er unnið er að gerð námsefnis í samstarfi menntastofnanna og fyrirtækja á sviði markaðsmála og stafrænna lausna frá Danmörku, Finnlandi, Írlandi, Íslandi og Slóveníu.
Markmið ForestWell verkefnisins er að vinna rafræna náms- og þjálfunarpakka fyrir ferðaþjónustu-, upplifunar- og heilsueflingarfyrirtæki auk menntastofnanna.
Megininntak námsefnisins er að benda á leiðir til að nýta velferðaráhrif skógar- og kjarrlendis til heilsueflingar og atvinnusköpunar annars vegar, og stuðla að velferð skóga og gróinna svæða hins vegar. Talsvert af námsefni er nú þegar komið á heimasíðu verkefnisins og eru lesendur hvattir til að líta þar inn og t.d. prófa í snjallsímum sínum að fræðast um skóga með aðferðum AR (Augmented Reality) eða viðbætts veruleika. Rétt er þó að taka það fram að heimasíðan er enn í vinnslu og því hnökra að finna hér og þar.
Samstarf þátttökuaðila verkefnisins fer að mestu fram rafrænt en þó hafa verið haldnir verkefnafundir í raunheimum í Finnlandi, Slóveníu og Írlandi. Í byrjun júní sl. hafði verið blásið til sambærilegs fundar hér á Höfn en skemmst er frá því að segja að íslenska vorið tók á móti fundargestum á frekar kaldranalegan máta og komust þeir ekki lengra en á Selfoss þar sem öllum leiðum til Hafnar hafði verið lokað vegna veðurs. Þessi fundur fór því að hluta fram á netinu og í skólastofu á Selfossi. Finnski þátttakandinn dvaldi hér á landi í nokkra daga eftir að fundinum og vinnu í tengslum við hann lauk og hefur á síðu ForestWell birt skemmtilega grein um heimsókn sína til Íslands sem lesa má hér. Myndin sem fylgir fréttinni er einmitt frá fundinum sem halda átti á Höfn.
ForestWell verkefninu lýkur á komandi vori en nú í haust verður blásið til viðburðar þar sem nemendur og starfsfólk FAS og nemendur og kennarar 6. og 7. bekkjar í Grunnskóla Hornafjarðar auk annarra áhugasamra aðila fara í Haukafell og planta þar 100 skógarplöntum og til að njóta þess góða ræktunarstarfs sem Skógræktarfélag Austur – Skaftafellssýslu hefur unnið á liðnum árum.
Viðburður þessi verður auglýstur á miðlum FAS þegar nær dregur og eru áhugasamir hvattir til að fylgjast með og taka þátt í skemmtilegum skógardegi.