Forsetakosningar í FAS 3. maí

Forsetaframbjóðendur kynna áherslur sínar.

Forsetaframbjóðendur kynna áherslur sínar.

Í hádeginu í dag stóð Nemendafélag FAS fyrir framboðsfundi vegna forsetakosninga sem fara fram næsta fimmtudag.
Tvö teymi hafa boðið sig fram. Það eru annars vegar Ástrós Aníta og Nanna Guðný og hins vegar Aðalsteinn og Bjarmi Þeyr.
Frambjóðendur kynntu helstu stefnumál sín og sátu síðan fyrir svörum.
Meðal þess sem stelpurnar vilja beita sér fyrir er að bjóða upp á fjölbreytta viðburði, að leitað verði leiða til að minnka árekstra í stundatöflu og eins að finna fleiri leiðir til að afla fjár fyrir nemendafélagið. Strákarnir ætla að beita sér fyrir fleiri böllum og auka alls konar fræðslu. Þá vilja þeir meira samband við aðra skóla og stefna á að taka þátt í stærri viðburðum á meðal framhaldsskóla.
Kosningar verða fimmtudaginn 3. maí. Kjörfundur hefst klukkan 9 og lýkur klukkan 13. Úrslit kosninganna verða kynnt á uppskeruhátíð FAS á föstudag klukkan 13. Við hvetjum nemendur til að nýta atkvæðisrétt sinn.

 

 

Góðar gjafir frá Kiwanisklúbbnum Ós

Kiwanis færir FAS gjafir.

Síðastliðinn föstudag afhentu félagar í Kiwanisklúbbnum Ós Nemendafélagi FAS gjafir til tómstundaiðkunar og gleði. Tilefni gjafanna er að bæði Kiwanisklúbburinn og FAS og þar með talið nemendafélagið fögnuðu 30 ára afmæli árið 2017. Því fannst klúbbfélögum við hæfi að styrkja „jafnaldra“ sína en um leið að skapa aðstöðu til tómstunda.
Gjafirnar sem um ræðir eru fótboltaspil og skákborð og hefur hvoru tveggja verið fundinn staður á efri hæðinni í aðstöðu nemenda.
Það voru skólameistari og forsetar nemendafélagsins sem veittu gjöfunum viðtöku frá kiwansifélögum.
Við þökkum fyrir góðar gjafir og erum viss um að þær verða vel nýttar.

Umhverfisdagur Nýheima og ráðhússins

Það verður sífellt mikilvægara að gera fólk meðvitað um umhverfi sitt og nauðsyn þess að umgangast það með velvild og virðingu. Þessi vika er helguð umhverfismálum í sveitarfélaginu okkar og ætlunin að bæði fegra og fræðast.
Í Nýheimum er starfandi umhverfisnefnd og koma nefndarmenn bæði úr röðum starfsfólks og nemenda.
Í síðasta tíma fyrir hádegi í dag var uppbrot eins og við kjósum að kalla það en þá fellur niður kennsla og nemendur fást við önnur verkefni. Umhverfisnefnd Nýheima skipulagði sameiginlegan fræðslufund fyrir íbúa í Nýheimum og ráðhúsi og var spjótunum sérstaklega beint að plasti og áhrifum þess á bæði umhverfi og lífríki. Fyrst voru sýnd stutt myndbönd og í framhaldinu var fundargestum skipt í fjögurra manna hópa þar sem átti að svara spurningum tengdum myndböndunum eða umhverfismálum sveitarfélagsins. Það var til mikils að vinna því efstu þrjú sætin hlutu verðlaun og svo var aukaspurning og fyrir rétt svar á henni fá þátttakendur ísveislu í Árbæ. Fyrir þriðja sætið gefur Pakkhúsið vinning, fyrir annað sætið býður fyrirtækið „Iceguide“ upp á kajaksiglingu. Fyrirtækið „Glacier adventure“ gefur sigurvegurunum jöklagöngu.
Það er skemmst frá því að segja allir lögðu sig fram og gerðu sitt besta. Þegar kom að því að skoða svörin við aukaspurningunni voru nokkur lið með rétt svar þannig að það þurfti að draga um vinningsliðið. Það var liðið „Haukur og hálfvitarnir“ sem að höfðu heppnina með sér. Í þriðja sæti í aðalkeppninni vann liðið „Pokarotturnar“ sem fær að fara í Pakkhúsið að borða. Tvö lið urðu jöfn í fyrsta sæti og þar þurfti því líka að draga um vinningshafa. Liðið „Endurnar“ hafnaði í öðru sæti og fær að launum kajaksiglingu og liðið „Haukur og hálfvitarnir“ sem stóðu uppi sem sigurvegarar og fá að fara í jöklagöngu.
Við erum ánægð með hvernig til tókst og vonandi verða sem flestir virkir í umhverfismálum.

[modula id=“9754″]

Fréttir af fjallamennskunemum

Á skíðum skemmti ég mér.

Nemendur í fjallamennskunámi FAS eru þessa vikuna í fimm daga vorferð. Þessi ferð er önnur af tveimur uppgjörsferðum vetrarins þar sem nemendur fá tækifæri til að nota flest það sem þeir hafa lært á námskeiðum vetrarins og nauðsynlegt er að kunna skil á í útivistar- og fjallaferðum.
Það er spennandi vika framundan hjá krökkunum en munu þau meðal annars þvera Kvíárjökul. Þá er fyrirhugað að ganga Sandfellsleið á Hvannadalshnjúk ef veður leyfir. Krakkarnir hafa bækistöð í tjöldum inni í Kjós og ganga þaðan um nærliggjandi svæði.
Lokaferð vetrarins verður farin í maí og þar koma nemendur til með að spreyta sig á leiðsögumannahlutverkinu ásamt annarri færni sem þeir hafa verið að tileinka sé í náminu.

Í lokin er vert að geta þess að innskráning er nú hafin fyrir komandi skólaár og hvetjum við alla sem hafa áhuga á fjallaferðum og útivist að kynna sér hvaða nám FAS býður upp á í fjallamennsku.

Fjallamennska – opið fyrir umsóknir

Nemendur í fjallamennsku leggja af stað í ferð.

Búið er að opna fyrir almennar umsóknir um nám í FAS næsta haust.  Námið í fjallamennsku er skipulagt sem tveggja anna sérhæfing sem getur staðið ein og sér eða verið hluti náms til stúdentsprófs.  Námið er 60 einingar og þar af eru 37 einingar skipulagðar ferðir og 10 til viðbótar í ferðir á eigin vegum.  Annað nám í fjallamennsku í FAS, 13 einingar, er skipulagt sem fjarnám.
Námið er ætlað þeim sem hafa áhuga á  fjallamennsku og einnig þeim sem hafa hug á að gera hana að atvinnu.  Nánari upplýsingar um skipulag námsins er á vefsíðu skólans.

Kræsingar og kruðerí

Það er nú ekki leiðinlegt að lenda í svona kaffiboði.

Það var margt um manninn á Nýtorgi í morgunkaffinu en þar buðu nemendur upp á ljúffengar kræsingar. Sameiginlegir kaffitímar allra íbúa í Nýheimum hafa heldur betur slegið í gegn í vetur og eru örugglega komnir til að vera. Það eru allir sammála um að þetta sé góð leið til að kynnast þeim sem hér daglega starfa og um leið að næra líkama og sál.
Það vill svo til að Guðrún Ása nemandi í FAS á átján ára afmæli í dag og var henni færð kaka og að sjálfsögðu var sungið fyrir hana. Til hamingju með afmælið Guðrún Ása.

[modula id=“9753″]