„Mig langar í þetta allt“

Í gær komu til okkar nemendur úr 10. bekk grunnskólans. Skólameistari, nokkrir kennarar og svo forsetar nemendafélagsins tóku á móti hópnum á Nýtorgi. Tilgangurinn með heimsókninni var að sýna nemendum skólann og segja frá möguleikum í námi í FAS. Þó að skólinn sé lítill er boðið upp á fjölbreytt nám sem miðar að þörfum hvers og eins. Flestir velja stúdentsbrautir en þar er hægt að velja um náttúrufræðibraut, hug- og félagsvísindabraut og svo kjörnámsbraut þar sem raðað er saman námi eftir áhuga og áherslum hjá hverjum og einum. Hægt er taka ýmis konar sérhæfingar og setja inn á kjörnámsbraut eins og til dæmis fjallamennskunám eða lista- og menningarsvið svo eitthvað sé nefnt. Margir velja einnig framhaldsskólabraut og líka þar er raðað saman námi eftir óskum hvers og eins.

Eftir að hafa fengið fræðslu um möguleika í námi sögðu forsetar skólans þær Arndís Ósk og Sóley Lóa frá félagslífinu og gengu með hópnum um skólann og svöruðu fyrirspurnum. Fljótlega mun svo verða fundur með foreldrum nemenda í 10. bekk þar sem farið verður yfir námsmöguleika í FAS. Foreldrar munu fá fundarboð fljótlega.

Það var gaman að fá krakkana í heimsókn. Þau voru áhugsöm og spurðu mikið. Einum nemanda varð að orði eftir að hafa fengið fræðslu og skoðað skólann: „Mig langar í þetta allt“.

[modula id=“9742″]

Fréttir af fjallamennskufólkinu okkar

Á Tröllaskaga

Á Tröllaskaga

Þessa vikuna  hafa nemendur í fjallamennskunáminu verið á Ólafsfirði og Siglufirði á fjallaskíðanámskeiði. FAS og Menntaskólinn á Tröllaskaga eru í góðu samstarfi varðandi þennan áfanga og sér norðanfólk um kennslu og að leggja til búnað sem þarf í námið. Auk þess að þjálfast í fjallaskíðaiðkun læra nemendur að lesa í snjóalög og aðrar aðstæður til að auka öryggi við skíðaiðkunina. Hópurinn er væntalegur heim annað kvöld.
Næsta verkefni fjallamennskunemanna verður að fara á jökul í Öræfunum með Einari Rúnari Sigurðssyni á Hofsnesi.

Íslandsdeild Amnesty veitir FAS viðurkenningu

Með viðurkenninguna góðu.

Í morgun kom til okkar góður gestur en það var Magnús Guðmundsson frá Íslandsdeild Amnesty. Erindi hans var að veita FAS viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í Bréf til bjargar lífi árið 2017. Nemendur FAS söfnuðu flestum undirskriftum miðað við nemendafjölda af öllum framhaldsskólum landsins. Samtals söfnuðu þeir 2.312 undirskriftum til stjórnvalda þar sem þrýst er á um úrbætur í mannréttindamálum. Það jafngildir því að hver nemandi í dagskóla FAS hafi safnað rúmlega 20 undirskriftum sem er frábært að sögn Magnúsar. Það er afar mikilvægt að láta sig sjálfsögð mannréttindi annarra varða og vonumst við til að nemendur og allir aðrir haldi áfram að styðja starfsemi samtakanna.
Þá má einnig geta þess að í vikunni fengu hornfirsk ungmenni viðurkenningu fyrir þátttöku í skuggakosningum sl. haust í tengslum við alþingiskosningar, en því verkefni er ætlað að vekja athygli á lýðræði og auka kjörsókn í  kosningum. Nemendaráð skipulagði þær kosningar og stefna einnig á að halda skuggakosningar í tengslum við sveitarstjórnarkosningar í vor.

[modula id=“9744″]

 

Fjallamennskunemendur á fyrstu hjálpar námskeiði

Fyrstu hjálparnámskeið í Lóni.

Um nýliðna helgi tóku nemendur í fjallamennskunámi í FAS þátt í fyrstu hjálparnámskeiði ásamt félögum í Björgunarfélagi Hornafjarðar. Elín Freyja Hauksdóttir læknir hafði yfirumsjón með námskeiðinu.
Fyrsta daginn var námskeiðið í húsi Slysavarnarfélagsins á Höfn þar sem var farið yfir grunnatriði fyrstu hjálpar. Á laugardag var farið í Arasel í Lóni þar sem haldið var áfram að fræðast og verklegar æfingar voru haldnar bæði inni og úti. Þátttakendur gistu aðfaranótt sunnudagsins í Araseli en námskeiðinu lauk um miðbik sunnudagsins.
Að loknu þessu námskeiði héldu nemendur í fjallamennsku norður á Tröllaskaga en í þessari viku læra þeir á fjallaskíði og fræðast um björgun úr snjóflóðum.

Áhrifarík námsferð til Reykjavíkur

“Ég á heima hér” varð nemanda í FAS að orði í skólaheimsókn í Reykjavík í vikunni en hópur nemenda og kennara af Menningar- og listasviði FAS í tveggja daga námsferð til Reykjavíkur.  Markmið ferðarinnar var að kynna nemendum þær námsleiðir sem í boði eru eftir nám í framhaldsskóla en mikill áhugi er á skapandi greinum meðal nemenda FAS um þessar mundir.  Í ferðinni var farið í Kvikmyndaskóla Íslands, Ljósmyndaskólann og Listaháskóla Íslands. Auk þess var farið í skoðunarferð í Þjóðleikhúsið og á sýningu útskriftarnema Ljósmyndaskólans.  Einnig var hópurinn svo heppinn að hitta á generalprufu á söngleiknum Framleiðendunum sem Nemendafélag Versló frumsýnir nú um helgina.
Hvarvetna var vel tekið á móti hópnum og góður rómur gerður að áherslu FAS á hinar skapandi greinar. Ferðin var afar lærdómsrík og skólaheimsóknirnar höfðu mikil áhrif á nemendur. Nokkur höfðu á orði að þau væru þegar staðráðin í að sækja um skólavist, svo hrifin voru þau af því sem fyrir augu bar.

[modula id=“9741″]

 

FAS og UNESCO umsóknin

Við Heinabergsjökul

Um liðna helgi var undirrituð tilnefning þess efnis að Vatnajökulsþjóðgarður verði á heimsminjaskrá UNESCO. Í því samhengi hafa augu beinst að rannsóknum og námi í náttúrufræði í FAS. Frá 1990 hafa nemendur tekið virkan þátt í því að fylgjast með umhverfinu, fyrst í tengslum við jöklamælingar og síðar gróðurframvindu og fuglatalningum. Er þetta meðvitaður liður í því að fá nemendur til að skoða nærumhverfi sitt.
Í morgun var morgunþáttur Rásar eitt helgaður tilnefningu Vatnajökulsþjóðgarðs og var rætt við þá sem að málinu komu. Einnig var rætt við Eyjólf skólameistara um nám í skólanum sem tengist þjóðgarðinum.
Fyrir þá sem ekki heyrðu er hægt að nálgast upptöku af þættinum í Sarpinum. Viðtalið við Eyjólf byrjar eftir eina klukkustund og rétt tæplega 19 mínútur.