Vinadagar í FAS

Síðustu daga hefur nemendafélagið í FAS staðið fyrir vinadögum. Allir sem vildu gátu tekið þátt og var þátttaka góð. Það hefur mátt sjá marga nemendur vera að laumupokast með snotra pinkla og hafa jafnvel kennarar verið notaðir til að koma pökkunum til skila.
Í gær var svo komið að því að ljóstra upp um leynivinina. Af því tilefni voru bakaðar kökur á Kaffi horninu og nemendafélagið fékk að skreyta litla salinn. Það var ágætlega mætt og voru veitingum gerðar góð skil.
Þetta er frábært framtak hjá nemendafélaginu og góð tilbreyting. Vonandi eru vinadagar komnir til að vera.

 

[modula id=“9743″]

Girnilegur morgunmatur á Nýtorgi

Auðbjörn og Oddleifur létu sig ekki vanta í morgunmatinn.

Á síðustu önn var ákveðið að blása til sameiginlegra stunda allra íbúa í Nýheimum. Stundum er sagt að besta leiðin til að ná til fólks sé í gegnum magann og því var ákveðið að íbúar hússins myndu skiptast á að bjóða upp á kræsingar. Alls voru fjórir slíkir samfundir á síðustu önn þar sem alls kyns gómsætir réttir voru bornir á borð.
Sameiginlegir kaffitímar á Nýtorgi mæltust svo vel fyrir að það var ákveðið að halda þeim áfram á þessari önn. Starfsfólk Menningarmiðstöðvar og utangarðsfólk riðu á vaðið og buðu upp á enskan morgunverð af bestu gerð. En til utangarðsfólks teljast þeir sem eiga í miklu samstarfi við Nýheima eins og t.d. starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs og Vöruhússins.
Það var vel mætt á Nýtorg í morgun og matnum voru gerð góð skil og því ættu allir að vera tilbúnir til að takast á við verkefni dagsins.

Val fyrir opna daga

Ástrós í góðum gír.

Í morgun fór fram kynning á því hvaða hópar verða í boði á opnum dögum en þeir eru 7. – 9. mars næst komandi. Margt mjög spennandi er í boði. Til dæmis er hægt að velja námskeið í fjallaklifri eða að fara í heimsókn í einhvern af framhaldsskólunum sem eru í samstarfi í gegnum Fjarmenntaskólann. En svo þarf líka að undirbúa árshátíð eða að leyfa sköpunargáfunni að njóta sín. Alls er hægt að velja um 16 mismunandi hópa.
Eftir kynninguna var tekið við skráningum. Þeir sem ekki voru á kynningunni í morgun geta séð inni á lesstofu hjá Sigga Palla eða Valdísi hvaða hópar eru í boði. Nemendur eru beðnir um að skrá sig á morgun og í síðasta lagi á miðvikudag.

„Mig langar í þetta allt“

Í gær komu til okkar nemendur úr 10. bekk grunnskólans. Skólameistari, nokkrir kennarar og svo forsetar nemendafélagsins tóku á móti hópnum á Nýtorgi. Tilgangurinn með heimsókninni var að sýna nemendum skólann og segja frá möguleikum í námi í FAS. Þó að skólinn sé lítill er boðið upp á fjölbreytt nám sem miðar að þörfum hvers og eins. Flestir velja stúdentsbrautir en þar er hægt að velja um náttúrufræðibraut, hug- og félagsvísindabraut og svo kjörnámsbraut þar sem raðað er saman námi eftir áhuga og áherslum hjá hverjum og einum. Hægt er taka ýmis konar sérhæfingar og setja inn á kjörnámsbraut eins og til dæmis fjallamennskunám eða lista- og menningarsvið svo eitthvað sé nefnt. Margir velja einnig framhaldsskólabraut og líka þar er raðað saman námi eftir óskum hvers og eins.

Eftir að hafa fengið fræðslu um möguleika í námi sögðu forsetar skólans þær Arndís Ósk og Sóley Lóa frá félagslífinu og gengu með hópnum um skólann og svöruðu fyrirspurnum. Fljótlega mun svo verða fundur með foreldrum nemenda í 10. bekk þar sem farið verður yfir námsmöguleika í FAS. Foreldrar munu fá fundarboð fljótlega.

Það var gaman að fá krakkana í heimsókn. Þau voru áhugsöm og spurðu mikið. Einum nemanda varð að orði eftir að hafa fengið fræðslu og skoðað skólann: „Mig langar í þetta allt“.

[modula id=“9742″]

Fréttir af fjallamennskufólkinu okkar

Á Tröllaskaga

Á Tröllaskaga

Þessa vikuna  hafa nemendur í fjallamennskunáminu verið á Ólafsfirði og Siglufirði á fjallaskíðanámskeiði. FAS og Menntaskólinn á Tröllaskaga eru í góðu samstarfi varðandi þennan áfanga og sér norðanfólk um kennslu og að leggja til búnað sem þarf í námið. Auk þess að þjálfast í fjallaskíðaiðkun læra nemendur að lesa í snjóalög og aðrar aðstæður til að auka öryggi við skíðaiðkunina. Hópurinn er væntalegur heim annað kvöld.
Næsta verkefni fjallamennskunemanna verður að fara á jökul í Öræfunum með Einari Rúnari Sigurðssyni á Hofsnesi.

Íslandsdeild Amnesty veitir FAS viðurkenningu

Með viðurkenninguna góðu.

Í morgun kom til okkar góður gestur en það var Magnús Guðmundsson frá Íslandsdeild Amnesty. Erindi hans var að veita FAS viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í Bréf til bjargar lífi árið 2017. Nemendur FAS söfnuðu flestum undirskriftum miðað við nemendafjölda af öllum framhaldsskólum landsins. Samtals söfnuðu þeir 2.312 undirskriftum til stjórnvalda þar sem þrýst er á um úrbætur í mannréttindamálum. Það jafngildir því að hver nemandi í dagskóla FAS hafi safnað rúmlega 20 undirskriftum sem er frábært að sögn Magnúsar. Það er afar mikilvægt að láta sig sjálfsögð mannréttindi annarra varða og vonumst við til að nemendur og allir aðrir haldi áfram að styðja starfsemi samtakanna.
Þá má einnig geta þess að í vikunni fengu hornfirsk ungmenni viðurkenningu fyrir þátttöku í skuggakosningum sl. haust í tengslum við alþingiskosningar, en því verkefni er ætlað að vekja athygli á lýðræði og auka kjörsókn í  kosningum. Nemendaráð skipulagði þær kosningar og stefna einnig á að halda skuggakosningar í tengslum við sveitarstjórnarkosningar í vor.

[modula id=“9744″]