Líkt og undanfarin ár hefur tómstundastarf í FAS farið fram í gegnum klúbba. Einn klúbbanna sem er starfræktur kallast viðburðaklúbbur og eins og nafnið segir til um stendur hann fyrir ýmsum uppákomum.
Á miðvikudagskvöldið stóð klúbburinn fyrir bíókvöldi í skólanum. Horft var á myndina The Impossible. Áður en myndin hófst gæddu bíógestir sér á pizzum og létu síðan fara vel um sig á dýnum sem þeir fengu að láni í íþróttahúsinu. Það var ljómandi góð mæting og almenn kátína með viðburðinn. Þá voru húsverðirnir sérstaklega ánægðir með góða umgengni. (Að þessu sinni gleymdist að taka mynd en úr því verður bætt í næsta viðburði).
Í næstu viku er ætlunin að blása til dansleiks í Sindrabæ og er líklegt að Óli Geir muni „þeyta skífurnar“ og halda uppi fjörinu. Ballið mun verða auglýst nánar þegar nær dregur.
Logó SÍF (Sambands íslenskra framhaldsskólanema).
Framhaldsskólar á Íslandi eiga sér hagsmunafélag nemenda og heitir það félag Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF). Sér það meðal annars um sameiginlega viðburði fyrir nemendafélögin eins og t.d. MORFís og Gettu betur. Núna eiga 32 framhaldsskólar á Íslandi aðild að SÍF.
Um síðastliðna helgi fór fram aðalþing SÍF þar sem hefðbundin aðalfundarstörf fara fram eins og t.d. að kjósa í stjórnir og marka helstu áherslur. Nú var sérstaklega fjallað um aukna þörf fyrir sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum og málefni innflytjenda og nemenda með fötlun.
Héðan frá FAS fóru þrír nemendur og mun þátttaka þeirra á þinginu gagnast inn í félagsstörf skólans á komandi vetri.
Síðasta fimmtudag og föstudag var haldinn haustfundur Ungmennaráðs Suðurlands en þar á FAS einn fulltrúa. Þar var margt rætt en sérstaklega var fundargestum hugleikinn skortur á námsráðgjöfum í bæði grunn- og framhaldsskólum. Einnig var rætt um versnandi fjármælalæsi ungs fólks, jafningjafræðslu, fíkniefnavanda og kynjafræði. Á fundinn komu gestir frá SASS (Samband sunnlenskra sveitarfélaga) og munu þeir vinna áfram með niðurstöður fundarins.
Það er frábært að unga fólkið okkar skuli eiga fulltrúa á báðum þessu stöðum og hafa um leið tækifæri til að fylgjast með því helsta sem er á döfinni hverju sinni.
Oskar Avila upplýsinga- og menningarmálastjóri bandaríska sendiráðsins á Íslandi.
Í dag var komið að fyrsta uppbroti vetrarins eins og við köllum það hér í FAS. Þá fellur kennsla niður í einn tíma og nemendur safnast saman til að fást við eitthvað annað en námið.
Núna kom góður gestur í heimsókn. Það var Oscar Avila sem er upplýsinga- og menningarfulltrúi bandaríska sendiráðsins á Íslandi. Hann á uppruna sinn í Bólivíu en flutti ungur til Bandaríkjanna og skilur því vel fólk sem þarf að læra nýtt tungumál. Það var ekki annað að heyra en að hann kynni íslensku nokkuð vel.
Oscar var hingað kominn til að segja frá starfsemi sendiráðsins. Það er svo sannarlega fjölbreytt og varðar bæði alls konar samstarf milli landanna auk þess að aðstoða og greiða leið þeirra sem vilja sækja Bandaríkin heim eða koma til Íslands.
Síðast en ekki síst vildi Oscar kynna möguleika ungs fólks til að sækja nám til Bandaríkjanna. Þar eru svo sannarlega margir möguleikar sem nemendur ættu að hafa í huga þegar þeir fara að huga að framhaldsnámi í framtíðinni.
Við þökkum Oskar Avila kærlega fyrir komuna og allar upplýsingarnar.
Hafragrauturinn er frábær hjá Dísu.
Við erum afar ánægð að geta sagt frá því að veitingasala Nýheima er nú opin og stendur bæði nemendum og starfsmönnum hússins til boða. Það er gleðilegt ekki síst í ljósi þess að FAS er heilsueflandi framhaldsskóli og við vitum að góð næring skiptir miklu máli til að ná árangri. Það er Hafdís Gunnarsdóttir sem stendur vaktina í veitingasölunni.
Í löngu frímínútunum klukkan 10:05 er hægt að fá hafgragraut sem að svo sannarlega er góð næring og gott innlegg fyrir daginn.
Í hádeginu er síðan hægt að velja um að fá heitan mat eða súpu og salat. Það er hins vegar nauðsynlegt að skrá sig ef fólk hefur áhuga á að fá graut eða hádegismat.
Heitur matur fyrir alla önnina eða fram til 20. desember kostar 62.000 og súpa og salat kostar 40.000. Það er einnig hægt að kaupa tíu miða kort og velja hvaða daga miðarnir eru nýttir. Þeir sem velja þá leið þurfa hins vegar á föstudegi að skrá máltíðir fyrir komandi viku. Það er nauðsynlegt svo vitað sé hve margir borða á hverjum degi. Tíu miða kort fyrir heitan mat kosta 12.000 og fyrir þá sem velja salat og súpu 8.000.
Nú þegar hafa allmargir skráð sig í mat en enn er hægt að slást í hópinn. Þeir sem vilja fá nánari upplýsingar eða kaupa áskrift eða miða er bent á skrifstofu skólans.
Í þessari viku fer fram námskeiðið Gönguferð 1 í fjallamennskunáminu. Um hádegisbil á þriðjudag lögðu fjallamennskunemar ásamt tveimur kennurum upp í þriggja daga gönguferð eftir að hafa varið mánudegi og þriðjudagsmorgni í að undirbúa veturinn og læra undirstöðuatriðin í ferðamennsku til fjalla og rötun með áttavita og korti.
Gengið var inn Laxárdal í Nesjum og um Endalausadal yfir í Lón. Hópurinn ferðaðist með allt sem til þurfti á bakinu, en áherslan í þessari ferð er að ná tökum á rötun með notkun korts og áttavita sem og að ferðast með allt á bakinu og gista í tjöldum.
Hópurinn gisti eina nótt í Laxárdal og eina nótt í Endalausadal. Ferðin gekk mjög vel, enda veður gott þó kalt hafi verið á nóttinni eins og búast má við þegar nær dregur vetri.
[modula id=“9760″]
Árið 2009 voru settir niður fimm 25 fermetra reitir á Skeiðarársandi á vegum FAS. Tilgangurinn var að fara með nemendur á sandinn til að fylgjast með framvindu gróðurs á svæðinu og þá einkum birkitrjáa en þá var farið að bera á mörgum plöntum um miðbik sandsins.
Síðan 2009 hefur verið farið árlega á sandinn með nemendahóp og í dag var komið að 10. ferðinni. Að þessu sinni voru tæplega 20 nemendur í ferðinni auk kennara og Kristínar og Lilju frá Náttúrustofu Suðausturlands. Landið skartaði sínu fegursta og veðrið lék við okkur á sandinum en þar var sól, logn og 12 stiga hiti.
Áður en farið er af stað er nemendum skipt í hópa og hver nemandi hefur ákveðið hlutverk. Það skiptir miklu máli svo að vinnan á vettvangi gangi sem best. Vinnan beinist mest að reitunum fimm en á göngu á milli reitanna höfum við séð tré sem eru stærri en þau sem eru inni í okkar reitum. Fyrir ferðina í dag ákváðum við að merkja og mæla 3 tré sem eru utan reita en eru orðin nokkuð há. Hæsta tréð sem við mældum í dag er staðsett ofan í jökulkeri og mældist það 3,34 metrar.
Næstu daga munu nemendur vinna úr gögnunum sem var safnað saman í dag og vinna skýrslu um ferðina. Í lokin er vert að taka fram að hópurinn í dag vann vel og kom heim um margt fróðari.
[modula id=“9759″]