Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the all-in-one-wp-security-and-firewall domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Please see Debugging in WordPress for more information. (This message was added in version 6.7.0.) in /var/www/virtual/fas.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Fréttir | FAS

Kaffiboð á Nýtorgi

Fyrir Covid voru nokkrum sinnum á ári sameiginlegir kaffitímar á Nýtorgi. Þá skiptust íbúar hússins á að koma með veitingar. Aðaltilgangurinn var að íbúar hússins myndu koma saman og sjá hversu margir starfa alla jafnan í húsinu. En auðvitað líka að eiga góða stund yfir kaffi og meðlæti.

Eftir Covid hefur nokkrum sinnum verið imprað á því að gaman væri að endurvekja þessa sameiginlegu kaffitíma. Og í dag var komið að fyrsta sameiginlega kaffiboðinu á Nýtorgi og það voru kennarar og starfsfólk FAS sem riðu á vaðið. Það var gaman að sjá hversu margir gáfu sér tíma til að kíkja við og ekki annað að sjá en gómsætar veitingarnar rynnu ljúflega niður. Við erum strax farin að hlakka til næsta kaffiboðs.

 

Fókus á álftatalningu

Í dag var komið að árlegri ferð upp í Lón en það er eitt af vöktunarverkefnum í umhverfis- og auðlindafræði í FAS að fylgjast með álftum. Aðaltilgangurinn að telja álftir á Lónsfirði en við komum líka við á urðunarstaðnum í Lóni og fengum að sjá og fræðast um úrgangsmál í sveitarfélaginu. Xiaoling Yu umhverfisfulltrúi sveitarfélagsins tók á móti okkur á urðunarstaðnum og sagði okkur frá svæðinu. Allt rusl sem ekki er hægt að endurvinna er sett í urðunargryfjuna og einnig lífrænn úrgangur. Það var nokkuð ljóst þegar við gengum um svæðið að við sem samfélag getum staðið okkur töluvert betur í því að flokka. Við sáum töluvert af alls kyns plasti, pappa og jafnvel járnadrasli á svæðinu en þetta rusl hefði auðveldlega mátt flokka.

Eftir heimsóknina á urðunarstaðinn var keyrt sem leið liggur að Hvalnesi en þar er fyrsti talningastaðurinn. Að þessu sinni var það Binni frá Fuglaathugunarstöð Suðausturlands sem fór fyrir hópnum. Við Hvalnes sáust engar álftir en í fjarska mátti sjá nokkuð af æðarfugli. Venjulega hefur verið töluvert af álft á þessu svæði. Binni er með þá kenningu að langvarandi frost í fyrravetur hafi farið illa með gróður þegar þessi hluti fjarðarins var frosinn mánuðum saman og hann sé ekki búinn að ná sér á strik aftur. Næsta stopp var við útsýnispallinn og þar voru taldar um 600 álftir en einnig þar var töluvert af æðarfugli. Þriðji og síðasti talningastaðurinn er svo við afleggjarann að Svínhólum og þar var mest af fugli talið. Alls voru taldar tæplega 2000 álftir í dag en að sögn Binna streyma fuglarnir nú til landsins þessa dagana svo það er líklegt að álftunum muni fjölga á firðinum á næstunni.

Ferðin í dag gekk ljómandi vel, fókusinn var á fuglatalninguna og það vildi svo skemmtilega til að talningafólkið eru stelpurnar okkar í Fókus. Næstu daga munu stelpurnar vinna að skýrslu um ferðina.

Anna Lára vinnur ferð til Þýskalands

Félag þýzkukennara hefur um árabil með stuðningi frá Goethe Institut og Þýska sendiráðinu staðið fyrir samkeppni sem kallast Þýskuþraut. Þar gefst nemendum sem eru komnir áleiðis í námi kostur á að taka þátt í þýskuprófi til að sjá hver staða þeirra er miðað við jafnaldra í öðrum skólum. Nemendur í FAS hafa oft tekið þátt í gegnum árin og mörgum hefur gengið ágætlega. Félagið stendur líka fyrir stuttmyndasamkeppni og eru bæði þrautin og stuttmyndasamkeppnin liður í að kynna þýsku fyrir nemendum.

Síðustu árin hefur þrautinni verið skipt í tvö stig og fer skiptingin eftir því hversu langt nemendur eru komnir á náminu. Stig eitt gerir ráð fyrir að nemendur taki þrjá áfanga í þýsku til stúdentsprófs en á stigi tvö hafa nemendur lokið 4 – 6 áföngum. Hér í FAS þurfa nemendur að taka fjóra áfanga í þriðja máli til stúdentsprófs.

Að þessu sinni völdu þrír nemendur í FAS að taka þátt í prófinu og tóku þau þrautina á stigi tvö. Prófin eru svo send til Félags þýzkukennara sem fer yfir úrlausnirnar. Það er til nokkurs að vinna því fyrir efstu sætin á hvoru stigi er í boði hálfsmánaðar ferð í sumarbúðir í Þýskalandi. Að auki var ákveðið að draga einn úr hópi 20 efstu sem gæti einnig farið í sumarbúðirnar. Þegar úrslit í þrautinni voru kunngerð var ljóst að allir þrír nemendur FAS höfðu staðið sig ljómandi vel. Anna Lára Grétarsdóttir gerði sér lítið fyrir og varð efst keppenda á stigi tvö og er því á leið til Þýskalands seinni partinn í júlí.

Laugardaginn 16. mars stóð Félag þýzkukennara fyrir verðlaunahátíð fyrir bæði Þýskuþrautina og stuttmyndasamkeppnina. Þar mætti Anna Lára og tók á móti viðurkenningu fyrir frammistöðuna og hitti aðra verðlaunahafa. Við óskum Önnu Láru hjartanlega til hamingju og hlökkum til að heyra af ferðalaginu í sumar.

Opnum dögum lýkur – nýr framhaldsskólameistari í Hornafjarðarmanna

Í dag er þriðji og síðasti dagur opinna daga og mikið búið að vera um að vera. Morguninn byrjaði líkt og fyrri dagar á morgunleikfimi. Að því loknu fengum við góða gesti. Það voru læknanemar frá Ástráði með fræðslu um kynlíf, kynheilbrigði og samskipti. Í löngu pásunni höfðu nemendur val um það hvort hafragrauturinn yrði snæddur úti eða inni og völdu einhverjir að setjast að snæðingi fyrir utan Nýheima.

Þá var komið að því að spila Hornafjarðarmanna en það hefur verið reglulega gert frá árinu 2004. Það var sjálfur útbreiðslustjórinn Albert Eymundsson sem kom og stýrði spilinu. Í upphafi var spilað á 10 borðum en þegar kom að úrslitaspilinu að þá voru það Agnes Heiða, Gunnar Óli og Ingólfur sem áttust við. Á endanum var það Gunnar Óli sem stóð uppi sem nýkrýndur framhaldsskólameistari og fékk hann að launum miða á árshátíðina sem verður annað kvöld.

Í hádeginu voru grillaðir hamborgarar og að venju voru þeim gerð góð skil. Eftir hádegið var verið að kynna nám í hússtjórnarskólum og lýðháskólum og var sú kynning í höndum Kristjáns og Línu. Þá var hægt að stunda ýmis konar hreyfingu, t.d. að spila fótbolta eða fara í líkamsrækt. Opnum dögum lauk svo með því að nemendur hittust í nokkrum smærri hópum þar sem var verið að meta starfið síðustu daga. Það er skemmst frá því að segja að nemendur eru mjög sáttir við fyrirkomulagið og hafa átt góðar stundir.

Annað kvöld verður svo árshátíð skólans. Borðhaldið verður á Heppunni og ball á eftir á Hafinu.

Áfram halda opnir dagar í FAS

Í dag var áfram haldið með dagskrá opinna daga. Líkt og í gær var margt og mikið á boðstólum. Dagurinn hófst á morgunleikfimi á Nýtorgi og að því loknu var snyrtivörunámskeið þar sem þátttakendur voru m.a. að búa til andlitsmaska. Á sama tíma var haldið borðtennismót í Þrykkjunni. Eftir morgungrautinn var komið að spurningakeppni á milli kennara og nemenda og það voru kennarar sem báru sigur úr býtum.

Margt annað var á dagskrá í dag. Stelpurnar í Fókus voru með kynningu og þá kynnti Andrea Sól skiptinám en hún er nýlega komin eftir rúmlega 10 mánaða dvöl í Japan. Þá var möguleiki að eiga kaffispjall með Barða á kennarastofunni, boðið var upp á yndislestur á bókasafninu og einnig var hægt að taka þar í spil. Einhverjir völdu að spila badminton í íþróttahúsinu, aðrir fóru á crossfit-æfingu og nokkrir fengu prófa nýja golfherminn í golfskálanum.

Í lok dags var svo efnt til vöfflusamsætis á Nýtorgi. Þar runnu nýbakaðar vöfflur ljúflega niður og allir héldu saddir og sælir heim eftir daginn.

Fyrsti dagur opinna daga í FAS

Í dag hófust opnir dagar í FAS en þá er hefðbundið nám sett til hliðar í þrjá daga og nemendur fást við allt annað. Skipulagið að þessu sinni er frábrugðið því sem við höfum átt að venjast síðustu ár. Núna eru opnir dagar settir saman úr mörgum smærri viðburðum. Nemendur þurfa að taka þátt í um 20 mismunandi viðburðum til að fá einingu í námsferilinn.

Það hefur heldur betur verið komið víða við í dag. Nemendur byrjuðu daginn á morgunleikfimi á Nýtorgi og í kjölfarið hafa verið kynningar, alls kyns örnámskeið, útivist, kynningar á ýmsum íþróttum utan FAS og svo spilamennska.

Dagurinn hefur gengið ljómandi vel og ekki annað að sjá en allir séu sáttir.