Rafræn ráðstefna ForestWell verkefnisins sem FAS er þátttakandi í verður haldin fimmtudaginn 7. nóvember kl. 11:00 – 12:30. Á ráðstefnunni verður fjallað um opið aðgengi að rafrænu námsefni, ferðaþjónustu, heilsueflingu og síðast en ekki síst skóga.
Ráðstefnan er öllum opin og er um að gera fyrir áhugafólk að skrá sig til þátttöku HÉR.
Vísindadagar að þessu sinni heppnuðust ljómandi vel. Við höfum áður sagt frá því að þeir tengist verkefninu HeimaHöfn sem er samstarfsverkefni Nýheima þekkingarseturs og Sveitarfélagsins Hornafjarðar.
Nemendur unnu í smærri hópum að því að kynna sér ýmsar starfsstöðvar í Nýheimum og ráðhúsi. Í byrjun vikunnar þurfti hver hópur að afla sér upplýsinga um sína starfsstöð og búa til spurningar til að fá að vita enn meira. Á þriðjudag tóku nemendur viðtöl sem þeir tóku upp á símana sína. Í framhaldinu bjó hver hópur til stutt myndband sem er ætlað að gefa góða yfirsýn yfir viðkomandi stofnun eða starfsstöð. Lögð var áhersla á hóparnir mynda afla sér upplýsinga um hvernig unnið er á þverfaglegan hátt þar sem á sama tíma er verið að nýta ólíkar greinar til að ná sama markmiði. Þess háttar vinnan er kölluð STEAM sem stendur fyrir fræðagreinar á sviði verkfræði, stærðfræði, lista, raunvísinda og náttúruvísinda.
Í lok vísindadaga í gær voru myndböndin sýnd. Hver hópur þurfti einnig að skoða hvernig STEAM tengist í vinnu hverrar starfsstöðvar. Það var gaman að sjá skemmtileg myndbönd hjá hópunum og greinilegt krakkarnir höfðu lært margt nýtt í þessari viku.
Í morgun hófust vísindadagar í FAS en þá leggst hefðbundin kennsla af í þrjá daga og nemendur fást við önnur verkefni. Vinnan núna er framhald á verkefninu HeimaHöfn en það er samstarfsverkefni Nýheima þekkingarseturs og Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Það verkefni hófst í upphafi skólaárs og felur í sér náið samstarf með ungu fólki, fulltrúum úr atvinnulífinu, skólum og öðrum hagsmunaaðilum á svæðinu.
Vísindadagar núna tengjast stofnunum Nýheima og starfsstöðvum ráðhússins. Nemendur eiga að kynnast þeim störfum sem unnin eru dags daglega, hvaða menntun starfsfólk þarf að hafa til að sinna vinnunni og hvaða máli starfið skiptir fyrir bæði viðkomandi stofnun og samfélagið. Vinnan á vísindadögum núna er það sem oft er kallað þverfagleg, en þá er á sama tíma verið að nýta ólíkar greinar til að ná sama markmiði. Vinnan á þennan hátt hefur verið kölluð STEAM sem er alþjóðleg skammstöfun og stendur fyrir fræðagreinar á sviði verkfræði, stærðfræði, lista, raunvísinda og náttúruvísinda.
Nemendur eiga í litlum hópum að afla sér þekkingar um þá stofnun eða starfsstöð sem þeir völdu. Á morgun, þriðjudag gefst nemendur kostur á að heimsækja starfstöðina og afla frekari upplýsinga. Í framhaldinu búa nemendur svo til stutt myndband sem ætlunin er að sýna í lok vísindadaga.
Það verður spennandi að sjá afrakstur vinnunnar í lok vísindadaga.
Nemendur og kennarar í FAS prufukeyrðu námsefni Forestwell verkefnisins í vikunni. Þátttakendur voru tólf og fengu þeir stutta kynningu á verkefninu, tilgangi þess og afurðum. Þátttakendur kynntu sér heimasíðuna og námsumhverfið þar, m.a. AR umhverfið (Augmented Reality – viðbættur veruleiki) og fóru í „skógarferð“ innan skólans í símanum sínum. Þátttakendur voru einnig upplýstir um það til hvers væri ætlast af þeim með þátttöku sinni í prufukeyrslunni. Lögð var áhersla á að þátttakendur rýndu til gagns og myndu koma á framfæri því sem þeir teldu að betur mætti fara varðandi heimasíðuna og námsefnið þegar kæmi að því að svara könnuninni. Þátttaka í könnuninni var góð og komu þar fram gagnlegir þættir sem nýtast munu til að bæta framsetningu námsefnisins.
Næstu skref í ForestWell verkefninu verður rafræn ráðstefna sem haldin verður 7. nóvember n.k. Þar verður verkefnið kynnt fyrir bæði tengslaneti verkefnisins og öðrum áhugasömum þátttakendum. Þar verður einnig leitað eftir áliti þátttakenda á verefninu í umræðuformi og með stuttri könnun. Nánari upplýsingar varðandi ráðstefnuna fara í loftið á næstu dögum. Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar farið var í ,,skógarferð“ í símunum í gegnum forritið.
Það hefur verið mikið um að vera hjá hópnum sem lagði af stað til Finnlands síðasta föstudag. Við komum á áfangastað á laugardagskvöldi og nemendur fóru þá til gestafjölskyldna sinna. Norðmennirnir í verkefninu komu svo til Vaala á sunnudagskvöldið. Þegar allir eru komnir saman telur hópurinn um 40 manns.
Dagskrá hófst strax á mánudagsmorgni þar sem nemendur kynntu sín þátttökulönd, skoðuðu skólann og hófu hópavinnuna. Það er verið að fjalla um náttúrulegar auðlindir og nýtingu þeirra í verkefninu og við förum á nokkra staði á meðan á heimsókninni stendur til að fræðast um auðlindir í Finnlandi. Fyrsta daginn heimsóttum við stórt kúabú þar sem sjálfbærni og lágt vistspor er haft að leiðarljósi. Á þriðjudag fengum við fræðslu um sveitarfélagið og mikilvægi sveitarfélaga í því að vernda náttúrulegar auðlindir í umhverfinu. Þá fengum við fyrirlestur í gegnum netið um orkuöflun í Finnlandi, þar á meðal kjarnorku. Miðvikudeginum eyddum við í Rokua jarðvanginum þar sem við fræddumst um grunnvatn á svæðinu og hvernig það hreinsast í gegnum jarðlög á löngum tíma. Fyrri hluti fimmtudags var notaður til að rölta um Vaala og fræðast um svæðið. Þar var m.a. komið við hjá vatnsaflsvirkjun sem framleiðir rafmagn fyrir svæðið.
Þegar þessi frétt fer í loftið eru nemendahóparnir að leggja lokahönd á verkefnavinnuna og síðar í dag verður afrakstur vinnunnar kynntur. Þá lýkur formlegri dagskrá að þessu sinni. Hóparnir hittast svo aftur á Íslandi næsta vor.
Á morgun á hópurinn langa ferð fyrir höndum. Íslenski hópurinn leggur af stað fyrir hádegi og ef allt fer samkvæmt áætlun ættum við að koma heim á Höfn á miðnætti annað kvöld. Meðfylgjandi mynd var tekin í heimsókn á kúabúið á mánudag.
Um hádegisbil í dag lagði af stað hópur nemenda ásamt tveimur kennurum áleiðis til Vaala í Finnlandi. Þessi heimsókn er hluti af Nordplus Junior verkefni sem fjallar um náttúrulegar auðlindir og nýtingu þeirra. Auk Finnlands og Íslands taka nemendur frá Noregi þátt í verkefninu.
Næstu viku dvelja tæplega 40 krakkar saman í Vaala og fara bæði í nokkrar heimsóknir og vinna að ýmsum verkefnum. Auk vinnu í tengslum við verkefnið ætla hóparnir að gera ýmislegt til skemmtunar eins og að læra og spila finnskan hafnabolta og elda saman.
Nánar verður sagt frá verkefninu á vefsíðu verkefnisins https://nr.fas.is/