Dagana 3. – 8. mars fór fram námskeiðið Skíðaferð 2. Námskeiðið var keyrt í samstarfi við Menntaskólann á Tröllaskaga eins og Fjallaskíði 1 sem haldið var fyrr í vetur. Á námskeiðinu var lögð mikil áhersla á skíðatækni og að nemendur yrðu öruggir á skíðum, auk þess sem nemendur kynntust gönguskíðum.
Fyrsti og seinasti dagur námskeiðsins fóru í akstur milli Hafnar og Ólafsfjarðar. Hópurinn hafði aðsetur í sumarbústað í Ólafsfirði og kennslan hófst yfirleitt á fyrirlestrum og öðrum verkefnum í nágrenni við bústaðinn fyrir hádegi og síðan skellti hópurinn sér á skíði á og við skíðasvæðið á Siglufirði eftir hádegið, að undanskildum einum degi þar sem þau lærðu á gönguskíði á gönguskíðasvæðinu í nágrenni við MTR á Ólafsfirði.
Fyrsta kennsludaginn var farið yfir skíðatækni og fleira á skíðasvæðinu á Siglufirði. Þar fengu allir eitthvað við sitt hæfi, byrjendur sem og lengra komnir. Dagurinn eftir var helgaður snjóflóðapælingum og félagabjörgun úr snjóflóði. Þriðja daginn lærðu nemendur á gönguskíði og fjórði og seinasti kennsludagurinn var helgaður því að skíða sem mest og þeir sem treystu sér nýttu fjallaskíðabúnaðinn og fóru utan brautar í nágrenni við skíðavæðið.
Það voru svo þreyttir en ánægðir nemendur sem komu í FAS að lokinni sex daga ferð. Ferðin gekk í heild sinni mjög vel og aðstæður fyrir norðan til fyrirmyndar fyrir skíðakennslu.
Kennarar námskeiðsins voru Sólveig Valgerður Sveinbjörnsdóttir og Guillaume Kollibay og tóku þau meðfylgjandi myndir. Fleiri myndir úr ferðinni má sjá hér
[modula id=“9776″]

Fílamaðurinn.
Ekki vera hrædd!! Þið upplifið eitthvað alveg sérstakt í Mánagarði ef þið komið á sýningu FAS og Leikfélags Hornafjarðar á Fílamanninum.
- desember 1886
Bréf til ritstjóra The Times
Kæri herra!
Ég skrifa þetta bréf vegna manns á spítalanum. Hann þarfnast hjálpar yðar. Hann heitir Joseph Merrick og er 27 ára gamall. Hann er ekki veikur, en hann getur ekki farið út af spítalanum vegna þess að hann er mjög, mjög ljótur. Sumum líður illa að horfa á hann og eru ákaflega hræddir við hann. Við köllum hann Fílamanninn. Fyrir tveimur árum, bjó Merrick í búð nærri London sjúkrahúsinu. Fyrir tvö penný gat fólk komið og skoðað hann og hlegið að honum. Dag einn sá læknir spítalans, Dr Frederick Treves, Merrick. Hann bauð honum til spítalans og skoðaði hann vandlega. Dr Treves gat ekki hjálpað Merrick en gaf honum nafnspjald sitt.
Silcock umboðsmaður og sýningahaldari fór með Merrick til Belgíu. Fjöldi fólks kom á sýningar þeirra. Þannig að eftir ár hafði Merrick safnað 50 pundum. En Silcock tók peninga Merrick og skildi hann eftir en stakk af sjálfur til London. Merrick kom sér síðan sjálfur til London. Allir um borð í lestinni og skipinu störðu á hann og hlógu að honum. Í London stakk lögreglan honum í fangelsi. Þar fundu þeir nafnspjald Dr Treves og komu með Merrick til London sjúkrahúss. Þessi maður á enga peninga og getur ekki unnið. Líkami hans og andlit er mjög, mjög ljótt. Þess vegna eru margir hræddir við hann. En hann er hins vegar áhugaverður. Hann kann að lesa og skrifa og hugsar mikið. Hann er hljóðlátur, góður maður. Stundum gerir hann fallega hluti með vinstri höndinni og gefur þá hjúkrunarkonunum, vegna þess að þær eru góðar við hann.
Hann man eftir móður sinni og er með mynd af henni. Hún var falleg og góð segir hann. En hann hefur ekki hitt hana síðan hún færði Silcock hann fyrir löngu síðan.
Geta lesendur The Times hjálpað okkur? Þessi maður er ekki veikur, en hann þarf á heimili að halda. Við höfum herbergi í spítalanum en við þurfum á peningum að halda.
Vinsamlega skrifaðu mér til London sjúkrahússins.
Virðingarfyllst
F.C Carr Gomm
Formaður London sjúkrahúss
Þetta bréf skrifaði formaður The Royal hospital off London til ritstjóra The Times til að reyna að afla peninga til sjúkrahússins svo þar yrði hægt að útbúa einhvers konar heimili fyrir Joseph Merrick. Söfnun var sett í gang og það söfnuðust 50.000.- pund sem tryggðu Fílamanninum heimili á sjúkrahúsinu til æviloka en hann lést 29 ára gamall. Herbergi var útbúið í gamalli kolakompu í kjallara sjúkrahússins.

Guðbjörg og Guðrún Ósk með fjármálafræðslu í FAS.
Í dag var komið að enn einu uppbrotinu á vorönninni en þá er kennsla felld niður í einum tíma og nemendur fá fræðslu um tiltekið efni.
Það voru þær Guðbjörg og Guðrún Ósk frá Landsbankanum á Höfn sem komu og voru með fræðslu í tengslum við fjármál. En þær eru með fræðslu á vegum Fjármálavits. Meðal annars var farið í gegnum launaseðla og skoðað hvernig eigi að lesa og skilja þá og í hvað frádráttarliðir fara. Ýmis hugtök voru útskýrð eins og lífeyrissjóður, viðbótarlífeyrissparnaður og skattstofn.
Þær lögðu mikla áherslu á mikilvægi þess að spara og safna sér fyrir því sem á að kaupa. Þar safnast margt smátt saman og gerir fólki á endanum kleift að láta drauma sína rætast.
Krakkarnir voru duglegir að spyrja og það var greinilegt að það er ekki vanþörf á svona fræðslu. Við þökkum þeim Guðbjörgu og Guðrúnu Ósk kærlega fyrir komuna og fræðsluna.
Í dag var komið að árlegri álftatalningaferð í Lónið en það er reynt að fara alltaf á svipuðum árstíma svo samanburður á milli ára verði sambærilegur. Auk nemenda frá FAS voru Björn Gísli frá Fuglaathugunarstöðinni og Kristín frá Náttúrustofu Suðausturlands með í för.
Það er alltaf talið á þremur stöðum; við Hvalnes, á útsýnispalli og við afleggjarann að Svínhólum. Það var nokkuð af þunnu ísskæni á lóninu en stórar vakir inni á milli. Álftin er að mestu farfugl og þegar hún kemur til landsins safnast hún gjarnan á Lónsfjörð og önnur grunn sjávarlón á suðausturhorninu til að jafna sig eftir farflugið og fá sér að éta áður en hún heldur svo á varpstöðvarnar. Þegar allar álftir höfðu verið taldar í dag reyndust þær vera 1018 sem er nokkuð færra en á síðasta ári en þá var farið 21. mars og voru þá taldir 1713 fuglar.
Auk þess að telja álftir er gengið fram með ströndinni frá útsýnispalli í áttina að Vík. Á leiðinni er rusli safnað og eins skoðuð ummerki um dauða fugla. Mest bar á alls kyns plastrusli og mikið af því er greinilega að kvarnast niður úr stærri einingum. Þá mátti sjá hvernig jarðvegur hefur kýlst saman í ruðninga þegar ís sem var á lóninu hefur ýtt við jarðveginum.
Á leiðinni til baka var síðan komið við á urðunarstað sveitarfélagsins í Lóni sem er óðum að fyllast. Krakkarnir höfðu á orði að margt af því sem sást var rusl sem hefði verið hægt að endurnýta.
Þau orð eru góð ábending um að við getum og verðum að gera betur þegar kemur að rusli.
[modula id=“9775″]

Glófaxamenn skemmta á árshátíð FAS.
Árshátíð FAS var haldin á Hafinu í gær. Undirbúningur að hátíðinni er í höndum nemenda og hefur staðið yfir í langan tíma. Það er jafnan bæði spenna og eftirvænting í gangi fyrir árshátíðina hverju sinni bæði yfir því hvaða hljómsveit spilar og hvað er boðið upp á.
Það má segja að árshátíðarhópurinn í ár hafi farið ótroðnar slóðir í hljómsveitarvali og ekki síður í skemmtiatriðum og skreytingum en þemað var sveitalífið.
Birgir Fannar var fenginn til að vera veislustjóri og leysti hann það hlutverk ljómandi vel af hendi. Þá mættu nokkrir galvaskir Glófaxamenn sem sungu nokkur lög og var gaman að heyra að nemendur þekktu þessi lög og tóku vel undir.
Hornfirska hljómsveitin kef LAVÍK spilaði nokkur lög. En það var svo Helgi Björnsson sem mætti með hljómsveit sína og tryllti lýðinn fram eftir nóttu. Líklega hefðu margir búist við að önnur hljómsveit myndi sjá um ballið en þetta var einlæg ósk árshátíðarhópsins og skemmtu allir sér hið besta á ballinu.
Dagana 14. – 16. mars næst komandi mun Verkiðn, sem eru samtök um keppnir í iðn- og verkgreinum, halda Íslandsmót iðn- og verkgreina og framhaldsskólakynningu í Laugardalshöllinni í samvinnu við Mennta- og menningarmálaráðuneytið, sveitarfélög og fagfélög iðn- og starfsgreina. Tilgangur keppninnar er meðal annars að kynna og vekja áhuga grunnskólanemenda á iðn- og verknámi og þeim fjölmörgu tækifærum sem nám í þessum greinum hefur upp á að bjóða.
FAS tekur þátt í framhaldsskólakynningunni með megin áherslu á fjallamennskunámið, lista- og menningarsviðið og kjörnámsbrautina.
Þetta verður í þriðja sinn sem framhaldsskólakynning verður haldin samhliða Íslandsmótinu til að nýta samlegðina og tók FAS þátt í síðustu kynningu sem var í mars 2017, en þessi viðburður er haldinn annað hvert ár. Nemendum í 9.–10. bekk í öllum grunnskólum landsins verður boðið í Laugardalshöllina og munu þeir þar m.a. fá tækifæri til að kynnast námsframboði og starfsemi FAS.
[modula id=“9774″]