Í dag var komið að enn einu uppbrotinu á vorönninni en þá er kennsla felld niður í einum tíma og nemendur fá fræðslu um tiltekið efni.
Það voru þær Guðbjörg og Guðrún Ósk frá Landsbankanum á Höfn sem komu og voru með fræðslu í tengslum við fjármál. En þær eru með fræðslu á vegum Fjármálavits. Meðal annars var farið í gegnum launaseðla og skoðað hvernig eigi að lesa og skilja þá og í hvað frádráttarliðir fara. Ýmis hugtök voru útskýrð eins og lífeyrissjóður, viðbótarlífeyrissparnaður og skattstofn.
Þær lögðu mikla áherslu á mikilvægi þess að spara og safna sér fyrir því sem á að kaupa. Þar safnast margt smátt saman og gerir fólki á endanum kleift að láta drauma sína rætast.
Krakkarnir voru duglegir að spyrja og það var greinilegt að það er ekki vanþörf á svona fræðslu. Við þökkum þeim Guðbjörgu og Guðrúnu Ósk kærlega fyrir komuna og fræðsluna.
Nóg að gera í lok annar
Nú er upp runnin síðasta heila kennsluvika annarinnar og mikið um að vera. Nemendur eru í óða önn að leggja lokahönd á vinnu sína í skólanum. Á miðvikudag munu nemendur í áfanganum Hönnun og nýsköpun kynna Graffíl listahátíð sem þau eru að vinna að ásamt fleiri...