Unga fólkið okkar fundar

Við upphaf ungmennaþings.

Ungmennaráð Hornafjarðar stóð fyrir Ungmennaþingi í Nýheimum í dag. Yfirskrift þingsins í ár er Ungt fólk og samfélagið og markmiðið er að efla samfélagsvitund ungs fólks. Allir nemendur FAS eru boðaðir á þingið ásamt 8. – 10. bekk í grunnskóla Hornafjarðar. Þingið hófst á fyrirlestri frá Stígamótum og að honum loknum voru fjórar málstofur sem fjölluðu um fjölbreytileikann, félagslíf, umhverfis- og skipulagsmál og í síðustu málstofunni voru umræður út frá fyrirlestrinum. Það er óhætt að segja að vel hafi tekist til og skemmtilegar og málefnalegar umræður áttu sér stað í málstofunum.
Ungmennaráð mun vinna úr gögnunum sem var safnað saman og í framhaldinu kynna þær fyrir viðeigandi nefndum sveitarfélagsins, sem og skólunum.
Á þinginu kusu ungmennin einnig fulltrúa í ráðið frá grunnskólanum og þá var unnið að því að finna slagorð Ungmennráðs
Í lok þingsins bauð Ungmennaráð í pizzuveislu og að sjálfsögðu gerðu þinggestir pizzunum góð skil. 

Það er alltaf hægt að borða pizzur.

Fjallamennskunemar á jöklum

Dagana 23. – 26. október voru fjallamennskunemar í Jöklaferð 1. Farið var í Öræfin og hópurinn gisti í svefnpokagistingu hjá Ferðaþjónustunni í Svínafelli í þrjár nætur. Farið var á jökul alla fjóra dagana og veðrið var með eindæmum gott, sól og blíða nánast allan tímann.
Í Jöklaferð 1 er markmiðið að kenna nemendum að ferðast á öruggan hátt um skriðjökla, ísklifur og kynna sprungubjörgun.
Farið var á Falljökul á degi eitt, tvö og fjögur. Á degi þrjú var farið í langa ferð á Skaftafellsjökul þar sem reyndi á þrek og þor nemenda.
Hluti hópsins skellti sér svo á íbúafund í Hofgarði um kvöldið þar sem vísindamenn frá Háskóla Íslands og Veðurstofunni voru að kynna rannsóknir sínar á Öræfajökli og sprungunni í Svínafelli.
Nú hafa nemendur lokið fimm ferðum á þessari önn og í næstu viku er Jöklaferð 2 sem er seinasta ferð annarinnar hjá þeim.
Kennarar á þessu námskeiði voru þeir Sigurður Pétur Kristjánsson og Sigurður Ragnarsson. 

[modula id=“9765″]

Afrakstur vísindadaga

Jöklamælingahópur kynnir vinnu sína.

Í hádeginu í dag kynntu þeir hópar sem voru að störfum á vísindadögum vinnu sína undanfarna daga. Það voru fimm hópar að störfum.
Fyrsti hópurinn var með könnun meðal fyrrum nemenda um hvernig námið í FAS hefði nýst í framhaldsnámi.
Annar hópurinn fór í mælingaferð að Heinabergsjökli. Eftir ferðina var unnin skýrsla auk þess sem eldri gögn úr mælingaferðum voru skoðuð og borin saman.
Þriðji hópurinn var að skoða leiklistarsögu skólans og bjó til tímalínu og yfirlit yfir öll þau verk sem hafa verið sýnd frá því að skólinn hóf göngu sína.
Fjórði hópurinn var með viðtöl við íbúa af erlendu bergi brotnu sem búa í sveitarfélaginu og einnig tölulegar upplýsingar um fjölda þjóðerna búsetta í sveitarfélaginu.
Fimmti og síðasti hópurinn rannsakaði ýmis gögn sem tengjast menningu sveitarfélagins. Þar voru nokkur verkefni unnin s.s. þekktir einstaklingar sem eru úr sveitarfélaginu, hús sem hafa verið flutt til, frumkvöðlar, saga Skemmtifélagsins og fleira.
Afraksturinn má sjá í máli og myndum í kaffiteríunni á Nýtorgi og verður sýningin uppi til 11. nóvember. Þeir sem leggja leið sína í Nýheima eru hvattir til að skoða sýninguna.

Jöklamælingar á vísindadögum

Í morgun hófust vísindadagar í FAS en þá eru skólabækurnar settar til hliðar og nemendur fást við ýmis konar rannsóknir. Einn þeirra hópa sem er að störfum á vísindadögum fór í jöklamælingar við Heinabergsjökul í morgun.
Þegar lagt var af stað í morgunsárið var þoka og súld á Höfn en smám saman birti til og í lok ferðar var glaða sólskin og náttúran okkar skartaði sínu fegursta. Með í för voru einnig Snævarr og Lilja frá Náttúrustofu Suðausturlands. Snævarr er náttúrulandfræðingur og vinnur mikið við rannsóknir á jöklum. Það eru forréttindi fyrir nemendur í FAS að hafa aðgang að sérfræðingum Náttúrustofunnar sem eru tilbúnir að miðla af reynslu sinni og þekkingu.
Að þessu sinni hófst gönguferðin við gömlu brúna yfir Heinabergsvötn. Þaðan var haldið í áttina að Heinabergslóni þar sem jökullinn var mældur. Venjulega var jökulinn mældur á tveimur stöðum en vegna þess hve jökullinn hefur rýrnað og þynnst er einungis hægt að mæla á einum stað. Fyrir þá sem ekki vita þá gengur Heinabergsjökull fram í jökullón og því verður að beita hornafræði til að reikna út stöðu jökulsins hverju sinni. Að mælingum loknum var gengið á bílastæðið hjá Heinabergsjökli þar sem rútan beið eftir hópnum.
Á göngunni í dag voru alls kyns ummerki um jökulinn skoðuð og eins hvernig ytri öflin halda áfram að móta landið.
Í fyrramálið mun svo hópurinn reikna út stöðu jökulsins í ár og þá verður hægt að bera þá útreikninga saman við niðurstöður fyrri ára.
Í hádeginu á föstudag verður sýning í Nýheimum þar sem allir hópar sem voru að störfum á vísindadögum munu kynna verkefni sín. Allir eru velkomnir og hvattir til að mæta.

[modula id=“9766″]

Viðburðaveisla hjá NemFAS

Það má með sanni segja að félagslíf skólans hafi verið í miklum blóma á þessu hausti þar sem hver viðburðurinn rekur annan. Í þessari viku stendur Nemendafélag FAS fyrir röð viðburða sem krakkarnir hafa kosið að kalla Oktoberfest.
Fyrsti viðburðurinn verður í kvöld, 23. október. Það er málfundafélagið sem stendur fyrir fótboltakvöldi í Nýheimum. Húsið opnar klukkan 18:40 og klukkan 19:00 er komið að risaleik en það eru stórliðin Manchester United og Juventus sem eigast við. Hægt verður að tippa á úrslit leiksins og eru vegleg verðlaun í boði.
Miðvikudagskvöldið 24. október stendur fornbílaklúbbur FAS fyrir spurningakeppni eða bíla quiz eins og klúbburinn kallar viðburðinn sem verður í Nýheimum og hefst klukkan 20:00 og stendur yfir í tvo tíma. Boðið verður upp á kóla gosdrykk og kex og kökur.
Fimmtudagskvöldið 25. október er síðan komið að Karaoke kvöldi í umsjá viðburðaklúbbs. Sá atburður verður haldinn í Ungmennahúsi (Þrykkjunni) og stendur frá 20:00 – 22:00. Þar verður boðið upp á popp og kóla gosdrykk.
Það kostar 1000 krónur inn fyrsta kvöldið en 500 krónur hin kvöldin. Það er hægt að kaupa sig inn á alla viðburðina og fá þá 500 krónu afslátt. Miðasala er á skrifstofu Nemendaráðs.
Á laugardaginn má svo segja að það sé komið að rúsínunni í pylsuendanum en þá ætlar nemendafélagið að standa fyrir markaði og kaffihúsi í Nýheimum. Þar verður hægt að skoða föt, bækur og ýmis konar gjafavöru og einnig verður hægt að kaupa kaffi og kruðerí. Markaðurinn verður opinn á milli 13:00 og 16:00 á laugardag og vonast nemendafélagið til að sem flestir komi.

 

Með jákvæðni að leiðarljósi

Unnið að jákvæðnirefli í FAS.

Í dag var komið að uppbroti númer tvö í skólanum en þá fellur niður kennsla í eina klukkustund og nemendur fást við eitthvað allt annað. Í dag voru nemendur að vinna með hugtakið jákvæðni. Allt of oft ber á neikvæðni hjá mörgum þegar á að takast á við verkefni. Það verður þá oft erfitt að koma sér að verki og oftar en ekki verður verkefnið illa unnið eða jafnvel ekki. Það skiptir miklu máli að tileinka sér jákvæðni í verkefnum dagsins og leita lausna svo að vinnan verði skemmtileg og um leið auðveldari.
Hugmyndin með vinnunni í dag var að koma jákvæðni á blað þar sem allir nemendur myndu leggja eitthvað á vogarskálarnar. Það geti verið bæði í máli og myndum. Það var unnið í nokkrum stórum hópum og fékk hver hópur stóran pappírsrenning. Saman eiga pappírsrenningarnir að mynda refil sem verður hengdur upp í skólanum. Með því að búa til refil er verið að vísa til gamallar hefðar um varðveislu mynda.
Munum svo öll að hafa jákvæðni að leiðarljósi!