NemFAS í góðum gír

Það hefur verið rífandi gangur hjá nemendafélagi FAS á þessari önn og hver viðburðurinn rekið annan. Og það er ýmislegt framundan.

Annað kvöld (fimmtudagskvöldið 29. nóvember) stendur spilaklúbbur fyrir viðburði í FAS. Það á að spila spil sem heitir Jackbox party pack. Þetta er ekki hefðbundið borðspil heldur spilað í gegnum síma eða tölvur. Jackbox party pack er þrautaspil þar sem 3 – 8 spila saman og markmiðið er að búa til fyndnasta orðið. Meðlimir í spilaklúbbi vonast til sjá sem flesta. Það kostar 500 krónur inn og spilarar fá popp til að maula á. Það verður byrjað að spila klukkan 20 og verður spilað í stofu 203.

Á fullveldisdaginn verður blásið til hátíðar í Nýheimum og þar lætur NemFAS sig ekki vanta. Nemendur standa fyrir kaffihúsi þar sem verður hægt að kaupa alls kyns góðgjörðir gegn vægu gjaldi. Jólamyndir fyrir smáfólkið verða sýndar í fyrirlestrasal Nýheima og þar kostar ekkert inn. Nokkrir nemendur ætla að búa til brjóstsykur og selja á staðnum. Þá mun bókaklúbbur FAS verða með óvænta uppákomu.

Við vonumst til að sjá sem flesta á laugardag. Það verður opið í Nýheimum milli 14 og 17 eins og sést á meðfylgjandi auglýsingu.

ADVENT námskeið í Finnlandi

Í síðustu viku voru þrír fulltrúar frá  FAS á námskeiði í Finnlandi. Þetta voru þau Hulda Laxdal Hauksdóttir, Sigurður Ragnarsson kennarar og Brynja Sóley Plaggenborg nemandi í fjallamennskunámi skólans.

Námskeiðið var á vegum ADVENT menntaverkefnisins sem FAS er í ásamt Ríki Vatnajökuls, Rannsóknarsetri Hí og skólum, rannsóknarstofnunum og ferðaþjónustuklösum í Skotlandi og Finnlandi.

Ferðinni var heitið til Kuusamo í norðaustur Finnlandi en sá bær er í nágrenni við Ruka sem er risavaxið skíðasvæði og eitt það vinsælasta í Evrópu, enda er þar að meðaltali hægt að renna sér á skíðum í 200 daga á ári.

Námskeiðið var tilraunanámskeið, eitt af níu, sem prufukeyrt verður í ADVENT verkefninu. Verkmenntaskólinn í Kuusamo vann að þessu námskeiði sem snérist um staðarþekkingu og hvernig þjálfa má starfandi ferðaþjónustuaðila og nemendur í ferðamála- og útivistarnámi í að nýta slíka þekkingu í störfum sínum. Kuusamo-Ruka svæðið var vel fallið til þessarar prufukeyrslu þar sem svæðið fær um milljón gesta á ári hverju.

Auk Íslendinganna þriggja voru þrír ferðaþjónustuaðilar frá Skotlandi, tveir frá Finnlandi auk 10 nemenda verkmenntaskólans í Kuusamo þátttakendur í námskeiðinu.
Sambærilegt námskeið verður í framhaldinu hægt að keyra á Íslandi eða í Skotlandi, með svipuðum áherslum nema lagað að því svæði sem um ræðir í hverju landi fyrir sig.

Námskeiðið stóð í fimm daga og hófst mánudaginn 12. nóvember í svokölluðu Wilderness lodge út í skógi sem er kannski best lýst sem viðarskála sem er nokkurs konar salur sem hægt er að leigja fyrir veislur og þar fékk hópurinn glæsilegar móttökur með fræðslu og góðum mat sem nemendur á matreiðslubraut verkmenntaskólans höfðu útbúið fyrir þátttakendur.

Þriðjudagur og miðvikudagur voru fræðsludagar um hinar ýmsu staðreyndir um svæðið og ferðamannaiðnaðinn á svæðinu. Fyrra kvöldið var svo Husky hundabúgarður heimsóttur. Þar eru um 150 hundar sem notaðir eru í hundasleðaferðir með ferðamenn á veturna og seinna kvöldið var farið í heimsókn á hreindýrabúgarð. Þar hefur verið stundaður hreindýrabúskapur af sömu fjölskyldu í um 150 ár. Auk þess að stunda búskap er ferðamönnum boðið upp á hinar ýmsu ferðir, á veturna eru það mestmegnis sleðaferðir þar sem hreindýr draga sleðann og á sumrin bjóða þeir fólki m.a. að koma að vinna með sér í búskapnum part úr degi eða allt upp í eina viku.

Fimmtudagurinn fór svo í að heimsækja fyrirtæki á svæðinu, farið var í skoðunarferð á skíðasvæðið í  Ruka, Oluanka þjóðgarðinn, og dagurinn endaði svo á heimsókn í fyrirtæki sem býður fólki m.a. að fara í 3 mismunandi tegundir af alvöru finnsku gufubaði og í heimagerðan mat. Gufubað er alls ekki það sama og gufubað í Finnlandi en þess má geta að um 330.000 gufuböð eru skráð í Finnlandi en einungis um 270.000 bílar. Hópurinn fékk ítarlega kynningu á gufubaðsmenningunni og leiðsögn í gufubaðinu sjálfu. Að því loknu borðaði hópurinn svo mat sem veiddur var í nágrenni við sveitabæinn.

Föstudagurinn fór svo í próf og uppgjör á námskeiðinu en að því loknu um 10:00 hófst ferðalagið heim til Íslands.

Næsta námskeið í ADVENT verkefninu verður haldið á Íslandi í janúar og þá stendur til að prufukeyra námskeið um íshella og jöklaferðir. Nánar má lesa um ADVENT verkefnið á www.adventureedu.eu

 

[modula id=“9771″]

Menningarferð til Akureyrar

Lista og menningarsvið FAS fór í námsferð til Akureyrar dagana 14. til 16. nóvember. Það voru tuttugu nemendur úr myndlista-, ljósmynda-, kvikmynda- og leiklistaráföngum sem fóru í ferðina ásamt þremur kennurum. Gist var á gistiheimilinu Akureyri Backpackers sem er í miðbæ Akureyrar.

Lagt var af stað frá FAS klukkan 8 miðvikudagsmorguninn 14. nóv. og komið til Akureyrar um klukkan 15. Fyrsta heimsóknin var síðan í Listasafn Akureyrar klukkan 16. Eftir kvöldmat var farið í fallegu kvöldveðri í gönguferð um innbæinn þar sem nemunum voru sagðar sögulegar staðreyndir um uppbyggingu eyrarinnar, sögur af fólki og einstökum húsum.

Fimmtudagsmorguninn var þétt planaður og hófst með heimsókn í Verkmenntaskóla Akureyrar. Einnig var farið í Menningarhúsið HOF, Tónlistarskólann, Samkomuhúsið þar sem LA hefur nú aftur starfsemi sína, við heimsóttum listamannakompaníið Kaktus og deginum lauk síðan á sýningunni Lína langsokkur hjá Freyvangsleikhúsinu.

Föstudagurinn, dagur íslenskrar tungu, byrjaði með heimsókn í kvikmyndaver sjónvarpsstöðvarinnar N4. Þar fengu nemendur að kynnast hvernig bein útsending fer fram með því að sjá og taka þátt í „plat“ útsendingu. Síðan lá leiðin í Minjasafn Akureyrar en þar var verið að opna hina árlegu jólasýningu safnsins. Jafnframt fékk hópurinn að skoða æskuheimili Nonna, Jóns Sveinssonar og gaman að geta þess að 16. nóvember er fæðingadagur hans. Eftir þessa heimsókn hélt hópurinn síðan heim á leið með stoppi við Goðafoss og matarpásu á Egilsstöðum.

Þessi ferð er fyrst og fremst hugsuð til að kynna nemendum hvað sé að gerast í öðrum bæjarfélögum en jafnframt til að kunna að meta og skilja hversu margir möguleikar finnast í heimabyggð.
Mottó ferðarinnar var samvinna, traust og virðing, hvert fyrir öðru og ekki síður fyrir því fólki sem tekur á móti okkur opnum örmum og kynnir fyrir hópnum starfsemi sína og hugmyndir.
Það er skemmtilegt að geta þess að alls staðar fékk hópurinn einstaklega góð meðmæli og þakkir fyrir hversu gaman hefði verið að taka á móti þeim.

Stefán Sturla
Umsjónarmaður Lista- og menningarsviðs FAS

 

[modula id=“9768″]

Vika án baktals

Vika án baktals.

Það kallast baktal þegar fólk talar illa um einhvern sem er ekki viðstaddur. Sá sem verður fyrir baktali veit oft ekki af því að verið sé að tala um hann og getur því ekki varið sig. Og í mörgum tilfellum eiga sögusagnirnar ekki við rök að styðjast. Því miður er það svo að margir leyfa sér allt of oft að tala um náungann og velta kannski ekki fyrir sér afleiðingunum. Og oft verður baktalið að leiðinlegum ávana sem ekki er nokkrum til gagns.
Þessi vika í FAS kallast vika án baktals. Af því tilefni voru nemendur kallaðir saman í lok fyrsta tíma dagsins þar sem átakið var kynnt og allir hvattir til að vera með. Niðri á Nýtorgi er búið að koma fyrir veggspjöldum þar sem hægt er að skrifa undir að þessi vika verði án baktals. Við hvetjum alla til að taka þátt og um leið að íhuga hvaða afleiðingar illt umtal getur haft. Best er að ákveða að tala ekki illa um náungann.

Síðasta ferð ársins hjá fjallmennskunemum

Í þessari viku voru fjallamennskunemarnir í Jöklaferð 2. Farið var í Öræfin og gist fjórar nætur í svefnpokagistingu í Svínafelli. Hópurinn fékk að finna fyrir vetrinum og var veður heldur óstöðugt miðað við fyrri ferðir.
Markmið Jöklaferðar 2 er að fara yfir sprungubjörgun á skriðjökli og hájökli, ferðast um sprungusvæði á hájökli og læra um íshella og íshellaferðir.
Fyrsta daginn var brunað frá Höfn og farið á Falljökul. Á þriðjudag heilsaði sterk norðaustanátt nemendum og ekkert veður var til jöklaferða. Þann dag varð því að nýta í Svínafelli. Nemendur æfðu sig að ganga í línu á túnunum og að setja upp björgunarkerfi við húsið. Ágætlega rættist úr deginum þrátt fyrir að um ímyndaðar aðstæður væri að ræða, nemendurnir komast svo í alvöru aðstæður næsta vor þegar farið verður hærra á jöklana.
Á degi 3 fór hópurinn í ýmsar tækniæfngar á Falljökli. Dagur 4 var svo helgaður íshellum og fór hópurinn með Einari Rúnari Sigurðssyni í hinn svokallaða „Treasure Beach“ íshelli við Jökulsárlón. Eins og flestir kannski vita er Einar einn mesti sérfæðingur landsins í íshellaferðum og frumkvöðull á því sviði.
Á degi 5 var stefnan sett á ísklifur, en fyrri part dags var austan átt og mikil rigning þannig brugðið var frá því plani og farið yfir aðra hluti í staðinn.
Jöklaferð 2 er sjötta og seinasta verklega námskeið fjallamennskunámsins á þessari önn. Nú taka við bókleg námskeið hjá nemendunum, sem kennd eru í gegnum kennsluvefinn. Næsta verklega námskeið er 3 daga námskeið í Skyndihjálp í óbyggðum og næsta fjallaferð, er í fyrstu vikunni í febrúar.
Kennari í Jöklaferð 2 var Sigurður Ragnarsson.
Þeir sem vilja sjá fleiri myndir úr ferðinni er bent á fésbókarsíðu fjallanámsins

[modula id=“9767″]

 

Fréttir frá Fårevejle

God nabo hópurinn.

Nú er farið að síga á seinni hluta heimsóknar nemenda FAS til Danmerkur en þangað kom hópurinn síðasta miðvikudag. Í íslenska hópnum eru 25 nemendur og tveir kennarar. Danski hópurinn er mun stærri en mikil eftirspurn var að komast í samstarfsverkefni með Íslandi. Því eru hvorki fleiri né færri en 50 nemendur í danska hópnum. Það er því margt um manninn þegar allir eru komnir saman.

Fyrstu tvo dagana var að mestu verið í skólanum. Íslensku krakkarnir fóru með dönskum félögum sínum í tíma og báðir hóparnir héldu kynningar um sín lönd og eins héldu íslensku krakkarnir fyrirlestra um samskipti Íslands og Danmerkur í gegnum tíðina. Að sjálfsögðu voru kynningarnar á dönsku. Þá var unnið í blönduðum hópum að því að hanna lógó fyrir verkefnið. Á föstudaginn var síðan farið í skógarferð og var farið á Vejrhøjbuen sem 151 metra há hæð og er hún með hærri hæðum í Danmörku.

Þegar leið á föstudaginn var komið að því að fara heim með dönskum félögum sínum og það var ekki laust við að það væri farið að fara um einhverja við tilhugsunina um að fara heim til ókunnugs fólks sem þar að auki er dreift um allt Sjáland og jafnvel víðar. Það var því afar ánægjulegt að hitta hópinn aftur á sunnudagskvöldið í skólanum og voru allir afar sáttir.

Í morgun fórum við til Hróarskeldu og skoðuðum bæði víkingasafnið og dómkirkjuna þar sem flestir konungbornir eru grafnir.

Á morgun færir hópurinn sig síðan til Kaupmannahafnar og ver deginum í rölt á milli þekktra staða og skoðunarferðir. Á miðvikudag er síðan komið að heimferð og gert ráð fyrir að koma alla leið á Höfn þann daginn.

Þeir sem vilja vita meira um ferðir hópsins er bent á heimasíðu verkefnisins https://godnabo.fas.is/