Eins og við sögðum frá í síðustu viku stóð umhverfisnefnd FAS fyrir neyslukönnun þar sem m.a. úrgangur tengdur matarneyslu var sérstaklega skoðaður. Allir voru beðnir um að flokka samkvæmt sérstöku skipulagi. Í fyrsta lagi voru hreinar umbúðir, í öðru lagi óhreinar, í þriðja lagi lífrænn úrgangur og í fjórða og síðasta lagi drykkjarumbúðir sem er hægt að skila. Það voru þrír flokkunarstaðir í húsinu. Fyrst má telja veitingasöluna á Nýtorgi. Á setustofu nemenda og kennarastofu var líka flokkað.
Á föstudag eftir hádegi var komið að því að mæla og skrá úrganginn. Það féllu til 23 kíló af lífrænum úrgangi í FAS í síðustu viku og um fjórðungur þess voru matarafgangar. Í vikunni söfnuðust 158 umbúðir undan drykkjavörum og af því eru tæplega 90% af setustofu nemenda. Við viljum benda á að það er komin vatnsvél í kaffiteríuna og við hvetjum alla til að nýta sér hana og spara um leið pening.
Áætlaður heildarfjöldi af umbúðum utan af matvælum skiptist þannig að um 55% umbúða voru hreinar en 45% óhreinar. Þar getum við gert miklu betur.
Hluti af úrgangi síðustu viku var hengdur upp á Nýtorgi og sést hann á meðfylgjandi mynd.
Síðar í vikunni er ætlunin að birta fleiri upplýsingar og taka í framhaldi ákvörðun um hvernig við getum dregið úr neyslu og minnkað úrgang.