Unga fólkið okkar er heldur betur að ná saman. Síðustu daga hafa 24 ungmenni frá fimm þjóðlöndum dvalið á Höfn og einnig skoðað nágrenni Hafnar. Markmiðið með heimsókninni er að nemendur læri að vinna saman á einu tungumáli, þar sem virðing fyrir ólíkri menningu og traust á hugmyndir fá að njóta sín.
Nemendur FAS hafa kynnt fyrir gestum sínum menningu, náttúrufar og náttúruöfl þjóðarinnar. Margt hefur verið gert; gengnar fjörur, víkingaþorpið á Horni heimsótt, hoppað í hylinn í Bergárdal og gengið bakvið Mígandafoss. Krakkarnir eyddu einum degi á Höfn þar sem m.a. var farið í heimsókn í Skinney – Þinganes og skoðuð söfn.
Á morgun er síðasti dagur gestanna á Höfn og þá ætla nemendur FAS að bjóða upp á morgunkaffi á Nýtorgi í löngu frímínútunum.
Hingað til hefur allt gengið ljómandi vel og allir staðið sig með sóma. Þetta er fólkið sem tekur við keflinu eftir nokkur ár og það er sko engu að kvíða meðan við eigum svona flott ungmenni.
[modula id=“9788″]