Áfram mót hækkandi sól

Nú eru liðnar tvær vikur þar sem skólahald hefur verið öðruvísi en venja er. Það er frábært að sjá hversu margir nemendur eru fljótir að aðlagast breyttum aðstæðum. Núna finnst mörgum jafn eðlilegt að mæta í tíma á Teams rétt eins og að mæta á tilsettum tíma inni í skólastofu. Margir nemendur eru líka að vinna vel og skila góðum verkefnum sem er frábært.

En það eru ekki síður kennarar sem þurfa að laga sig að breyttum aðstæðum. Langflestir eru búnir að koma sér upp vinnuaðstöðu heima. Þeir eru líka á fullu að reyna að finna út úr alls kyns tæknimálum þannig að kennslan gangi sem best. Þar má t.d. nefna hvernig megi deila verkefnum yfir í tölvur nemenda eða að láta alla hlusta á sömu hljóðskrána eða horfa á myndband á sama tíma. Þá fylgjast kennarar enn betur með nemendum sínum og reyna að veita þeim stuðning eins og kostur er á þessum sérstöku tímum.

Við viljum minna á að það er mikilvægt að allir fari vel með sig. Eins og embætti landlæknis bendir á þarf að huga að hreinlæti, mataræði og hreyfingu. Eftir vikuna hvetjum við alla til að fara út og njóta einstakrar náttúru og horfa um leið eftir ummerkjum um vorið.

 

 

 

Önnur vika takmarkaðs skólahalds í FAS

Nú erum við komin inn í aðra viku takmarkaðs skólahalds. Við vonum svo sannarlega að hún gangi jafnvel og síðasta vika. Það kom fram á kennarafundi á föstudag sem að sjálfsögðu var fjarfundur að síðasta vika hefði gengið vel. Nemendur voru duglegir að mæta á fjarfundi og voru að vinna vel við þessar óvenjulegu kringumstæður.

Og áfram höldum við í þessari viku. Nemendur þurfa að leysa ýmis verkefni og jafnvel próf. Við reynum eins og við getum að fylgjast með nemendum okkar, sendum þeim póst og jafnvel hringjum í þá. Síðar í dag fá nemendur senda könnun sem við biðjum alla að svara.

Að síðustu viljum við hvetja alla til að fara að tilmælum heilbrigðisyfirvalda; borða hollan mat, hreyfa sig og gæta að hreinlæti. En við skulum líka passa hvert upp á annað með því að vera í sambandi og spjalla við vini og vandamenn.

Verklegir áfangar í FAS

Það er auðveldara í sumum áföngum en öðrum að skipta yfir í fjarkennslu. Það er t.d. í flestum tilfellum auðveldara að skipta yfir í fjarkennslu í bóklegum greinum.

List- og verkgreinakennarar í FAS bregðast þó við aðstæðum og þá skiptir máli að hafa ímyndunaraflið í lagi. Við tókum stöðuna í verklegum greinum í dag: Í verklegum íþróttum sjá nemendur sjálfir um sína hreyfingu sem þau skrá niður í OneNote. Hægt er að nota snjalltæki til að fylgjast með t.d hversu langt er gengið eða taka púls. Í matreiðslu elda eða baka nemendur einu sinni í viku. Það þarf að senda uppskriftina til kennara og einnig myndband bæði af eldamennskunni og því sem er matreitt. Það er gott ef fjölskyldan getur tekið þátt með því að smakka og gefa álit sitt á því sem er búið til. Kennari sendir nemendum einnig fræðsluefni til að lesa. Í sjónlistum hittast nemendur og kennarar samkvæmt stundatöflu í fjarkennslu á Teams. Þá verða vikulegir fundir á Teams í tómstundum. Í leiklist hefur verið tekin sú ákvörðun að hætta við sýningu á Bláa hnettinum. Það finnst okkur mjög leiðinlegt því það var farið að styttast í frumsýningu. Í athugun er hvort hægt verði að sýna leikritið í haust. Kennarar á lista- og menningarsviði eru að safna saman efni til að senda á nemendur. Þeir ætla að nýta sér Adobe forritið og þessa dagana er verið að gera það aðgengilegt fyrir nemendur.

Umsjónarnemendur á lista- og menningarsviði fá fastan fundartíma á föstudögum klukkan 13.30. Sá fundur verður í gegnum Teams og munu nemendur fá fundarboð fljótlega.

 

Staðan í FAS á öðrum degi takmörkunar á skólahaldi

Eins og við sögðum frá fyrir helgi var strax ákveðið hvernig ætti að bregðast við í FAS á meðan á samkomubanni stendur. Í flestum áföngum gildir stundataflan sem var gefin út fyrir önnina. Kennslan fer fram í gegnum fjarfundabúnað og nemendur fá fundarboð í gegnum tölvupóst.

Í hádeginu í dag var kennarafundur í FAS til að taka stöðuna á öðrum degi samkomubanns. Fundurinn var haldinn í fjarfundi og gekk það ljómandi vel. Reynslan þessa fyrstu daga er góð og nemendur mæta yfirleitt vel á fundina og eru virkir. Á tímum sem þessum skiptir miklu máli að lífið gangi sinn vanagang eins og hægt er miðað við aðstæður og allir geti unnið áfram að sínum áætlunum.

Á fundinum í dag var einnig ákveðið að umsjónarkennarar verði í sambandi við sína hópa á næstu dögum til að taka stöðuna. En við viljum hvetja alla sem hafa einhverjar spurningar varðandi fyrirkomulagið núna eða námið að hafa samband.

Nýnemaviðtölum frestað vegna COVID-19

Vegna takmörkunar  á skólastarfi í FAS verður nýnemaviðtölum frestað í óákveðinn tíma. Við hvetjum ykkur þó til að ljúka við skráningu í framhaldsskóla þrátt fyrir að viðtöl fari ekki fram.

Frestur til forinnritunar rennur út 13. apríl næstkomandi. Sjá hér nánar um skráningu í framhaldskóla: https://mms.is/um-innritun. Hægt er að skoða allar námsbrautir á heimasíðum skólanna, t.d á fas.is.

Viðtöl munu fara fram eins fljótt og auðið er. Þá er hægt að yfirfara skráningu og breyta ef þess þarf. Ef einhverjar spurningar vakna hikið þá ekki við að hafa samband.

Bestu kveðjur,

Fríður Hilda Hafsteinsdóttir, starfs- og námsráðgjafi (fridur@fas.is) og Hildur Þórsdóttir, áfangastjóri (hildur@fas.is)

Skólahald fellur niður í FAS

Samkvæmt ákvörðun yfirvalda þá fellur skólahald í FAS niður næstu fjórar vikur. Í samræmi við þetta hafa eftirfarandi ákvarðanir verið teknar varðandi skólahald í FAS:

  • Miðað við skóladagatal FAS þá fellur skólahald niður frá 16. mars til 3. apríl.
  • Mjög mikilvægt að skoða FAS póstinn daglega.
  • Nám og kennsla mun halda áfram á fjarkennsluformi.
  • Allir nemendur eru nú skilgreindir sem fjarnemendur og fá U í Innu.
  • Kennsla fer fram samkvæmt stundaskrá, fyrsti tími í öllum áföngum verður kenndur í gegnum Office Teams. Hægt er að tengjast í gegnum tölvur og snjalltæki.
  • Leiðbeiningar um notkun Teams
  • Þeir nemendur sem mæta á Teams fundi fá merkta mætingu í Innu.
  • Kennari í hverjum áfanga upplýsir nemendur um fyrirkomulag að öðru leyti.
  • Nemendur geta nálgast bækurnar sínar og önnur námsgögn í skólann.
  • Mikilvægt að skoða FAS vefinn reglulega.
  • Veitingasala Nýheima verður lokuð.

Mikilvægt er að nemendur séu virkir og beri ábyrgð á námi sínu. Ef það kemur til vandræða þá skal leita eftir aðstoð. Sendið póst á viðkomandi kennara, umsjónarkennara eða námsráðgjafa.
Foreldrar eru hvattir til að styðja og hvetja nemendur til þrautseigju á þessum óvissutímum.

 

Starfsfólk FAS