Skólastarf haustannar hafið

Skólasetning í FAS.Skólastarf haustannarinnar hófst formlega í FAS í morgun með skólasetningu og í kjölfarið voru umsjónarfundir. Þar fengu nemendur helstu upplýsingar sem varða námið. Þeir sem ekki komust í dag geta skoðað stundatöfluna sína inni á INNU. Þar er einnig að finna upplýsingar um námsefni í hverjum áfanga.
Kennsla hefst svo í fyrramálið samkvæmt stundaskrá. Við leggjum mikla áherslu á að nemendur mæti vel og vinni jafnt og þétt. Þannig næst bestur árangur.
Ef það skyldu enn vera einhverjir að velta fyrir sér að fara í nám að þá er þeim bent á að skoða áætlun um námsframboð hér. Tekið er við skráningum í nám til og með 26. ágúst og umsóknareyðublað er á finna á heimsíðu skólans.

Haustönn 2019

Nú er skólastarfi vorannarinnar að ljúka og starfsmenn að tínast í sumarfrí. Skrifstofa skólans verður lokuð frá 19. júní til 7. ágúst.
Skólastarf haustannar hefst formlega með skólasetningu þann 20. ágúst klukkan 10 í fyrirlestrasal Nýheima. Í kjölfarið verður umsjónarfundur þar sem verður farið mikilvægustu skipulagsatriði annarinnar. Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá 21. ágúst.
Upplýsingar um bækur og námsgögn er að finna í Innu og einnig í kennsluáætlunum fyrir hvern áfanga.
Enn er tekið við skráningum í skólann. Skráingarblað og upplýsingar um námsframboð er á vef skólans. Ef nauðsyn ber til er hægt að hafa samband við skólameistara. Netfang hans er eyjo@fas.is og símanúmer 860 29 58.

Bestu óskir um gleðilegt og gott sumar.

Útskrift frá FAS

Útskrift frá FAS 2019.

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifuðust 20 stúdentar, einn nemandi lýkur námi í fjallamennsku, tveir nemendur ljúka framhaldsskólaprófi, einn útskrifast af fisktæknibraut, einn nemandi útskrifast úr tækniteiknun og einn nemandi lýkur A stigi vélstjórnar.
Nýstúdentar eru: Aleksandra Wieslawa Ksepko, Arnar Ingi Jónsson, Arndís Ósk Magnúsdóttir, Birkir Atli Einarsson, Birkir Fannar Brynjúlfsson, Brandur Ingi Stefánsson, Bryndís Arna Halldórsdóttir, Díana Sóldís Einarsdóttir, Guðrún Ása Aðalsteinsdóttir, Halldór Hrannar Brynjúlfsson, Hákon Guðröður Bjarnason, Íris Björk Rabanes, Ísar Svan Gautason, Kristján Vilhelm Gunnarsson, Óttar Már Einarsson, Sóley Lóa Eymundsdóttir, Svandís Perla Snæbjörnsdóttir, Sævar Ingi Ásgeirsson, Viktor Örn Einarsson og Wiktoria Anna Darnowska.

Sigjón Atli Ragnheiðarson lýkur námi í fjallamennsku. Kolbeinn Benedikt Guðjónsson og Kristofer Hernandez útskrifast af framhaldsskólabraut. Katrín Soffía Guðmundsdóttir útskrifast af fisktæknibraut. Helga Sveinbjörnsdóttir lýkur námi í tækniteiknun og Þórir Kristinn Olgeirsson lýkur A stigi vélstjórnar.
Bestum árangri á stúdentsprófi að þessu sinni náði Arndís Ósk Magnúsdóttir.

Starfsfólk FAS óskar útskriftarnemendum öllum til hamingju með áfangann og óskar þeim gæfu og gengis í framtíðinni.

Ingunn Ósk vinnur þýskuþraut og fer til Þýskalands

Í þrjá áratugi hefur Félag þýzkukennara staðið fyrir nokkurs konar stöðuprófi sem kallast þýskuþraut og er þrautin í samvinnu við Þýska sendiráðið. Tilgangurinn er að vekja athygli á og auka veg þýskunnar. Nemendum sem hafa náð ákveðnu stigi í tungumálanáminu stendur til boða að taka þátt í þessari þraut. Í gegnum tíðina hafa þó nokkrir nemendur í FAS spreytt sig á þrautinni og mörgum hefur gengið ágætlega.
Þegar þrautin var lögð fyrir á þessari önn ákvað Ingunn Ósk Grétarsdóttir að vera með. Það var heldur betur góð ákvörðun því að hún gerði sér lítið fyrir og vann þrautina sem er náttúrulega frábært. Tvö efstu sætin í þrautinni fá í verðlaun fjögurra vikna dvöl í Þýskalandi. Fyrstu tvær vikurnar er dvalið hjá fjölskyldum og gengið í skóla þar sem að sjálfsögðu er verið að tala og læra þýsku. Hinar tvær vikurnar er ferðast vítt og breitt um Þýskaland þar sem þýsk menning og daglegt líf í landinu er í öndvegi.
Í fyrradag stóðu Félag þýzkukennara og sendiráðið fyrir uppskeruhátíð þýskunnar. Þar voru veittar viðurkenningar fyrir 20 efstu sætin í þýskuþrautinni og eins fyrir stuttmyndakeppni sem haldin er ár hvert. Að sjálfsögu mætti Ingunn Ósk þangað til að taka á móti viðurkenningu. Það var þó ekki eina erindið hennar til Reykjavíkur því í leiðinni tók hún grunnpróf á saxófón. Það verður því nóg um að vera hjá Ingunni Ósk næstu vikurnar og mánuðina. Hún fer í Þýskalandsreisuna um 20. júní og svo fær hún í september tækifæri til að æfa með Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands eins og við höfum áður greint frá.
Við óskum Ingunni Ósk til hamingju með þennan frábæra árangur og vonum að allt gangi sem best í hennar verkefnum á næstunni.
Nánar er sagt frá uppskeruhátíðinni á fésbókarsíðu Þýska sendiráðsins.

[modula id=“9782″]

Kókómjólk vinsæl í FAS

Í morgunsárið mátti sjá kæna ketti á ferð á Höfn og eftir að hafa farið um bæinn lá leiðin í Nýheima. Þetta var stór hluti væntanlegra útskriftarnemenda í FAS sem eru að gera sér dagamun því í dag er síðasti kennsludagur annarinnar. Hópurinn hefur greinilega mikið dálæti á kókómjólk og hefur Klóa sem fyrirmynd því þau hafa í dag tileinkað sér klæðaburð hans. Og að sjálfsögðu drekka þau kókómjólk.

Undanfarin ár hefur skólinn boðið væntanlegum útskriftarnemum og kennurum í morgunverð á þessum degi. Hún Dísa okkar í kaffiteríunni var búin að töfra fram alls kyns gómsætar kræsingar sem voru gerð góð skil. Við þetta tilefni er líka skólasöngur FAS æfður en hann verður að sjálfsögðu sunginn við útskrift.

[modula id=“9780″]

Kynningar í verkefnaáfanga

Nemendur í verkefnaáfanga vorið 2019. Frá vinstri: Wiktoria Anna Darnowska, Óttar Már Einarsson, Kristján Vilhelm Gunnarsson, Ísar Svan Gautason, Guðrún Ása Aðalsteinsdóttir, Fjóla Hrafnkelsdóttir, Díana Sóldís Einarsdóttir, Brandur Ingi Stefánsson, Arnar Ingi Jónsson og Aleksandra Wieslawa Ksepko.

Nemendur sem eru komnir langt í námi þurfa að taka áfanga sem heitir Verkefnaáfangi og er þetta fyrir marga eitt af síðustu verkefnum sem þeir vinna í FAS. Þetta geta verið rannsóknarverkefni, megindleg eða eigindleg en einnig eru dæmi um hönnun eða jafnvel stuttmynd.
Í dag var komið að því að nemendur áfangans kynntu verkefni sín. Og eins og áður var verkefnavalið og vinnuaðferðirnar fjölbreytt. Þannig mátti sjá heimildaverkefni, rannsóknarverkefni og svo umfjöllun um stuttmynd en hún verður sýnd í fyrirlestrasal Nýheima annað kvöld, fimmtudaginn 9. maí og hefst sýningin klukkan 20 og er öllum sem vilja boðið á sýninguna.
Eins og svo oft áður tókust kynningarnar ljómandi vel og krakkarnir stóðu sig frábærlega. Víst er að nú er mörgum þeirra létt yfir því að kynningunum sé lokið.