Skólasetning verður í FAS á morgun klukkan 10. Allir sem vilja geta mætt en mikilvægt er að nýnemar mæti. Umsjónarfundur hefst klukkan 10:30 og þar eiga nemendur að mæta.
Hér er slóðin https://www.youtube.com/watch?v=PQkRzghd2Pc
Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá klukkan 13 á morgun.
Skólastarf haustannar hefst fimmtudaginn 20. ágúst klukkan 10 með skólasetningu í fyrirlestrasal Nýheima. Setningunni verður streymt en mikilvægt er að nýnemar mæti. Umsjónarfundur hefst klukkan 10:30 í stofum fyrir staðnemendur og þá sem eru um óreglulega mætingu. Fjarnemendur fá fundarboð í gegnum Teams.
Sama dag klukkan 13 hefst kennsla samkvæmt stundaskrá og er miðað við að kennsla fari fram í stofum með hefðbundnum hætti þó að teknu tilliti til eins metra reglunnar. Ekki er komin útfærsla á öllu verklegu námi en þær upplýsingar verða birtar um leið og þær liggja fyrir. Stundatöflur og bókalistar eru nú þegar aðgengilegar í Innu og hægt er að skoða kennsluáætlanir einstakra áfanga á vef skólans. Í byrjun næstu viku koma nánari upplýsingar um nýjan námsvef FAS og aðgang að Office 365.
Við hér í FAS búum við þær aðstæður að það er tiltölulega auðvelt að viðhafa eins metra fjarlægð á milli fólks og að aldrei séu fleiri en 100 manns í sama rými.
Nemendur á heimavist geta mætt 19. ágúst en þurfa að hafa samband við skólameistara til að komast inn.
Við hlökkum til að sjá ykkur og vonum að skólastarfið fari vel af stað þrátt fyrir aðstæður vegna COVID-19.
Nú stendur yfir innritun fyrir nám á haustönn. Umsóknarfresti lauk 10. júní fyrir nemendur úr grunnskóla. Hvað varðar eldri nemendur er miðað við búið sé að sækja um fyrir lok maí en þó er hægt að sækja um fram til 26. ágúst. Best er að sækja um sem fyrst. Á vef skólans eru upplýsingar um námsframboð og þar er einnig hægt að sækja um nám.
Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu margir hafa sótt um nám í fjallamennsku en nú þegar hafa yfir 30 umsóknir borist. Það verður spennandi að fylgjast með framvindu mála þar.
Ekkert verður af fyrirhuguðu sumarnámi í FAS þar sem ekki bárust nægilega margar umsóknir.
Skrifstofa FAS lokar 19. júní og opnar aftur 5. ágúst. Það er hægt að hafa samband við Eyjólf skólameistara ef þörf þykir (eyjo@fas.is og 860 29 58).
Við vonum að allir eigi gott og gefandi sumar.
Boðið verður upp á sex mismunandi námskeið í sértæku sumarnámi í FAS. Því er ætlað að koma til móts við aðstæður á vinnumarkaði í kjölfar COVID-19. Þetta eru framsækin, áhugaverð og hagnýt námskeið í frjóu umhverfi. Tveir áfangar eru hefðbundið framhaldsskólanám, einn áfangi er sérstaklega hugsaður fyrir nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku. Tveir áfangar tilheyra list- og verkgreinum en það eru sjónlist og saga annars vegar og kvikmyndagerð hins vegar þar sem áherslan er á upptökur og eftirvinnslu á hljóð- og myndefni. Þá er boðið upp á kynningaráfanga fyrir fjallamennskunám FAS.
Það er mismunandi hvenær áfangarnir eru í boði og einnig er mismunandi hvort þeir eru í staðnámi eða fjarnámi. Umsóknarfrestur fyrir alla áfanga er til 10. júní n.k. Nánari upplýsingar er að finna hér
Það eru margir skólar sem bjóða upp á alls konar nám vegna þessara sérstöku aðstæðna. Sjá nánar hér
Eins og við höfum sagt frá áður fór fjallamennskunám FAS í gegnum mikla endurskipulagningu nú á vordögum. Með nýju skipulagi er m.a. verið að koma til móts við þá sem eru í vinnu en vilja bæta þekkingu sína og ná sér í starfsréttindi. Námið er líkt og áður 60 einingar og samanstendur af vettvangsferðum og fjarnámi.
Þetta er sérhæft nám og er ætlað þeim sem vilja starfa við fjallamennsku og leiðsögn. Þeir sem ljúka náminu fá tiltekin réttindi innan fagfélags íslenskra fjallaleiðsögumanna AIMG. Þá fá nemendur viðurkennda þjálfun í fyrstu hjálp frá Landsbjörgu.
Þetta nýja skipulag á náminu sem var kynnt á vordögum hefur vakið mikla athygli og hafa umsóknir í fjallamennskunám FAS aldrei verið fleiri. Þeir sem eru enn að velta fyrir sér hvort þeir eigi að sækja um þurfa að drífa sig því umsóknarfrestur rennur út 31. maí. Hægt er að sækja um hér.
Fjallamennskudeild FAS er mjög spennt fyrir þessu spennandi verkefni sem bíður á komandi haustmisseri og hlakkar til að takast á við þetta krefjandi og skemmtilega verkefni.
Eins og margir vita tekur FAS þátt í mörgum erlendum samstarfsverkefnum og vegna COVID-19 hefur þurft að gera breytingar. Sumum verkefnum átti að ljúka á þessari önn. Hér er yfirlit yfir þau verkefni sem eru í gangi og hvernig er ráðgert að bregðast við til að hægt sé að vinna það sem áætlað var.
Promount – Increased professionalism in mountaineering education
Tveggja vikna námsferð þriggja nemenda og þriggja kennara í Fjallamennskunámi FAS var fyrirhuguð til Skotlands í mars sl. Námsferðin er styrkt af Erasmus+ og var ætlunin að taka þátt í fjallamennsku- og útivistanámi í The University of the Highlands and Islands /The School of Adventure Studies. Ekkert varð af þessari ferð vegna COVID-19 en stefnt er að því að fara í þessa námsferð á haustdögum.
Advent – Adventure tourism in vocational education and training
Advent er þriggja ára menntaverkefni sem FAS hefur leitt og er unnið í samstarfi við Skotland og Finnland. Greint hefur verið frá þessu verkefni á síðu FAS en meginmarkmið þess er að efla menntun á sviði ævintýraþjónustu jafnt í skólum sem úti á vettvangi með starfandi aðilum í greininni. Verkefninu átti að ljúka formlega með alþjóðlegri ráðstefnu hér í Nýheimum 5. júní n.k. en vegna COVID-19 var henni frestað til 6. nóvember.
Detour – Destinations: Wellbeing Tourism Opportunities for Regions
Detour er nýtt tveggja ára Erasmus+ verkefni sem FAS er þátttakandi í ásamt Skotum, Írum, Slóvenum og Portúgölum. Þetta verkefni fjallar um heilsueflandi ferðaþjónustu, menntun og stafræna markaðssetningu. COVID-19 hefur sett strik í reikning þessa verkefnis líka því fella hefur þurft niður vinnufundi þar sem þátttakendur ætluðu að hittast til að vinna að verkefninu. Vinnan hefur í staðinn farið fram í gegnum netið og hefur gengið ágætlega. Vonir standa til að hópurinn muni hittast á haustdögum.
Cultural heritage in the context of students´careers
Cultural heritage er tveggja ára Erasmus+ verkefni sem FAS hefur tekið þátt í með Eistlandi, Lettlandi, Grikklandi og Ítalíu. Einhverjir muna væntanlega eftir þeim fríða hópi sem heimsótti okkur hér á Höfn síðastliðið haust, en þá var smiðja verkefnisins staðsett á Íslandi. Áætlað var að ljúka verkefninu núna í vor með síðustu skólaheimsókninni til Lettlands. Vegna COVID-19 frestast sú ferð um óákveðinn tíma en vonir standa til að hægt verði að fara í þá ferð í haust.
Geoheritage, culture and sustainable communities in rural areas in Finland, Iceland and Norway
Þetta er nýjasta verkefnið í FAS og er styrkt af Nordplus áætluninni. Verkefnið er til þriggja ára og auk skóla í löndunum þremur koma jarðvangar og þjóðgarðar að því. Fyrsta heimsóknin er ráðgerð til Íslands í september en á þessari stundu er ekki ljóst hvort hægt er að halda þeirri áætlun.