Námskeið í þverun straumvatna

Þann 9. október síðastliðinn hófst seinni hluti námskeiðisins gönguferðir. Sá dagur fór í undirbúning fyrir tveggja daga gönguferð sem hófst 10. október. Morguninn fór í kortalestur og kynningu á GPS tækjum. Farið var yfir hvernig slík tæki virka og hvað beri að hafa í huga við notkun þeirra. Eftir hádegi var svo nýtt námsefni kynnt fyrir hópnum í þverun straumvatna. Nemendur fengu fyrirlestur um þverun straumvatna og hvernig sé best að bera sig að í aðstæðum þar sem þvera þarf straumvötn. Um klukkan 14:00 var svo lagt af stað úr skólanum til að finna hentuga á til að æfa þvera. Nemendur fengu búnað að láni hjá Ice Guide og þökkum við þeim mikið vel fyrir það. Allir nemendur voru í þurrgöllum, neoprene skóm og í björgunarvesti.

Farið var í Laxá í Nesjum. Mikið hafði rignt dagana á undan en áin hafði sjatnað nóg til að hægt væri að æfa þverun straumvatna. Farið var yfir hvernig skuli bera sig að við að velja vað og hvað þurfi að hafa í huga við valið. Ýmsar leiðir voru æfðar til að þvera vatnið á sem öruggastan hátt. Þá æfðu nemendur sig bæði sem hópur og einnig einir. Einnig var æft hvernig á að fara í svokallaða flotstöðu ef ske kynni að einhver félli í vatnið og hvernig ætti að koma sér aftur á bakkann á sem öruggastan hátt. Ásamt því fengu nemendur að prófa sig áfram með svokallaðar kastlínur til að geta bjargað öðrum úr ánni ef til þess kæmi. Dagurinn var mjög skemmtilegur og fengu nemendur að vaða og synda allnokkrar ferðir niður Laxána. Það var mikið fjör og mikið gaman þrátt fyrir kalt vatnið, en við vorum heppin með veður og fengum við fallegt veður meðan á æfingunum stóð.

Fimmtudaginn mættu nemendur svo í skólann tilbúnir í göngu. Fyrstu stundir morgunsins voru þó nýttar til að ljúka að fara yfir og gera leiðarkort fyrir fyrirhugaða ferð. Síðan var lagt af stað frá skólanum og keyrðu nokkrir kennarar okkur uppí Lón nánar tiltekið að mynni Össurárdals en það hafði verið ákveðið að ganga í kringum Reyðarárfjall. Gangan hófst um klukkan 12:00 og var gengið inn dalinn í botn Össurárdals. Á leiðinni var æfð notkun GPS, korts og áttavita. Einnig þurftum við að þvera Össurá sem var nokkuð vatnsmikil eftir vatnsverður undanfarinna daga. Innst í dalnum var tjaldað á fallegum stað með útsýni yfir fagra fossa á svæðinu. Ákveðið var að tjalda í fyrra fallinu vegna þess að spáð var mikilli rigningu og roki þegar líða tók á kvöldið. Drengirnir báru einnig með sér eldivið og kveiktu lítið bál áður en rigningin hófst, það voru meira að segja grillaðir sykurpúðar. Um nóttina var svo mjög mikil rigning og gekk á með nokkuð hressilegum kviðum annað slagið. Því var mismikið sofið og vöknuðu sumir í polli, ef þeir gátu þá sofið á annað borð.

Þrátt fyrir ofsaveðrið og hamaganginn voru allir hressir á föstudeginum, en þá áttum við um 6 kílómetra göngu eftir til byggða. Gengið var þá niður Reyðarárdalinn og var lagt uppúr notkun GPS tæksins og áttavitans enn og aftur. Upp úr hádegi fór sólin loks að skína og gat hlýjað okkur eftir nokkuð kalda og blauta nótt og morgun. Komið var til byggða um klukkan 13:00 þar sem að kennarar biðu eftir okkur og skutluðu okkur aftur í FAS.

Námskeiðið var mjög skemmtilegt og lærdómsríkt en þverun straumvatna stóð þar hæst að mati nemenda. Kennari á námskeiðinu var Sólveig Sveinbjörnsdóttir.

[modula id=“9792″]

Umhverfismál í brennidepli

Í síðustu viku sögðum við frá neyslukönnun sem umhverfisnefnd FAS stóð fyrir á dögunum. Í dag var komið að þriðja uppbroti annarinnar og það var helgað niðurstöðum úr þeirri könnunn og hvað megi gera til að minnka úrgang í skólanum.
Í byrjun fundar kynnti Eyjólfur helstu niðurstöður könnunarinnar. Nemendum og starfsfólki hafði verið skipt í hópa fyrir fundinn og áttu undir stjórn hópstjóra að reyna að áætla hvar hægt sé að draga úr neyslu. Með neyslu er t.d. átt við ljósritun, matarkaup ýmis konar og ferðamáta til og frá skóla. Hver hópur þurfti að tilgreina í prósentum hversu mikið væri hægt að draga úr neyslu á næstunni.
Næsta verkefni sem hóparnir unnu að var að tilgreina leiðir þannig að hægt sé að draga úr einskammta matarumbúðum en þar er t.d. átt við skyrdollur eða kókómjólkurfernu. Þá voru hóparnir líka beðnir að skoða hvað hægt sé að gera til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í ferðum til og frá skóla.
Það verður að segjast eins og er að fundurinn gekk ljómandi vel og voru bæði nemendur og starfsmenn virkir og höfðu ýmislegt til málanna að leggja. Á næstunni er ætlunin að vinna enn betur úr svörum nemenda og finna leiðir til að minnka neyslu og um leið að bæta umhverfið.

[modula id=“9790″]

Kaffiboð í FAS

Í löngu frímínútunum í dag buðu nemendur FAS öllum í Nýheimum í kaffi. Aðaltilefnið var að heimsókn gestanna frá samstarfslöndunum í Erasmus verkefninu lýkur formlega í dag og vildu nemendur sýna gestristni og bjóða um leið til veislu. Og það má svo sannarlega segja að borðin svignuðu undan öllum kræsingunum.

Nemendur ásamt öðrum íbúum Nýheima nutu veitinganna og áttu ágætt spjall á meðan. Við þökkum nemendum fyrir þetta ágæta framtak og það væri ekki úr vegi að endurvekja sameiginlegar samverustundir þar sem íbúar hússins skiptast á að bjóða í kaffi.

[modula id=“9789″]

Heimsókn samstarfsskólanna í Erasmus

Unga fólkið okkar er heldur betur að ná saman. Síðustu daga hafa 24 ungmenni frá fimm þjóðlöndum dvalið á Höfn og einnig skoðað nágrenni Hafnar. Markmiðið með heimsókninni er að nemendur læri að vinna saman á einu tungumáli, þar sem virðing fyrir ólíkri menningu og traust á hugmyndir fá að njóta sín.

Nemendur FAS hafa kynnt fyrir gestum sínum menningu, náttúrufar og náttúruöfl þjóðarinnar. Margt hefur verið gert; gengnar fjörur, víkingaþorpið á Horni heimsótt, hoppað í hylinn í Bergárdal og gengið bakvið Mígandafoss. Krakkarnir eyddu einum degi á Höfn þar sem m.a. var farið í heimsókn í Skinney – Þinganes og skoðuð söfn.

Á morgun er síðasti dagur gestanna á Höfn og þá ætla nemendur FAS að bjóða upp á morgunkaffi á Nýtorgi í löngu frímínútunum.

Hingað til hefur allt gengið ljómandi vel og allir staðið sig með sóma. Þetta er fólkið sem tekur við keflinu eftir nokkur ár og það er sko engu að kvíða meðan við eigum svona flott ungmenni.

[modula id=“9788″]

Klettaklifurparadís í fjallanámi FAS

Það má segja að nám í klettaklifri þetta haustið hafi tekist með eindæmum vel. Seinni námslota af tveimur fór fram 26. – 30. september. Blíðskapaveður einkenndi klettanámskeiðin þetta haustið. Kennt var í níu daga samtals í september og sól var alla daga nema einn. Það hlýtur að teljast lukka á miðju hausti. Hópurinn taldi fimm stráka: Eyþór, Andra, Birgi, Kára og Snorra auk þess sem fyrrum nemar Þorsteinn og Kristján kíktu á okkur til að klifra með hópnum og Lyn, kona Snorra slóst stundum með í för til að taka myndir.

Ég sem kennari verð að segja að það var heiður að fá að kenna hópnum sem var skemmtilegur og mikið fjör að vera með krökkunum þessa daga. Það er greinilegt að Höfn er að eignast flottan hóp af fjallamönnum sem geta gert ýmislegt með þekkingu sína. Á ekki nema níu dögum komu fram hugmyndir og metnaður hjá nemendum um að halda áfram að æfa sig á þessum góðu klifursvæðum í kring um Höfn og halda áfram að byggja upp góða aðstöðu því tengdri á Höfn.

Námskeiðið hið seinna hafði það að markmiði að kynna fyrir nemendum mismunandi klifursvæði í kring um Höfn. Við ferðuðumst um í bíl saman frá FAS hvern morgun og heimsóttum kletta í nágrenni Hafnar. Svæðin sem farið var á voru Vestrahorn, Hnappavellir og Geitafell við Hoffellsjökul. Hnappavellir er stærsta útbúna klettaklifursvæði landsins, Vestrahorn er þekkt fyrir há björg og stóra steina og á Geitafelli sáum við mikið af klettum sem við notuðum til æfinga en er ekki þekkt eða útbúið sem klifursvæði.

Að læra að klifra á klettaklifurnámskeiði er tvennt. Í senn er það íþrótt sem þú styrkist í og æfir en einnig vegna þess hvað klifur upp kletta er óöruggt í eðli sínu – þarf að læra mikið um notkun á búnaði sem notaður er til öryggis. Í dag er flest klettaklifur mjög örugg íþrótt. Markmiðið með námskeiðinu var að nemendur öðluðust þekkingu til að vera öruggir í sínu klifri og fengu að klifra helling til að æfa sig. Reynsla nemenda á klettaklifri áður en námskeiðið byrjaði var lítil en fór mjög vaxandi með námskeiðunum. Í enda september var ótrúlegt að sjá hversu færir og öruggir strákarnir voru orðnir í sínu klettaklifri og óska ég þeim til hamingju með það.

Það er ekki hægt annað en að nefna líka allar skemmtilegu stundirnar. Það var grillað í einu hádegi á Hnappavöllum, í Vestrahorni fengum við óvænta öldu yfir klifurdýnurnar okkar og í Geitafelli settu býflugur strik í reikninginn. Við sigum, klifruðum í línu í ofanvaði og prófuðum okkur áfram í leiðsluklifri. Umfram allt þá gekk mjög vel og við eyddum löngum en góðum dögum upp í klettum.

Takk fyrir!
Magnús Arturo Batista kennari

[modula id=“9791″]

 

Flokkun og úrgangur í FAS

Hluti úrgangs sem féll til í FAS vikuna 23. - 27. september.

Hluti úrgangs sem féll til í FAS vikuna 23. – 27. september

Eins og við sögðum frá í síðustu viku stóð umhverfisnefnd FAS fyrir neyslukönnun þar sem m.a. úrgangur tengdur matarneyslu var sérstaklega skoðaður. Allir voru beðnir um að flokka samkvæmt sérstöku skipulagi. Í fyrsta lagi voru hreinar umbúðir, í öðru lagi óhreinar, í þriðja lagi lífrænn úrgangur og í fjórða og síðasta lagi drykkjarumbúðir sem er hægt að skila. Það voru þrír flokkunarstaðir í húsinu. Fyrst má telja veitingasöluna á Nýtorgi. Á setustofu nemenda og kennarastofu var líka flokkað.

Á föstudag eftir hádegi var komið að því að mæla og skrá úrganginn. Það féllu til 23 kíló af lífrænum úrgangi í FAS í síðustu viku og um fjórðungur þess voru matarafgangar. Í vikunni söfnuðust 158 umbúðir undan drykkjavörum og af því eru tæplega 90% af setustofu nemenda. Við viljum benda á að það er komin vatnsvél í kaffiteríuna og við hvetjum alla til að nýta sér hana og spara um leið pening.

Áætlaður heildarfjöldi af umbúðum utan af matvælum skiptist þannig að um 55% umbúða voru hreinar en 45% óhreinar. Þar getum við gert miklu betur.
Hluti af úrgangi síðustu viku var hengdur upp á Nýtorgi og sést hann á meðfylgjandi mynd.

Síðar í vikunni er ætlunin að birta fleiri upplýsingar og taka í framhaldi ákvörðun um hvernig við getum dregið úr neyslu og minnkað úrgang.