Áhrif COVID-19 á erlent samstarf í FAS

28.maí.2020

Eins og margir vita tekur FAS þátt í mörgum erlendum samstarfsverkefnum og vegna COVID-19 hefur þurft að gera breytingar. Sumum verkefnum átti að ljúka á þessari önn. Hér er yfirlit yfir þau verkefni sem eru í gangi og hvernig er ráðgert að bregðast við til að hægt sé að vinna það sem áætlað var.

Promount – Increased professionalism in mountaineering education
Tveggja vikna námsferð þriggja nemenda og þriggja kennara í Fjallamennskunámi FAS var fyrirhuguð til Skotlands í mars sl. Námsferðin er styrkt af Erasmus+ og var ætlunin að taka þátt í fjallamennsku- og útivistanámi í The University of the Highlands and Islands /The School of Adventure Studies. Ekkert varð af þessari ferð vegna COVID-19 en stefnt er að því að fara í þessa námsferð á haustdögum.

AdventAdventure tourism in vocational education and training
Advent er þriggja ára menntaverkefni sem FAS hefur leitt og er unnið í samstarfi við Skotland og Finnland. Greint hefur verið frá þessu verkefni á síðu FAS en meginmarkmið þess er að efla menntun á sviði ævintýraþjónustu jafnt í skólum sem úti á vettvangi með starfandi aðilum í greininni. Verkefninu átti að ljúka formlega með alþjóðlegri ráðstefnu hér í Nýheimum 5. júní n.k. en vegna COVID-19 var henni frestað til 6. nóvember.

DetourDestinations: Wellbeing Tourism Opportunities for Regions
Detour er nýtt tveggja ára Erasmus+ verkefni sem FAS er þátttakandi í ásamt Skotum, Írum, Slóvenum og Portúgölum. Þetta verkefni fjallar um heilsueflandi ferðaþjónustu, menntun og stafræna markaðssetningu. COVID-19 hefur sett strik í reikning þessa verkefnis líka því fella hefur þurft niður vinnufundi þar sem þátttakendur ætluðu að hittast til að vinna að verkefninu. Vinnan hefur í staðinn farið fram í gegnum netið og hefur gengið ágætlega. Vonir standa til að hópurinn muni hittast á haustdögum.

Cultural heritage in the context of students´careers
Cultural heritage er tveggja ára Erasmus+ verkefni sem FAS hefur tekið þátt í með Eistlandi, Lettlandi, Grikklandi og Ítalíu. Einhverjir muna væntanlega eftir þeim fríða hópi sem heimsótti okkur hér á Höfn síðastliðið haust, en þá var smiðja  verkefnisins staðsett á Íslandi. Áætlað var að ljúka verkefninu núna í vor með síðustu skólaheimsókninni til Lettlands. Vegna COVID-19 frestast sú ferð um óákveðinn tíma en vonir standa til að hægt verði að fara í þá ferð í haust.

Geoheritage, culture and sustainable communities in rural areas in Finland, Iceland and Norway
Þetta er nýjasta verkefnið í FAS og er styrkt af Nordplus áætluninni. Verkefnið er til þriggja ára og auk skóla í löndunum þremur koma jarðvangar og þjóðgarðar að því. Fyrsta heimsóknin er ráðgerð til Íslands í september en á þessari stundu er ekki ljóst hvort hægt er að halda þeirri áætlun.

Aðrar fréttir

Útskrift frá FAS

Útskrift frá FAS

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast 10 stúdentar og 16 nemendur úr gunnnámi fjallamennsku. Nýstúdentar eru; Almar Páll Lárusson, Amylee Vitoria Da Silva Trindade, Anna Lára Grétarsdóttir, Atli Steinar Siggeirsson, Filip Orzedowski, Guðjón Arnar...

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Síðasti áfangi í grunnnámi Fjalla-FAS, Lokaferð, kláraðist í vikunni. Í þeim áfanga skipuleggja nemendur í sameiningu sína eigin ferð og leiða hana og kennarar eru þeim innan handar. Nemendur fá tækifæri til að sýna fram á þá færni sem þau hafa öðlast í náminu í...

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Níu annars árs nemendur fóru með þeim Dan Saulite og Ívari F. Finnboga í átta daga vetrarleiðangur á Vatnajökul 15. til 22. maí. Hópurinn fór upp Skáfallsjökul og náði í Grímsvötn á fjórða degi í frábæru veðri. Daginn eftir var brostið á með stormi sem stóð í tvo daga...