Í gær, laugardaginn 26. september var komið að því að halda Söngkeppni framhaldsskólanna en vegna COVID-19 varð að fresta keppninni síðasta vor. Fyrir hönd FAS keppti Dagmar Lilja Óskarsdóttir og söng hún lagið The way we were sem Barbara Streisand söng á sínum tíma.
Það er skemmst frá því að segja að Dagmar Lilja stóð sig einstaklega vel og þegar úrslit voru kynnt var hún í öðru sæti sem er frábær árangur. Innilega til hamingju með góðan flutning og frábæra frammistöðu.
Námskeiðið Klettaklifur og línuvinna var haldið dagana 14.-20. september. Kennarar á námskeiðinu voru Árni Stefán Haldorsen, Bjartur Týr Ólafsson, Íris Ragnarsdóttir Pedersen, Magnús Arturo Batista og Stefanía R. Ragnarsdóttir. Markmið námskeiðsins er að kynna nemendur fyrir klettaklifri og leggja grunninn að þeirri línuvinnu sem nemendur munu halda áfram að læra í vetur. Námskeiðið var haldið á Hornafirði og í Öræfum.
Námskeiðið hófst á kynnningu, en þetta var í fyrsta skipti sem kennarar og nemendur hittust. Farið var yfir skipulag námskeiðsins, algengir hnútar kenndir og búnaði deilt til nemenda. Að því loknu stóð til að fara á Hafnartanga undir Kambhorni í grjótglímu, þ.e. klifur í lágum klettum, en vegna veðurs varð hópurinn frá að hverfa. Þess í stað var stoppað við Geithella, en þar hefur ekki verið klifrað áður svo vitað sé. Staðurinn reyndist góður og náðu allir að stíga sín fyrstu skref í klettaklifri þar.
Að morgni þriðjudagsins hélt hópurinn vestur á Hnappavelli, helsta klettaklifursvæði landsins og voru tjaldbúðir settar upp. Nemendur lærðu rétta notkun sigtóla og hvernig þau má nota til sigs og til þess að tryggja klifrara. Eftir vel heppnaðar æfingar settu kennarar upp ofanvað í góðar byrjendaleiðir í Hádegishamri og Þorgeirsrétt austari og klifruðu nemendur og kennarar fram á kvöld. Miðvikudagurinn var notaður í meira klifur auk þess sem fjallað var um leiðsluklifur, bergtryggingar og gerð akkera. Hópurinn er með eindæmum góður og sýndu allir góða færni, bæði í tæknilegum atriðum sem og klifrinu sjálfu.
Á fimmtudeginum spáði lægðagangi og rigningu og var dagurinn því notaður innandyra í Káraskjóli í Freysnesi en þar hefur Klifurfélag Öræfa komið upp klifurvegg og æfingaaðstöðu. Nemendur voru kynntir fyrir innanhússklifri, en það er ört vaxandi íþrótt, auk þess sem nemendur æfðu júmm, þ.e. að klifra upp línu, og að þræða akkeri. Í lok dags var einnig fjallað um ferli fjölspannaklifurs og einstreymisloka, en á það mundi reyna meira á laugardeginum.
Föstudagurinn tók á móti hópnum með sól og blíðu og því var farið aftur á Hnappavelli. Stóra verkefni dagsins var að láta nemendur byggja sín eigin akkeri ofan við hamrana og síga svo niður þá. Þetta tókst mjög vel og var gaman að sjá framfarir nemendanna. Að því loknu var klifrað meira og augljóst að klifur seinustu daga hafði skilað sér, enda náðu margir að klára leiðir sem þeim hafði ekki tekist áður og aðrir reyndu sig við erfiðari leiðir með góðum árangri.
Laugardaginn var haldið aftur á Vestrahorn og ferli fjölspannaklifurs æft í hressandi roki. Ofan við gömlu Bretabúðirnar er klettahryggur sem er afar vel til þess fallinn og hefur verið notaður áður, en hefur til þessa verið nafnlaus. Hryggurinn hefur nú fengið nafn og gráðu, Námsbraut PD- 150m. Æfingin er afar góð til þess að taka saman helstu tæknilegu atriði námskeiðsins, en hér reyndi á tryggingi klifrara, leiðsluklifur, beggtryggingar, umgengni línu, gerð akkera, einstreymisloka o.fl.
Að æfingunni lokinni hélt hópurinn aftur í FAS, skilaði og gekk frá búnaði, námskeiðið tekið saman, spurningum svarað og frekari ráðleggingar til nemenda gefnar. Þar sem veður og aðstæður höfðu spilað með okkur, auk þess að hópurinn var afar fróðleiksfús og nemendur fljótir að tileinka sér námsefnið, var ekki þörf á frekari útiæfingum í rigningunni á sunnudeginum, svo hann var notaður í frágang, gerð námsmappa og ferðalög heim.
Við þökkum kærlega fyrir frábæra viku og hlökkum til að fylgjast með þessum frábæra nemendahópi vaxa og dafna í vetur!
Vert er að taka fram að skólinn var í góðu samstarfi við landeigendur, Boltasjóð og björgunarsveitina Kára í Öræfum meðan á námskeiðinu stóð og þökkum við fyrir það. Meðfylgjandi eru myndir frá @skulipalmason á Instagram.
Árni Stefán
[modula id=“10173″]
Nú er vitað að það er komið upp annað smit í sveitarfélaginu okkar. Á meðan það er verið að skoða stöðuna hefur verið ákveðið í FAS að bjóða upp á fjarkennslu í flestum áföngum í dag, fimmtudag og á morgun föstudag. Í einhverjum tilvikum verður þó um staðkennslu að ræða og mun hver kennari hafa samband við sína nemendur og láta vita nánar um tilhögun.
Nemendur sem vilja mega koma og vinna í skólanum en þurfa þá að sjálfsögðu að fylgja öllum reglum um grímunotkun, fjarlægðarmörk og öðrum reglum um sóttvarnir. Veitingasalan verður lokuð í dag og á morgun en opnar aftur á mánudag.
Á mánudag verður staðkennsla með grímur í húsi líkt og var í gær miðvikudag. Líklegt er að það skipulag vari fram eftir næstu viku.
Við hvetjum alla til að fara vel með sig og huga vel að eigin líðan.
Nú hefur komið upp smit á Höfn og við ætlum að bregðast við því í FAS með því að nota grímur í skólanum. Nemendur og starfsfólk fæ
r afhentar grímur þegar þau mæta í skólann á morgun og verða að bera þær á meðan verið er í skólanum. Þar sem mælt er með að einnota grímur séu einungis notaðar í fjóra tíma fá allir nýjar grímur í hádeginu. Notuðum grímum á að henda í almennt rusl og mikilvægt er að þvo og sótthreinsa hendur áður en nýjar grímur eru settar upp.
Allir eiga að nota aðalinnganginn, Nettómegin. Þá viljum við hvetja alla til að forðast óþarfa umgang og lágmarka neyslu á mat og drykk.
Í einhverjum áföngum verður tekin upp fjarkennsla og fá nemendur upplýsingar um það frá viðkomandi kennurum.
Okkur í FAS finnst mikilvægt að hægt sé að halda úti sem eðlilegustu skólastarfi og því hvetjum við alla til að fara að reglum og huga að eigin sóttvörnum. Ef við pössum okkur öll eru líkur á að þetta ástand vari stutt.
Hér eru leiðbeiningar um hvernig nota skal grímur rétt.
Nú eru að fara af stað spennandi námskeið í FAS. Þetta eru námskeið sem nemendur á lista- og menningarsviði þurfa að taka í sínu námi. Námskeiðin eru jafnframt opin almenningi og eru ýmist í FAS eða Vöruhúsinu.
Fyrsta námskeiðið verður síðustu helgina í september og þar verður unnið með hljóðupptöku og hljóðblöndun. Annað námskeiðið er í byrjun október og þar er verið að vinna í FABLAB. Á þriðja námskeiðinu er verið að vinna með málun, teiknun, ljósmyndun og Photoshop og verður það námskeið seinni hluta október. Síðasta námskeiðið snýr að förðun og verður líklega seinni partinn í október eða byrjun nóvember. Leiðbeinandi á því námskeiði verður Sigríður Rósa Bjarnadóttir. Nánar má lesa um námskeiðin í meðfylgjandi auglýsingu og í síðasta tölublaði Eystrahorns.
Þeir sem hafa hug á því að sækja eitt eða fleiri af þessum námskeiðum þurfa að skrá sig og það er gert á vef FAS. Skráningargjald er 6000 krónur og viljum við vekja sérstaka athygli á því að upphæðin er sú sama hvort sem tekið er eitt námskeið eða fleiri.
Við hvetjum fólk sem langar til að fást við áhugamál sín eða kljást við eitthvað nýtt að skrá sig.
Þeir sem eiga leið um Skeiðarársand geta allir orðið vitni að miklum breytingum á náttúrunni. Mest áberandi eru birkitrén sem mynda nú samfellda breiðu um miðbik sandsins. Í FAS viljum við gjarnan að nemendur verði meðvitaðir um umhverfi sitt og kynnist um leið vísindalegum vinnubrögðum. Fimmtudaginn 27. ágúst síðastliðinn fóru þrettán nemendur í FAS sem allir stunda nám í áfanganum „Inngangur að náttúruvísindum“ í sína árlegu rannsóknarferð á Skeiðarársand. Skólinn á þar fimm 25 m2 gróðurreiti og frá árinu 2009 hefur verið farið með nemendahópa á sandinn til að fylgjast með framvindu gróðursins. Veður var eindæma gott; logn, sól og hiti 11 gráður.
Í ferðinni fá allir nemendur hlutverk við athuganir og skráningu á náttúrunni. Meðal þess sem er skoðað er gróður innan hvers reits, hæð trjáa og ársvöxtur. Þá er horft eftir ummerkjum um beit og ágang skordýra.
Við höfum oft séð meiri breytingar á vexti trjánna á milli ára. Mörg tré stækka lítið en innan hvers reits má þó finna plöntur sem hækka jafnt og þétt og eru einnig farnar að mynda rekla.
Þegar farið er á milli reitanna má sjá mörg tré sem eru hærri en þau sem eru innan reita FAS. Í nokkur ár hefur verið fylgst sérstaklega með tveimur trjám. Annað er staðsett ofan í jökulkeri og hefur einhvern tímann brotnað að hluta. Það er greinilegt að skemmdin hamlar vexti því það tré hækkar lítið á milli ára og mælist alltaf rétt yfir 3,30 m. Hitt staka tréð sem er mælt vex ágætlega og er hæð þess nú 3,53 metrar og hefur hækkar um tæpa 30 cm á síðustu tveimur árum.
Eftir ferðina vinna nemendur skýrslu. Vinnan felst m.a. í því að skoða tölulegar upplýsingar á milli ára og velta fyrir sér líklegum skýringum á breytingum. Líkt og fyrri ár verða niðurstöður ferðarinnar birtar á http://nattura.fas.is/
En í þessari ferð var ekki bara fylgst með gróðurreitunum. Vegna COVID-19 hefur þurft að breyta frá upphaflegu skipulagi í skólanum. Það varðar ekki hvað síst erlent samstarf þar sem við bæði fáum gesti eða sendum nemendur okkar erlendis. Á þessari önn verður ekkert um slíkar ferðir en verkefnin þurfa engu að síður að halda áfram. Í ferð okkar í síðustu viku var prófað að „streyma“ frá því sem var gert og það gekk ágætlega. Þessi tilraun var því ágætis undirbúningar fyrir samstarfsverkefni á milli Finnlands, Noregs og Íslands sem er nýfarið af stað. Þá er ráðgert að nýta þessa tækni til að ljúka ADVENT verkefni sem hefur staðið yfir í þrjú ár.
Þá komu til okkar á sandinn tökufólk frá kvikmyndafyrirtæki sem er að vinna að heimildamynd um birki. Þau fengu að fylgjast með vinnunni á sandinum. Sá þáttur verður sýndur á RUV í fyllingu tímans.
Eyjólfur Guðmundsson
Hjördís Skírnisdóttir
Kristín Hermannsdóttir
[modula id=“9870″]