ADVENT námskeið í Skotlandi og Finnlandi

Tvö námskeið í menntaverkefninu ADVENT (Adventure Tourism in Vocational Education and Training) voru prufukeyrð nú á haustdögum. Þetta voru námskeiðin Túlkun strandsvæða sem fram fór í Skotlandi í september síðast liðinn og Vöruþróun sem fram fór í Finnlandi í nóvember. Þátttakendurnir í þessum námskeiðum komu líkt og í fyrri prufukeyrslum frá skólum og fyrirtækjum í samstarfslöndum ADVENT; Finnlandi, Skotlandi og Íslandi.

Bæði þessi námskeið byggðu á náttúru og menningu landanna þar sem fræðin voru aðeins skoðuð í kennslustofunni en þó aðallega úti á vettvangi. Námskeiðin sjálf voru þó ólík vegna mismunandi viðfangsefna hvors um sig.

Námskeiðið í Skotlandi fjallaði um ströndina, þ.e. hafið og fjöruna, og leiðir til að njóta og nýta þennan hluta náttúrunnar í tengslum við ævintýraferðir og almenna útivist. Þátttakendur tóku m.a. þátt í sjókajak ferð og öflun sjávar- og fjörufangs sem þeir síðan matreiddu og neyttu í fjörunni.

Finnska námskeiðið fjallaði um leiðir til að þróa vöru sem ferðamenn gætu haft áhuga á að kaupa. Þátttakendur prófuðu m.a. mismunandi gerðir gufubaða, böð í ísvökum og snjó, göngu á snjóþrúgum í þjóðgarðinum Hiidenportti og þeir elduðu fjölbreytta hefðbundna finnska rétti undir stjórn matreiðslumeistara.

Níunda og síðasta námskeið ADVENT verkefnisins verður prufukeyrt hér heima í lok janúar. Viðgangsefni þess námskeiðs verður myndataka með snjallsímum og leiðir til að birta afraksturinn á áhrifaríkan hátt á samfélagsmiðlum. Sólveig V. Sveinbjörnsdóttir og Guillaume M. Kollibay hjá Local Icelander munu hafa yfirumsjón með því námskeiði.

Nánar má fræðast um ADVENT á heimasíðu verkefnisins: https://adventureedu.eu

Hulda L. Hauksdóttir verkefnastjóri ADVENT

[modula id=“9798″]

 

Öflugt starf hjá nemendafélagi FAS

Forsvarsmenn nemendafélgsins í FAS á kökubasar í Nettó í október.

Það má með sanni segja að nemendaráð FAS hafi staðið sig vel á þessari önn og hver viðburðurinn hefur rekið annan. Meðal þess sem hefur verið á dagskrá er nýnemaball, kökubasar, ipad námskeið fyrir eldri borgara og viðburðir hjá einstökum klúbbum.

Það er margt framundan þó að einungis sé tæpur mánuður eftir af önninni. Til stendur að halda jólaball þann 19. desember en til þess að sá viðburður verði að veruleika þarf að afla fjár til að fjármagna viðburðinn.

Nemendaráð stendur fyrir þriggja kvölda keppni í spilavist sem verður haldin í Ekru fimmtudagskvöldin 29. nóvember, 5. desember og 12. desember. Það kostar 1000 krónur inn en innifalið er kaffi og bakkelsi sem krakkar í nemendaráðinu sjá um að útbúa.

Á jólahátíð sem haldin verður í Nýheimum laugardaginn 30. nóvember lætur nemedafélagið sig að sjálfsögðu ekki vanta. Nýtorg fær á sig kaffihúsablæ þar sem boðið verður upp á kaffi og kökur fyrir gesti og gangandi. Á sama tíma verður undirskriftasöfnun á vegum Amnesty og einnig verður boðið uppá jólaföndur fyrir yngri kynslóðina. Nemendafélagið hefur líka hrundið af stað sölu á lakkrís og hlaupi fyrir jólin. Krakkarnir vonast því til að sjá sem flesta í Nýheimum á næsta laugardag og eiga þar góða stund og um leið að styrkja þá til að ná takmarki sínu.

 

Jöklaferð tvö í fjallamennskunáminu

Lagt var að stað snemma morguns þriðjudaginn 5.nóvember, mjög létt var yfir hópnum en veðurspá í þetta skiptið leit heldur betur út en í fyrri ferðinni. Brunað var beinustu leið í Öræfin og héldum við á Falljökul á þessum fyrsta degi námskeiðisins. Fyrsti dagurinn fór í að rifja upp það helsta frá fyrra námskeiði, svo sem búnaðinn, broddatækni og leiðaval. Því næst var fundinn góður og öruggur staður sem að nemendur æfðu sig í sprungubjörgun. Framkvæmd var svokölluð 3 á móti 1 sprungubjörgun og gekk það mjög vel.

Á degi tvö var svo byrjað inni um morguninn þar sem farið var yfir sprungubjörgun í snjó og horft á kennslumyndbönd tengd því. Síðan var farið yfir hvernig ganga skal í línu á snævihuldum jökli og gerðum við það úti á túni í Svínafelli. Því næst var haldið á Falljökul og þar var aftur farið í sprungubjörgun en nú var farið yfir það sem kallast drop loop sprungubjörgun 6 á móti 1. Það kerfi er yfirleitt kennt af AIMG sem er fagfélag fjallaleiðsögumanna á Íslandi og gekk það mjög vel  hjá nemendum. Sprungubjörgun getur reynt mikið á bæði andlega og líkamlega og er mjög mikilvægt að öðlast skilning á því hvað verið er að gera. Því er lögð mikil áhersla á að læra sprungubjörgun á mismunandi vegu til að fá sem flest verkfæri í verkfærakistuna, nemendur læra að þekkja muninn á því hvað er öruggt og hvað ekki. Dagurinn var frábær og fengum við mjög gott veður á jöklinum. Dagurinn var frekar langur en ákveðið var að nýta sem best góða veðrið, því var gengið niður af jökli þegar farið var að rökkva og því þurfti að ganga með höfuðljós að hluta til.

Dagur 3 var svo tileinkaður íshellaferðum og skoðun á þeim. Því var lagt snemma af stað úr Svínafelli þar sem gist var í svefnpokaaðstöðu, keyrt var að Jökulsárlóni og þaðan inn í Þröng. Mjög gott veður var á svæðinu og heimsóttum við einn vinsælasta íshellinn um þessar mundir á svæðinu sem nefnist Saphire Ice Cave. Í íshellaferðinni fórum við yfir þær hættur, hvað ber að varast og hvað þarf að hafa í huga í íshellaferðum. Við skoðuðum íshellinn og fórum yfir hvernig íshellar myndast. Tókum góðan tíma í hellinum til að taka myndir og einnig til að sjá hvernig dagur í íshellaskoðun fer fram, en þar sáum við mikið af ferðamönnum og mikið af hópstjórum frá mörgum fyrirtækjum. Það var áhugavert fyrir nemendur að sjá hvernig slíkar ferðir fara fram og hvað það er sem að ferðamenn eru að sækjast eftir í slíkum ferðum. Eftir íshellaferðina gengum við um jökulsporðinn og skoðuðum Breiðarmerkurjökul. Jökullinn var þakinn snjó og því fórum við yfir hvernig eigi að bera sig að ef snjór hylur skriðjökla. Við skoðuðum einnig fallegar vatnsrásir á jöklinum og fengum að prófa Zip-line hjá Glacier Adventure og var þetta því sannkallaður ævintýradagur.

Síðasta daginn tókum við daginn svo mjög snemma gerðum sprungubjörgun úti í garði, því við vildum vera á undan veðrinu, en einhverjir nemendur þurftu að keyra til Reykjavíkur að námskeiðinu loknu og vegna versnandi ferðaveðurs og slæms veðurútlits var ákveðið að ljúka deginum snemma svo allir kæmust heim á öruggan hátt.

Námskeiðið gekk mjög vel og héldu þreyttir en ánægðir nemendur inn í helgina eftir skemmtilegt jöklanámskeið. Kennari námskeiðsins var Sólveig V. Sveinbjörnsdóttir.

[modula id=“9799″]

 

Jöklamælingar í FAS

Það má segja að síðasta vika hafi verið tími jöklamælinga í FAS en þá voru bæði Fláajökull og Heinabergsjökull mældir. Þessar mælingaferðir eru hluti af vinnu í jarðfræðiáfanga annars vegar og inngangsáfanga að náttúruvísindum hins vegar. Nemendur kynnast mismunandi vinnubrögðum í vísindum auk þess sem tækifærið er notað til að virða umhverfið fyrir sér og rifja upp sögu svæðisins. Þau Kristín og Snævarr frá Náttúrustofu Suðausturlands fóru með í báðar ferðirnar og er það mikill fengur fyrir okkar nemendur að njóta sérþekkingar þeirra. Í upphafi vikunnar hafði snjóað nokkuð en báða mælingadagana var þó stillt og fallegt veður en nokkuð kalt.

Fyrri ferðin var að vestanverðum Fláajökli en FAS hefur fylgst með þeim hluta jökulsins frá árinu 2016.  Þar er verið að nýta QGIS forrit og myndir frá gervihnöttum en margir gervihnettir eru á braut umhverfis jörðu og þeir eru í sífellu að taka myndir af jörðinni. Í mælingunum við Fláajökul eru notuð GPS tæki og stafrænn fjarlægðamælir til að finna út staðsetningu jökulsporðsins. Nákvæmni í vinnubrögðum er mikilvæg til að upplýsingar verði sem marktækastar. Upplýsingunum sem er safnað eru settar í QGIS forritið og út frá þeim er hægt að búa til mynd sem sýnir stöðu jökulsporðsins. Það eru ótrúlegar breytingar sem hafa átt sér stað á svæðinu. Í fyrstu ferðinni 2016 var hægt að ganga á jökulröndinni töluverðan hluta leiðarinnar en nú er komið 2-300 metra breitt lón fyrir framan jökulinn. Í þessari ferð vorum við líka að nota smáforritið citizenMorph sem við sögðum frá fyrr í haust.

Seinni ferðin var að Heinabergsjökli en þar hafa orðið gríðarlegar breytingar undanfarin ár, sérstaklega norðan megin. Þar sem áður lá jökull er nú komið lón sen nær langt inn með Geitakinn. Mælingar á Heinabergsjökli voru allt fram til 2017 miðaðar út frá tveimur mælipunktum á landi en þá var orðið ljóst að það sem áður var talinn ísjaðar voru í raun stórar ísblokkir sem nú eru horfnar. Síðustu ár hefur því einungis verið mælt sunnan megin þar sem jökullinn hefur verið nokkuð stöðugur. Hópurinn hóf gönguna hjá brúnni yfir Heinabergsvötn en hún er gott dæmi um þegar jökulár finna sér auðveldari farveg. Þaðan var gengið yfir land sem allt er mótað af jökli og jökulvatni. Inni við lónið var töluvert meiri snjór en nær sjónum og því erfitt að finna kennileitin til að mæla. Því var brugðið á það ráð að nota fjarlægðamæli til að mæla vegalengd á nokkra staði á jökuljaðrinum. Á bílaplaninu við Heinabergslón beið hópsins bíll sem fór með okkur til Hafnar.

Næstu daga munu svo báðir hóparnir vinna úr þeim gögnum sem var safnað og vinna skýrslu.

[modula id=“9797″]

Fleiri styrkir til FAS

FAS hefur lagt mikla áherslu á erlent samstarf á liðnum árum og er ekkert lát á því. Þetta samstarf hefur m.a. verið styrkt af Menntaáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+ og Nordplus svo eitthvað sé nefnt. Tvö verkefni eru í gangi þessi misserin; annað tengist listasviði skólans og hitt menntun í ferðaþjónustu og útivist.

Það er gaman að greina frá því að FAS hefur nýlega hlotið tvo nýja styrki frá Erasmus+ fyrir verkefni sem bæði tengjast menntun á sviði ferðaþjónustu og fjallamennsku. Annað verkefnið kallast Aukin fagmennska í fjallamennskunámi. Þetta er nemenda- og kennaraskiptaverkefni sem felst í því að tveir nemendur og kennarar sem tengjast fjallamennskusviði skólans fá styrk til að fara erlendis í tveggja vikna náms- og kynnisdvöl. Skóli í Skotlandi, The school of adventure studies hefur orðið fyrir valinu sem samstarfsskóli en hann er hluti af háskólanum The University of the Highlands and Islands. Stefnt er að því að fara í þessa námsferð í mars 2020. Þetta finnst okkur frábært því dvölin ytra verður bæði viðbót og dýpkun á því sem nemendur hafa þegar lært í fjallamennskunáminu í FAS.

Hitt verkefnið er samstarfsverkefni sex landa; Portúgals, Bretlands, Slóveníu, Írlands, Danmerkur og Íslands. Verkefnið heitir á ensku Destinations: Wellbeing Tourism Opportunities for Regions, skammstafað DETOUR. Þetta er ekki nemendaskiptaverkefni en snýst um að kanna og hanna leiðir til að efla heilsutengda ferðaþjónustu í tengslum við áfangastaði, menntastofnanir og ferðaþjónustufyrirtæki í nærumhverfi þátttökustofnananna. Þetta er tveggja ára verkefni sem hefst í desember. Það verður gaman að fylgjst með framvindu þessara verkefna.

Fjallanemar í jöklaferð

Dagana 21. til 23. október var farið í jöklaferð1. Við fengum mjög gott veður framan af og nýttum þann tíma mjög vel. Lagt var af stað frá FAS að snemma morguns og lá leið okkar í Öræfin, en aðstæður til jöklaferða á því svæði eru með besta móti.

Eftir stutt stopp í Freysnesi var farið á Falljökul. Fyrsti dagurinn fór í að læra á búnað sem þarf til jöklaferða og broddatækni, farið var yfir hvernig skal nota viðeigandi búnað í jöklaferðum sem og hvernig eigi að ganga um hann. Þegar á jökulinn var komið var farið yfir það hvernig gengið er á jökli í mismunandi aðstæðum, svo sem á flatlendi, í halla eða öðrum aðstæðum þar sem þarf að beita mismunandi tækni til að geta ferðast af öryggi í mikilfenglegu landslagi jökulsins. Ásamt því var reynt að lesa í landslag jökulsins og farið yfir leiðaval og hvað þurfi að hafa í huga við ferðalög á jökli.

Á degi tvö hófst dagurinn í Svínafelli þar sem farið var yfir helstu hnúta og mismunandi aðferðir við að gera svokölluð ankeri í ísinn. Um hádegi var svo farið aftur á Falljökul þar sem nemendur settu mismunandi ankeri í ís. Það er mikilvægt að allir kunni réttu handbrögðin og því æfðu nemendur sig einn og einn við að setja upp ankeri. Því næst var farið yfir ísklifur og þann búnað sem þarf til að stunda það og að lokum klifrað smá.

Á þriðja degi var svo arfavitlaust veður og eyddum við því deginum inni í algjöru gluggaveðri ef svo má að orði komast en mjög hvasst var í Öræfunum og var því ekki hægt að fara á jökulinn. Þó við værum innandyra var af nægu efni að taka. Farið var yfir helstu hnúta og sprungubjörgun á ís. Þrátt fyrir hvassviðrið gátum við sett upp ankeri í stofunni og æft okkur í öruggum aðstæðum, sem var mjög skemmtilegt. Það var svo ákveðið að fara heim degi fyrr vegna veðurs og aðstæðna til ferðalaga, en veðurgluggi opnaðist til ferðalaga milli 16 – 18. Við drifum okkur því í snatri á Höfn rétt áður en veginum var lokað og má segja að það hafi verið lokað á hælana á okkur.

Kennari námskeiðisins var Sólveig Sveinbjörnsdóttir. Farið verður í jöklaferð 2 í næstu viku og hlökkum við til að deila meira með ykkur, endilega fylgist með okkur á Instagram undir @fjallamennskunamfas.

[modula id=“9795″]