Skyndihjálparnámskeið hjá fjallamennskunemendum

Síðasta áfanganum hjá öðru árinu í fjallamennskunámi FAS lauk núna í lok nóvember. Áfanginn sem var kenndur á Höfn kallast Fyrsta hjálp í óbyggðum og er 8 daga fagnámskeið í fyrstu hjálp sem býr nemendur undir það að geta metið og sinnt bráðum tilfellum í óbyggðum og tekið ákvörðun um hvort um neyðarflutning sé að ræða.

Áfanginn er byggður upp af verklegum tilfellaæfingum, vinnustofum og fræðilegri kennslu. Að loknum áfanganum fengu nemendur heimild til að beita ákveðnum vinnureglum í óbyggðarsamhengi eins og að setja fólk aftur í axlarlið, hreinsa sár, bregðast við bráðaofnæmi og alvarlegu astmakasti með lyfjagjöf.

Kennslan fór bæði fram inni í kennslustofunni á Höfn og nágrenni en einnig var farin vettvangsferð í Hvanngil í Lóni þar sem reynt var á hæfni nemenda til að kljást við fjölbreytt verkefni eins og beinbrot og bráð veikindi en sögusvið æfingar var háfjallaskíðaferð. Nemendur enduðu áfangann á skriflegu og verklegu prófi sem allir stóðust með prýði.

Kennarar í áfanganum voru: Gunnar Agnar Vilhjálmsson og Tómas Eldjárn Vilhjálmsson.

Skuggakosningar í Sveitarfélaginu Hornafirði

Það hefur líklegast ekki farið fram hjá mörgum að um næstu helgi á að kjósa til Alþingis. Allir þeir sem eru orðnir 18 ára og hafa íslenskt ríkisfang mega kjósa. Margir væntanlegir kjósendur eru þó farnir að velta fyrir sér hvar þeirra pólitísku áherslur liggi og myndu kjósa ef þeir mættu. Til að bregðast við þessu hefur nokkrum sinnum verið efnt til svonefndra skuggakosninga þar sem krakkar sem eru fæddir á bilinu 2006 – 2011 fá að kjósa.

Í dag stóðu fulltrúar í ungmennaráði sveitarfélagsins fyrir kynningarfundi í Nýheimum og var fundurinn fyrir nemendur í 8.  – 10. bekk grunnskólans og nemendur FAS. Þar mættu ýmist frambjóðendur eða fulltrúar flestra þeirra framboða sem bjóða fram til Alþingis að þessu sinni. Hvert framboð fékk 2 mínútur til að kynna sín helstu stefnumál og í lokin gafst fundargestum tækifæri til að spyrja spurninga. Fulltrúar framboða voru ýmist í sal eða á fjarfundi í Teams.

Skuggakosningarnar verða haldnar 28. og 29. nóvember og kjörstaðir verða þrír í sveitarfélaginu; þ.e. í Heppuskóla, FAS og í Þrykkjunni. Það eru fulltrúar ungmennaráðs sem sjá um framkvæmd kosninganna. Að sjálfsögðu hvetjum við alla nemendur til að kynna sér stefnumál flokkanna og kjósa í kjölfarið. Það verður spennandi að sjá úrslit skuggakosninganna.

Afreksíþróttasvið FAS á fleygiferð með nýjar áherslur

Afreksíþróttasvið Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) hefur farið vel af stað eftir breytingar sem tóku gildi í upphafi skólaársins. Með nýju fyrirkomulagi hefur verið lögð rík áhersla á að efla nemendur með fjölbreyttum æfingum og fræðslu sem styðja við þroska þeirra og framfarir, bæði innan  vallar sem utan.

Nú eru tækniæfingar í boði fyrir þær íþróttagreinar sem eru kenndar á sviðinu, sem og styrktaræfingar til að bæta líkamlegt atgervi nemenda. Á þessari önn hafa nemendur einnig fengið fræðslu frá Haus hugarþjálfun, þar sem markmiðasetning hefur verið í brennidepli. Þessi nýju atriði hafa vakið mikla ánægju meðal nemenda, og segja margir þeirra að þau hafi hjálpað þeim að verða markvissari í sínum íþróttum.

Fjölgun nemenda á sviðinu hefur einnig verið jákvæð þróun og gefur til kynna að breytingarnar séu vel metnar. Eins og stendur eru iðkendur á sviðinu einungis í körfubolta og fótbolta, en framtíðarmarkmið sviðsins eru skýr; fjölga iðkendum og víkka úrval íþróttagreina.

Til að styrkja samstöðu og auðkenni sviðsins fengu allir iðkendur boli merka afreksíþróttasviðinu afhenta um miðjan nóvember, sem var einstaklega vel tekið. Á meðfylgjandi mynd má sjá nemendur á afreksíþróttasviði FAS en þess má geta að tveir voru fjarverandi þegar myndin var tekin.

Á næstu önn er fyrirhugað að fara í heimsóknir og bæta við nýjum tækifærum fyrir nemendur til að efla sig enn frekar. Með skýra sýn og markvissa stefnu stefnir afreksíþróttasvið FAS á að bjóða nemendum tækifæri sem nýtast þeim í sinni íþrótt í heimabyggðinni.

Fylgist með – framtíðin hjá afreksíþróttasviði FAS er björt!

Styttist í lok annar

Undanfarna daga og vikur höfum við sífellt verið minnt á að það sé farið að styttast til jóla. Á sama tíma sjáum við að margir eru farnir að skreyta hús sín bæði að innan og utan með marglitum ljósum. Það er notalegt þegar daginn er tekið að stytta að hafa ljósin sem gleðja auga og anda. Nú er mánuður í vetrarsólstöður og þá fyrst fer daginn að lengja aftur.

Íbúar Nýheima vorum með „skreytingartíma“ fyrir húsið í gær. Þá lögðust allir á eitt með að setja upp seríur og skraut. Að venju var jólatré hússins sett upp á Nýtorgi.

Nám í landvörslu við FAS

Í síðustu viku sögðum við frá því að það hefði náðst samkomulag um að halda áfram námi í fjallamennsku út skólaárið og fögnum við þeim áfanga.

Á næstu vorönn verður í boði í fjallanáminu valáfangi sem heitir „Landvarsla“. FAS fékk fyrir stuttu staðfest leyfi Umhverfisstofnunar til að kenna þennan áfanga. Umgjörð námsins verður með svipuðu sniði og hjá Umhverfisstofnun og þeir sem ljúka náminu öðlast starfsréttindi sem landverðir. Staðsetning skólans er mikilvæg fyrir námið, ekki síst nábýlið við Vatnajökulsþjóðgarð sem er hluti af „kennslustofu“ fjallamennskunámsins.

Nemendur í framhaldsnámi í fjallamennskunámi FAS ganga fyrir þegar kemur að innritun en allir þeir sem eru orðnir 18 ára geta sótt um námið. Umsjón með landvörslunáminu er í höndum Írisar Ragnarsdóttur Pedersen kennari í fjallamennskunámi FAS og hún mun veita nánari upplýsingar um námið fyrir þá sem vilja. Íris hefur netfangið irispedersen@fas.is.

Fréttir af fjallamennskunámi FAS

Síðustu vikur og mánuði hefur mikið verið í gangi varðandi fjallamennskunámið í FAS. Í upphafi skólaárs var staðan sú að námið var tryggt fram að áramótum en framhaldið óljóst. Mikil vinna hefur átt sér stað undanfarið sem margir hafa komið að, ekki síst fulltrúar sveitarfélagsins. Fyrsta markmiðið í þeirri vinnu var að hægt yrði að ljúka yfirstandandi skólaári með útskrift. Annað markmið og ekki síðra er að finna náminu farveg til lengri tíma þar sem hægt er að tryggja að námið verði áfram undir hatti Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu.

Í síðustu viku bárust þau ánægjulegu tíðindi að það hefur verið gengið frá því að fjallamennskunámið heldur áfram á næstu vorönn og þeir nemendur sem hófu námið í haust munu útskrifast.

Framundan er vinna til að tryggja náminu farveg til framtíðar. Sú vinna byggir á því mikla og góða starfi sem kennarar námsins hafa unnið og mótað til að koma sem best til móts við þarfir og öryggi ferðamanna í krefjandi umhverfi.

Við þökkum öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóginn til að tryggja námið á þessu skólaári og vonumst eftir áframhaldandi stuðningi til að halda náminu til framtíðar innan FAS.