Hraðstefnumót á öskudegi

Þeir sem hafa komið í Nýheima í dag hafa eflaust tekið eftir að margir eru öðruvísi klæddir en dags daglega. Það á við bæði um íbúa hússins og gesti. Tilefnið er að sjálfsögðu öskudagur.

Af þessu tilefni brugðu nemendur á leik í vinnustund og héldu svokallað „hraðstefnumót“. Nemendur hittust á Nýtorgi og stilltu sér upp í tvo hringi. Þeir áttu síðan að ganga í takt við ákveðið lag í hring og þegar lagið stoppaði átti hvert par að ræða ákveðið málefni í tvær mínútur. Þetta var hin mesta skemmtun og ekki að sjá annað en að allir skemmtu sér vel.

Skólafundur í FAS

Á hverri önn hittast nemendur og starfsfólk skólans á sameiginlegum fundi og er þar farið yfir mikilvæg málefni skólans hverju sinni. Fyrir skólafundinn sem var haldinn í dag hafði fólki verið skipt upp í fjórar málstofur og búið var að ákveða fyrir fram umræðuefni. Í hverri málstofu er stjórnandi og svo ritari sem skráir niður helstu punkta. Að þessu sinni voru fjórar málstofur og umræðuefnin voru; skólakerfið, lesstofa, umgengni í skólanum og svo síðast en ekki síst fór námsráðgjafi á hvern stað og var með innlegg.

Það voru líflegar umræður í hópunum enda leggjum við áherlsu á að raddir allra heyrist og öllum gefist tækifæri til að koma sínu sjónarmiði á framfæri. Farið verður yfir niðurstöðurnar af fundinum fljótlega og þær síðan kynntar og jafnvel notaðar til að breyta og bæta skólastarfið.

Ísklifur í framhaldsnámi í fjallamennsku FAS

Í lok janúar fór fram ísklifuráfangi í framhaldsnámi fjallamennsku FAS. Að þessu sinni var ákveðið að áfanginn færi fram í nágrenni höfuðborgarsvæðisins en þar er að finna nokkur af bestu ísklifursvæðum landsins og oft á tíðum helst hitastig þar undir frostmarki. Eins og við er að búast í lok janúar á Íslandi setti veðrið strik í reikninginn en þrátt fyrir það náðist að spila eins vel úr kortunum og hægt var og eiga virkilega góða klifurdaga.  

Klifrað var á Hvalfjarðareyri, í Miðdalsgljúfri og í Úlfarsfelli en áhersluatriðin voru ísklifurtækni, æfingar í leiðslu, fjölbreytt línuvinna og æfingar í fjölspannaklifri.  

Það sem stendur upp úr er að sjálfsögðu að sjá hve langt nemendurnir okkar eru komnir eftir að verða 2-3 ára nám hjá okkur í fjallamennskunámi FAS. Þau eru samheldinn og þéttur hópur sem getur leyst fjölbreytt verkefni á fjöllum.

Kennarar í áfanganum voru Árni Stefán, Mike og Íris. Við þökkum nemendum okkar kærlega fyrir ánægjulegar klifurstundir og vonumst til þess að þau komist út að klifra meiri ís í vetur.

Tíundi bekkur heimsækir FAS

Í dag fengum við góða gesti í heimsókn en það voru nemendur í 10. bekk grunnskólans. Þeir voru hingað komnir til að kynna sér skólann enda orðið stutt eftir af grunnskólagöngunni og kominn tími til að athuga næstu skref í leik og starfi. Krökkunum var boðið í súpu og nýbakað brauð og var nemendum FAS og kennarahópnum einnig boðið í mat. Á meðan á snæðingi stóð kynntu forsvarsmenn nemendafélagsins félagslífið í skólanum.

Eftir matinn kynnti Svala námsráðgjafi hvernig námið í FAS er byggt upp og hvað er hægt að læra hér hjá okkur. Hún fór einnig yfir það hvenær og hvernig er hægt að skrá sig í nám í framhaldsskóla.

Við þökkum krökkunum kærlega fyrir komuna og vonumst til að sjá sem flesta hér næsta haust.

 

Tökum ábyrgð og verum græn

Í dag fengum við góðan gest til okkar til þess að ræða um umhverfismál og mikilvægi þeirra. Þetta var Guðrún Schmidt sem er sérfræðingur í menntateymi Landverndar. Hún er hingað komin til að fjalla bæði um Grænfánann og Græn skref en sífellt fleiri stofnanir tengjast þeim verkefnum.

Guðrún byrjaði á því að ræða við kennarahópinn en eftir hádegi hitti hún nemendur. Í umfjöllun sinni kom hún víða við. Hún hefur tekið eftir að FAS er að gera margt gott í því að auka umhverfisvitund nemenda og starfsfólks. Hún nefndi sérstaklega vöktunarverkefni skólans og þátttöku í verkefni sem heitir Umhverfisfréttafólk en þar hefur FAS verið með frá upphafi. Auk þess að fræða hópana talaði hún um helstu áskoranir sem alir standa frammi fyrir í tengslum við loftslagsbreytingar. Og þar skiptir svo sannarlega máli að allir verði meðvitaðir um að margt smátt geri eitt stórt. Og víst er að þar geta allir tekið sig á.

Við þökkum Guðrúnu kærlega fyrir komuna og að ræða við okkur um mikilvæg mál.

Fjölbreytt fræðsla mikilvæg

Allir eru sammála um nauðsyn þess að fræða nemendur um alls kyns mikilvæg mál. Og við hér í FAS reynum að koma fræðslu að þegar tækifæri gefst.

í þessari viku fengum við góða gesti til okkar sem áttu heldur betur við okkur erindi. Annars vegar fengum við Kára Sigurðsson og Andreu Marel með fræðslu um sjálfsmynd, samfélagsmiðla og samskipti kynjanna. Þau ræddu bæði við nemendur og starfsfólk og komu víða við. T.d. hvað það er sem hefur áhrif á okkur frá degi til dags, mikilvægi þess að sýna hvert öðru virðingu og virða mörk annarra. Þetta á að sjálfsögðu við bæði í daglegu lífi og netheimum. Þau sýndu okkur mörg dæmi þess þegar stafrænt ofbeldi fer úr böndunum á samfélagsmiðlum og hvaða áhrif það getur haft á einstaklinga.

Í seinni kynningunni var verið að kynna rafíþróttir og það var íþróttafélagið okkar Sindri sem stóð fyrir þessari kynningu. Til okkar komu Aron Ólafsson og Eva Margrét Guðnadóttir frá RÍSÍ (Rafíþróttasamband Íslands). Með þeim voru fulltrúar frá rafíþróttadeildinni hér á Höfn. Þau fjölluðu í kynningu sinni um jákvæða upplifun af tölvuleikjaspilun, hvernig samfélög geta stuðlað að jákvæðari upplifun og hvernig æskilegt sé að spila leiki á agaðan en um leið skemmtilegan hátt. Rafíþróttadeildin hér á Höfn starfar undir merkjum Sindra og þar er starfsemin vaxandi og mikil áhersla lögð á gagnkvæma virðingu og íþróttamannslega hegðun.

Við þökkum gestunum fyrir góða og mikilvæga fræðslu.