Metaðsókn í fjallamennskunám FAS

Eins og við höfum sagt frá áður fór fjallamennskunám FAS í gegnum mikla endurskipulagningu nú á vordögum. Með nýju skipulagi er m.a. verið að koma til móts við þá sem eru í vinnu en vilja bæta þekkingu sína og ná sér í starfsréttindi. Námið er líkt og áður 60 einingar og samanstendur af vettvangsferðum og fjarnámi.

Þetta er sérhæft nám og er ætlað þeim sem vilja starfa við fjallamennsku og leiðsögn. Þeir sem ljúka náminu fá tiltekin réttindi innan fagfélags íslenskra fjallaleiðsögumanna AIMG. Þá fá nemendur viðurkennda þjálfun í fyrstu hjálp frá Landsbjörgu.

Þetta nýja skipulag á náminu sem var kynnt á vordögum hefur vakið mikla athygli og hafa umsóknir í fjallamennskunám FAS aldrei verið fleiri. Þeir sem eru enn að velta fyrir sér hvort þeir eigi að sækja um þurfa að drífa sig því umsóknarfrestur rennur út 31. maí. Hægt er að sækja um hér.

Fjallamennskudeild FAS er mjög spennt fyrir þessu spennandi verkefni sem bíður á komandi haustmisseri og hlakkar til að takast á við þetta krefjandi og skemmtilega verkefni.

Áhrif COVID-19 á erlent samstarf í FAS

Eins og margir vita tekur FAS þátt í mörgum erlendum samstarfsverkefnum og vegna COVID-19 hefur þurft að gera breytingar. Sumum verkefnum átti að ljúka á þessari önn. Hér er yfirlit yfir þau verkefni sem eru í gangi og hvernig er ráðgert að bregðast við til að hægt sé að vinna það sem áætlað var.

Promount – Increased professionalism in mountaineering education
Tveggja vikna námsferð þriggja nemenda og þriggja kennara í Fjallamennskunámi FAS var fyrirhuguð til Skotlands í mars sl. Námsferðin er styrkt af Erasmus+ og var ætlunin að taka þátt í fjallamennsku- og útivistanámi í The University of the Highlands and Islands /The School of Adventure Studies. Ekkert varð af þessari ferð vegna COVID-19 en stefnt er að því að fara í þessa námsferð á haustdögum.

AdventAdventure tourism in vocational education and training
Advent er þriggja ára menntaverkefni sem FAS hefur leitt og er unnið í samstarfi við Skotland og Finnland. Greint hefur verið frá þessu verkefni á síðu FAS en meginmarkmið þess er að efla menntun á sviði ævintýraþjónustu jafnt í skólum sem úti á vettvangi með starfandi aðilum í greininni. Verkefninu átti að ljúka formlega með alþjóðlegri ráðstefnu hér í Nýheimum 5. júní n.k. en vegna COVID-19 var henni frestað til 6. nóvember.

DetourDestinations: Wellbeing Tourism Opportunities for Regions
Detour er nýtt tveggja ára Erasmus+ verkefni sem FAS er þátttakandi í ásamt Skotum, Írum, Slóvenum og Portúgölum. Þetta verkefni fjallar um heilsueflandi ferðaþjónustu, menntun og stafræna markaðssetningu. COVID-19 hefur sett strik í reikning þessa verkefnis líka því fella hefur þurft niður vinnufundi þar sem þátttakendur ætluðu að hittast til að vinna að verkefninu. Vinnan hefur í staðinn farið fram í gegnum netið og hefur gengið ágætlega. Vonir standa til að hópurinn muni hittast á haustdögum.

Cultural heritage in the context of students´careers
Cultural heritage er tveggja ára Erasmus+ verkefni sem FAS hefur tekið þátt í með Eistlandi, Lettlandi, Grikklandi og Ítalíu. Einhverjir muna væntanlega eftir þeim fríða hópi sem heimsótti okkur hér á Höfn síðastliðið haust, en þá var smiðja  verkefnisins staðsett á Íslandi. Áætlað var að ljúka verkefninu núna í vor með síðustu skólaheimsókninni til Lettlands. Vegna COVID-19 frestast sú ferð um óákveðinn tíma en vonir standa til að hægt verði að fara í þá ferð í haust.

Geoheritage, culture and sustainable communities in rural areas in Finland, Iceland and Norway
Þetta er nýjasta verkefnið í FAS og er styrkt af Nordplus áætluninni. Verkefnið er til þriggja ára og auk skóla í löndunum þremur koma jarðvangar og þjóðgarðar að því. Fyrsta heimsóknin er ráðgerð til Íslands í september en á þessari stundu er ekki ljóst hvort hægt er að halda þeirri áætlun.

Útskrift frá FAS

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Hún var ekki með hefðbundu sniði. Vegna takmörkunar á því hversu margir mega koma saman var útskrifað í tveimur hópum. Venjan er að skólameistari sjái um útskrift en að þessu sinni voru það nokkrir kennarar ásamt skólameistara sem sáu um ávarpa og kveðja útskriftarefni.

Að þessu sinni útskrifast 14 stúdentar, einn nemandi lýkur námi í fjallamennsku, tveir nemendur ljúka framhaldsskólaprófi, fjórir nemendur ljúka A stigi vélstjórnar og einn nemandi útskrifast af sjúkraliðabraut.

Nýstúdentar eru: Arnar Geir Líndal, Egill Jón Hannesson, Eyrún Guðnadóttir, Fjóla Hrafnkelsdóttir, Freyja Sól Kristinsdóttir, Gísli Þórarinn Hallsson, Hekla Natalía Sigurðardóttir, Helena Fanney Sölvadóttir, Ívar Kristinsson, Kristján Darri Eysteinsson, Kristófer Daði Kristjánsson, María Magnúsdóttir, Oddleifur Eiríksson og Ragnar Ágúst Sumarliðason.

Kristján Bjarki Héðinsson lýkur námi í fjallamennsku. Birna Rós Valdimarsdóttir og Þorsteinn Kristinsson útskrifast af framhaldsskólabraut. Auðbjörn Atli Ingvarsson, Janus Gilbert Stephensson, Kári Svan Gautason og Óttar Már Einarsson ljúka A stigi vélstjórnar og Regianne Halldórsdóttir útskrifast af sjúkraliðabraut.

Bestum árangri á stúdentprófi að þessu sinn nær Oddleifur Eiríksson.

Starfsfólk FAS óskar útskriftarnemendum öllum til hamingju með áfangann og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

[modula id=“9807″]

Útskrift frá FAS á morgun

Á morgun laugardaginn 23. maí verður útskrift frá FAS. Vegna takmarkana á því hversu margir mega koma saman verður útskrifað í tveimur hópum. Hvert útskriftarefni má hafa með sér að hámarki þrjá gesti og mun þeim verða raðað í sæti. Það verður streymt frá útskriftinni fyrir þá sem vilja fylgjast með og er slóðin https://www.youtube.com/watch?v=8xlbYZYjV3o

Klukkan 13:00 verða nemendur útskrifaðir af framhaldsskólabraut, A stigi vélstjórnar, sjúkraliðabraut og úr fjallamennskunámi.

Klukkan 14:00 verður svo útskrift nýstúdenta.

Breytt fyrirkomulag á útskrift í FAS

Það styttist í það sem margir telja hápunkt skólastarfsins á hverju ári sem er útskrift. Að þessu sinni verður útskrift frá FAS laugardaginn 23. maí.

Vegna COVID-19 eru takmörk á því hversu margir mega koma saman hverju sinni og miðast skipulag útskriftar við það. Þess vegna hefur verið ákveðið að útskrift verði í tveimur hópum og mega þeir einir koma sem hafa fengið um það boð. Hvert útskriftarefni má taka með sér að hámarki þrjá gesti og munu þeir sitja saman við merkt borð á Nýtorgi.

Klukkan 13 verður útskrift hjá nemendum sem hafa stundað nám í vélstjórn og fjallamennsku. Á þeim tíma útskrifast líka sjúkraliðar og þeir sem ljúka framhaldsskólaprófi.

Klukkan 14 er svo komið að útskrift stúdenta. Við biðjum fólk um að sýna þessum óvenjulegu aðstæðum skilning en fyrir þá sem vilja fylgjast með er ætlunin að senda út frá athöfninni og munum við birta slóðina þegar nær dregur.

Gamla Sindrahúsið vekur athygli

Við sögðum frá því í síðustu viku að margir nemendur okkar hefðu komið að því að gæða gamla Sindrahúsið lífi áður en það verður rifið. Það var fyrst og fremst gert til að gefa nemendum tækifæri til að fást við eitthvað skapandi og njóta um leið útiveru á meðan að skólahald var takmarkað vegna COVID-19.

Þetta verkefni hefur víða vakið athygli og í síðustu viku mátti sjá umfjöllun um verkefnið á heimasíðu Ungmennafélags Íslands. Einnig er hægt að sjá nánar um verkefnið á instagramsíðu skólans og síðasta daginn sem unnið var verkefninu var þetta myndband tekið.