Við í FAS erum stolt að segja frá því að nemandi okkar, Axel Elí Friðriksson, gaf út sína fyrstu smáskífu nú í vikunni sem ber heitið „Glas af viskí“. Axel Elí vinnur undir listamannsnafninu „Seli“.
Plötuna má finna á Spotify. Platan var að hluta til tekin upp og hljóðblönduð í Stúdíói FAS (stofu 205). Annar nemandi, Karen Ása Benediktsdóttir, syngur líka á plötunni og Skrýmir listgreinakennari í FAS sá um hljóðjöfnun í lögunum.
Axel hefur áður gefið út tónlistarmyndbönd og er eitt nýtt á leiðinni bráðlega. Við óskum Axel innilega til hamingju með útgáfuna. Hægt er að hlutsta á lagið á þessari slóð: Spotify – Web Player: Music for everyone
Einn þeirra áfanga sem er kenndur í FAS þessa önnina heitir Erlend samskipti og í honum eru núna 10 nemendur. Þessi áfangi er hluti af þriggja ára samskiptaverkefni undir merkjum Nordplus. Í verkefninu eru skólar í Finnlandi, Noregi og Íslandi að vinna með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Áherslan þessa önnina er á heimsmarkmið 12 sem fjallar um ábyrga neyslu og framleiðslu. Fyrr á önninni hafa nemendur m.a. kynnt sér hvað einstaklingar og fyrirtæki eru að gera til að aðlaga sem best sína starfsemi að ábyrgri neyslu og framleiðslu.
Mánudaginn 12. apríl fór hópurinn í FAS í heimsókn á Djúpavog til að kynna sér Cittaslow en Djúpivogur hefur verið aðili að verkefninu frá 2013. Markmið Cittaslow-hreyfingarinnar sem einnig er kallað hæglætishreyfing er að auka lífsgæði og ánægju fólks með því að veita hnattvæðingu, einsleitni og hraðaáráttu í borgum og bæjum nútímans viðnám og heiðra þess í stað sérstöðu, vitund og sjálfbærni. Og þetta markmið fellur mjög vel að heimsmarkmiði 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu. Gréta Mjöll Samúelsdóttir atvinnu- og menningarmálafulltrúi á Djúpavogi tók á móti hópnum, sagði frá tilurð og starfsemi Cittaslow og hvernig Cittaslow tengist inn í daglegt líf á Djúpavogi. Eftir að hafa fengið fræðslu var gengið um bæinn og áhugaverðir staðir skoðaðir. Áður en lagt var af stað heim var snæddur hádegisverður á Djúpavogi. Ferðin gekk í alla staði vel og kom hópurinn reynslunni ríkari heim.
Samkvæmt umsókninni hefðu nemendur í áfanganum átt að vera í Noregi þessa vikuna en eins og allir vita eru ferðalög ekki vænlegur kostur um þessar mundir. Nemendur í verkefninu hafa því nýtt sér tæknina til að vinna saman og eru að vinna saman í smærri hópum að því að búa til veggspjald sem tengist heimsmarkmiði 12. Síðasti dagurinn í sameiginlegri vinnu í verkefninu á þessari önn er á morgun og í lok dags munu hóparnir kynna sín veggspjöld. Næsta haust er svo áætlað að hittast í Finnlandi og við vonum svo sannarlega að það gangi eftir.
Kennsla hefst þriðjudaginn 6. apríl samkvæmt stundaskrá og staðkennsla verður með sama hætti og hún var fram að lokun þann 25. mars.
Samkvæmt reglugerð um skólahald sem gildir frá 1. – 15. apríl þá er miðað við að hámarksfjöldi í rými sé 30 manns og blöndun heimil.
Framhaldsskólar:
- Hámarksfjöldi nemenda og starfsmanna í rými er 30.
- Halda skal 2 metra nálægðartakmörkun milli nemenda og starfsfólks en nota grímu ella.
- Blöndun nemenda milli hópa er heimil og starfsfólk má fara milli rýma.
- Um viðburði tengda starfi eða félagslífi í framhaldsskóla fer eftir ákvæði um sviðslistir í reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.
https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Rg%20um%20takm%c3%b6rkun%20%c3%a1%20sk%c3%b3lastarfi%20vegna%20fars%c3%b3ttar_hreint%20lokaskjal.pdf
Eftir kennslu í dag hefst páskafrí.
Kennsla hefst aftur þriðjudaginn 6. apríl. Á þessari stundu er ekki ljóst hvort kennt verður í staðnámi eða fjarnámi. Upplýsingar þar að lútandi verða sendar þegar nær dregur.
Bestu óskir um gleðilega páska og góða daga.
Á miðnætti taka gildi nýjar sóttvarnarreglur sem fela það í sér að ekkert staðnám verður næstu tvo daga, þ.e. fimmtudaginn 25. mars og föstudaginn 26. mars sem er síðasti kennsludagur fyrir páskafrí.
Eftirfarandi gildir:
– Tekin verður upp fjarkennsla þar sem því verður við komið.
– Núverandi stundatafla gildir þessa tvo daga.
– Nánari útfærsla á námi og kennslu er í höndum hvers kennara og munu kennarar senda upplýsingar um fyrirkomulag til sinna hópa.
Nauðsynlegt er að allir nemendur fylgist vel með vef skólans, tölvupósti, Námsvef og Teams. Eins og áður er mikilvægt að allir fylgi settum sóttvarnarreglum svo við komumst í skólann eftir páska.
Við vitum að það er krefjandi að vera komin aftur í þessar aðstæður en við vonum að þetta gangi fljótt yfir.
Í dag komu til okkar góðir gestir og því var tvöfalt uppbrot hjá okkur í FAS. Það var annars vegar Sigríður Dögg Arnardóttir kynfræðingur sem kom ræddi við hópinn um hvaðeina er viðkemur samskiptum og kynlífi.
Hins vegar komu gestir frá Hugarafli en það eru félagasamtök um geðheilbrigðismál þar sem áhersla er lögð á að einstaklingurinn sé stjórnandinn í eigin lífi. Þar var fyrst og fremst miðlað af reynslu en einnig hvar hægt er að leita aðstoðar.
Vel tókst til og bæði nemendur og gestir voru sáttir með daginn.