Heimsmarkmið 12 og Cittaslow

14.apr.2021

Einn þeirra áfanga sem er kenndur í FAS þessa önnina heitir Erlend samskipti og í honum eru núna 10 nemendur. Þessi áfangi er hluti af þriggja ára samskiptaverkefni undir merkjum Nordplus. Í verkefninu eru skólar í Finnlandi, Noregi og Íslandi að vinna með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Áherslan þessa önnina er á heimsmarkmið 12 sem fjallar um ábyrga neyslu og framleiðslu. Fyrr á önninni hafa nemendur m.a. kynnt sér hvað einstaklingar og fyrirtæki eru að gera til að aðlaga sem best sína starfsemi að ábyrgri neyslu og framleiðslu.

Mánudaginn 12. apríl fór hópurinn í FAS í heimsókn á Djúpavog til að kynna sér Cittaslow en Djúpivogur hefur verið aðili að verkefninu frá 2013. Markmið Cittaslow-hreyfingarinnar sem einnig er kallað hæglætishreyfing er að auka lífsgæði og ánægju fólks með því að veita hnattvæðingu, einsleitni og hraðaáráttu í borgum og bæjum nútímans viðnám og heiðra þess í stað sérstöðu, vitund og sjálfbærni. Og þetta markmið fellur mjög vel að heimsmarkmiði 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu. Gréta Mjöll Samúelsdóttir atvinnu- og menningarmálafulltrúi á Djúpavogi tók á móti hópnum, sagði frá tilurð og starfsemi Cittaslow og hvernig Cittaslow tengist inn í daglegt líf á Djúpavogi. Eftir að hafa fengið fræðslu var gengið um bæinn og áhugaverðir staðir skoðaðir. Áður en lagt var af stað heim var snæddur hádegisverður á Djúpavogi. Ferðin gekk í alla staði vel og kom hópurinn reynslunni ríkari heim.

Samkvæmt umsókninni hefðu nemendur í áfanganum átt að vera í Noregi þessa vikuna en eins og allir vita eru ferðalög ekki vænlegur kostur um þessar mundir. Nemendur í verkefninu hafa því nýtt sér tæknina til að vinna saman og eru að vinna saman í smærri hópum að því að búa til veggspjald sem tengist heimsmarkmiði 12. Síðasti dagurinn í sameiginlegri vinnu í verkefninu á þessari önn er á morgun og í lok dags munu hóparnir kynna sín veggspjöld. Næsta haust er svo áætlað að hittast í Finnlandi og við vonum svo sannarlega að það gangi eftir.

Aðrar fréttir

Opnir dagar í FAS

Opnir dagar í FAS

Í morgun hófust opnir dagar í FAS og þeir standa yfir í þrjá daga. Þessa daga er ekki hefðbundin kennsla en margt annað í boði. Kristján áfangastjóri hefur veg og vanda að skipulagi opinna daga og kennarar eru honum til aðstoðar. Dagskráin í dag hófst með léttum...

Opnir dagar í næstu viku

Opnir dagar í næstu viku

Áfram flýgur tíminn. Nú er orðið bjart þegar við mætum í skólann og jafnvel má sjá ummerki um að vorið sé í nánd. Í þessari viku hafa staðið yfir miðannarviðtöl og í næstu viku verða opnir dagar en þá er hefðbundið nám sett til hliðar og nemendur fást við eitthvað...

Öskudagsþema í FAS

Öskudagsþema í FAS

Eins og flestir vita er öskudagur í dag. Öskudagur er fyrsti dagur í lönguföstu og segir okkur um leið að nú séu 7 vikur til páska. Langafasta er sérstaklega mikilvæg í kaþólska kirkjuárinu og á að vera tími íhugunar og góðrar breytni. Lengi var það sérstakur siður á...