Gengið til heiðurs nýnemum

Dagurinn í dag er sérstaklega helgaður nýnemum enda mikilvægt að þeir kynnist eldri nemendum og kennurum skólans. Strax í upphafi skóladags var farið með hópinn í rútu að Almannaskarði og gengið þaðan í áttina að Bergárdalnum og svo niður með Bergánni. Á leiðinni var staldrað nokkrum sinnum við og spáð í umhverfið og það sem vakti áhuga. Þó engin hafi verið sólin var veðrið milt og hentugt til göngu. Það vakti eftirtekt hversu þægilegur hópurinn var með jákvæðni í fyrirrúmi.
Þegar komið var til baka í Nýheima hittist hópurinn á Nýtorgi. Forsetar nemendafélagsins þeir Sævar Rafn og Tómas Nói ásamt Lind sem hefur umsjón með félagslífinu kynntu klúbbastarf nemendafélagsins og hvöttu nemendur til að skrá sig í hópa. Það er mikilvægt að sem allra flestir nemendur séu virkir til að skapa blómlegt félagslíf.
Í hádeginu var svo veisla í boði skólans. Hún Hafdís okkar bauð upp á grillveislu og voru veitingunum gerð góð skil.

Hestamennskusvið í FAS

Nám í hestamennsku hófst formlega í FAS þann 18. ágúst. Það eru 22 nemendur skráðir í námið sem er einstaklingsmiðað nám sem hentar vel fyrir einstaklinga sem eru komnir út á vinnumarkaðinn. Námið er 20 einingar; 10 einingar eru bóklegar í fjarnámi og 10 einingar verklegar á vorönn.
Námið undirbýr nemendur til að verða aðstoðarmenn í hvers konar hestatengdri starfsemi, svo sem á hestabúgörðum, við hestatengda ferðaþjónustu eða hjá öðrum sambærilegum fyrirtækjum. Einnig er lögð áhersla á að nemendur geti sinnt helstu verkþáttum í hirðingu hesta, aðstoðað við þjálfun þeirra og geti aðstoðað viðskiptavini í hestaferðum hjá hestatengdum ferðaþjónustufyrirtækjum.
Það verður gaman að fylgjast með þessari nýjung í skólastarfinu.

Skólastarf hafið í FAS

Skólastarf hófst formlega í morgun þegar skólinn var settur. Þar var farið yfir helstu áherslur haustannarinnar í tengslum við námið. Einnig hvaða sóttvarnarreglur eru í gildi núna en eins og sést á myndinni þarf að hafa grímur ef ekki er unnt að tryggja eins metra fjarlægð. Þetta er nú fjórða önnin þar sem COVID er að hafa áhrif á skólastarfið.
Eftir skólasetningu mættu nemendur til umsjónarkennara þar sem var farið yfir stundatöflur og námsframboð. Einhverjir vildu endurskoða námsval sitt og er það mikilvægt að slíkt sé gert strax í upphafi annar. Öllum breytingum á stundatöflu þarf að vera lokið fyrir 26. ágúst.
Kennsla hefst svo í fyrramálið klukkan 8 eftir stundaskrá.

Skólabyrjun á haustönn (streymi)

Skólastarf haustannar hefst miðvikudaginn 18. ágúst klukkan 10 með skólasetningu í fyrirlestrasal Nýheima. Að lokinni skólasetningu verður umsjónarfundur þar sem stundatöflur verða skoðaðar og farið yfir helstu áherslur á önninni.

Kennsla hefst fimmtudaginn 19. ágúst samkvæmt stundaskrá. Bóksalan er eins og áður á bókasafninu og opnar á miðvikudag.

Við hlökkum til að sjá ykkur og vonum að skólastarf á haustönninni verði farsælt.

hlekkur á streymi

 

Sumarfrí í FAS

Nú er störfum síðasta skólaárs lokið og starfsfólk farið í sumarfrí. Skrifstofa skólans opnar aftur miðvikudaginn 4. ágúst.

Ef einhverjir eru að velta fyrir sér að fara í nám í haust er hægt að skoða upplýsingar um námsframboð á vef skólans og þar er einnig hægt að sækja um nám. Það er hægt að hafa samband við Eyjólf skólameistara í sumarfríinu ef erindið er brýnt (eyjo@fas.is og 860 29 58).

Við vonum að sumarið verði öllum ánægjulegt.

Útskrift í fjallamennsku

Aldrei fyrr hefur jafn stór hópur nemenda hafið nám í Fjallamennskunámi FAS og síðastliðið haust en þá voru hátt í 30 nemendur skráðir. Með stærsta hóp nemenda til þessa og heimsfaraldur hangandi yfir fór haustið vel af stað og ákveðið var að fjölga nemendum á vorönn og þá bættust hátt í 15 nemendur í hópinn. Fjölgun nemenda eftir áramót var liður í því að koma til móts við atvinnulausa og gefa þeim tækifæri til að stunda nám á meðan að erfitt var að finna vinnu.

Í dag er því mikill gleðidagur hjá okkur i Fjallamennskunámi FAS því rúmlega 20 nemendur eru að útskrifast.

Eftir þennan frábæra vetur með okkar ágæta nemenda- og kennarahóp hefur námið svo sannarlega vakið athygli og hafa umsóknir fyrir komandi vetur aldrei verið fleiri. Við höldum því ótrauð áfram í því að leggja metnað okkar í að stuðla að menntun í fjallaleiðsögn á Íslandi og hlökkum til að hefja enn eitt metárið í Fjallamennskunámi FAS. Áhugasamir mega endilega fylgjast með okkur á samfélagsmiðlum @fjallamennskunamfas.

Við óskum útskriftarnemendum innilega til hamingju með áfangann og óskum þeim velfarnaðar í þeim verkefnum sem eru framundan.