Langþráð ball í FAS

Í gær ríkti nokkur eftirvænting í FAS og ástæðan var sú að loksins var komið að langþráðu balli en slíkt hefur verið erfitt undanfarið vegna covid. Ballið var haldið í Sindrabæ og það var nemendaráð sem hafði veg og vanda að undirbúningnum.

Það er skemmst frá því að segja að ballið og allt í kringum það í gær tókst einstaklega vel. Það var ljóst að þeir sem mættu voru ákveðnir í að skemmta sér og njóta stundarinnar. Það var þó ekki einungis dansað heldur að þá var búið að undirbúa alls kyns leiki og sprell.

Mætingin var ágæt, sérstaklega hjá nemendum á fyrsta ári. Það má með sanni segja að allt í tengslum við ballið; undirbúningur, dansleikurinn sjálfur og svo frágangur hafi verið til miklllar fyrirmyndar og það sem var fyrir mestu að allir skemmtu sér vel.

Frábært hjá ykkur krakkar – þið kunnið svo sannarlega að skemmta ykkur!!

Miðannarmat og miðannarviðtöl

Þessa vikuna standa yfir svokölluð miðannarviðtöl í FAS. Þá hittast nemendur og kennari einslega og fara yfir stöðuna í áfanganum. Fyrir miðannarviðtölin fá nemendur miðannarmat í Innu en þar eru gefnar þrjár einkunnir; G sem stendur fyrir góðan árangur og þá er nemandinn með allt á hreinu. V stendur fyrir viðunandi sem þýðir að allt sé í lagi en vel hægt að bæta árangurinn. O stendur síðan fyrir óviðunandi sem þýðir að ef nemandi tekur sig ekki verulega á geti það þýtt fall í viðkomandi áfanga. Nemendur fá einnig umsögn sem á að vera lýsandi fyrir stöðuna.

Þeir nemendur sem fá tvö O eða fleira eru boðaðir í viðtal hjá umsjónarkennara þar sem reynt er að ráðleggja hvernig megi skipuleggja sig betur. Ef nemendur eru yngri en 18 ára eru foreldrar viðkomandi einnig boðaðir á fund.

Meðfylgjandi mynd var tekin í íslenskutíma í morgun.

Á leið til Finnlands

Haustið 2020 hófst þriggja ára samstarfsverkefni á milli Finnlands, Noregs og Íslands og er verkefnið styrkt af Nordplus. Verkefnið er einnig í samstarfi við jarðvanga í löndunum þremur og Vatnajökulsþjóðgarð. Í verkefninu er verið að vinna með valin heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og er eitt markmið tekið fyrir á hverri önn.
Síðastliðið haust áttu finnskir og norskir nemendur að koma til Íslands og síðasta vor átti að fara í heimsókn til Noregs. Ekkert varð þó úr ferðalögum vegna COVID19. Núna hefur heldur birt til og tiltölulega auðvelt fyrir bæði Íslendinga og Finna að ferðast en næsta ferð samkvæmt umsókn er til Finnlands. Það eru þó enn miklar takmarkanir í Noregi. Þegar umsjónarmenn verkefnisins hittust í upphafi haustannar var ákveðið að íslenski hópurinn fari til Finnlands í viku 39 eins og gert er ráð fyrir í umsókninni. Þátttakendur í verkefninu í Noregi ætla að fara í vettvangsferðir nálægt Brønnøysund. En hóparnir ætla líka að nýta tæknina og vinna saman í gegnum Teams.
Næsta sunnudag er svo komið að því að leggja af stað til Finnlands og hópurinn verður kominn til Vaala á mánudagskvöld. Í Finnlandi verður tíminn notaður vel í vettvangsferðir og vinnu tengda verkefninu. Við munum segja frá ferðalaginu á vefsíðu verkefnisins https://geoheritage.fas.is/.
Það er óhætt að segja að mikil eftirvænting sé fyrir ferðinni og allir farnir að hlakka til að ferðast aftur og ekki síst að kynnast nýju landi og nýju fólki. Á myndinni má sjá hópinn sem er á leiðinni til Finnlands.

Fjallamennskunemendur í gönguferð

Nemendur á fyrsta ári í Fjallamennskunámi FAS fóru í áfangann Gönguferð dagana 30. ágúst til 5. september. Hópurinn sem er að byrja í náminu í ár er stór og er því skipt í tvennt í þessum áfanga. Seinni hluti hópsins tekur áfangann 13. til 19. september. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Ástvaldur Helgi Gylfason, Elín Lóa Baldursdóttir, Svanhvít Helga Jóhannsdóttir og Tómas Eldjárn Vilhjálmsson. Markmið áfangans er að nemendur öðlist grunn í kortalestri, rötun, að ferðast með allan búnað á bakinu, útieldun, tjaldbúðalífi og þverun straumvatna. Hópurinn gekk í Lóni í fjóra daga og varði þremur nóttum í tjaldi en áfanginn er vika í heildina.

Á fyrsta degi var farið í hópefli til að hrista nýjan hóp saman og talað var um væntingar hvers og eins bæði til námsins og áfangans. Næst var farið í hvernig lesa og skrá niður veðurspá og hvaða búnað er nauðsynlegt og/eða gott að hafa með í gönguferð. Hópnum var skipt í tjald- og matarhópa en þau sáu sjálf um að skipuleggja matarinnkaup fyrir ferðina.

Á öðrum degi var farið í að lesa hæðarlínur á landakorti, átta sig á því að taka stefnu með áttavita og finna hnit á korti. Farið var yfir gerð leiðarkorts og heimaverkefni dagsins var að skipuleggja fyrstu tvo daga ferðarinnar hvað varðar vegalengdir, stefnur og tímaáætlanir.

Á þriðja degi var farið í GPS og ýmis símaforrit kynnt sem hægt er að nota til rötunar og kortalesturs. Eftir hádegi var hópnum skutlað að Borgarbrekku í Lóni og lagt var af stað í göngu. Nemendum var skipt í hópa og einn hópur leiðsagði hinum þangað sem ferðinni var heitið. Þegar komið var á áætlaðan náttstað var farið yfir hvað er gott að hafa í huga þegar tjaldað er og hvernig hægt er að forðast að stór gönguhópur eins og okkar skilji eftir sig nokkur ummerki þegar tjaldsvæðið er yfirgefið næsta morgun.

Á fjórða degi námskeiðsins var tjöldum pakkað saman og göngu haldið áfram eftir morgunmat. Lítið var í öllum ám og lækjum vegna lítillar úrkomu undanfarið en vaðið var yfir Karlsá einu sinni áður en leiðsöguhópur dagsins stefndi hópnum upp Fokkugil. Þegar komið var upp úr Fokkugili var stefnan tekin niður Sléttugil. Leiðsöguhópi dagsins reyndist erfiðara en þau höfðu gert ráð fyrir að finna leið niður meðfram Sléttugili og að endingu var tekin ákvörðun um að tjalda á litlum grasbala vestan í Lambafelli á bakka gilsins.

Á fimmta degi var haldið niður austan Sléttugils og Karlsánni fylgt vestur og svo gengið suður Hvannadal og niður Hvannagil. Á þessari leið komu upp sviðsett meiðsli þar sem hópurinn þurfti að bregðast við, hlúa að “meidda” einstaklingnum og vera reiðubúinn að gefa björgunarteymi upp staðsetningu sína á korti. Þriðju og síðustu nóttina gisti hópurinn á tjaldsvæðinu í Smiðjunesi.

Á sjötta degi var gengið frá Smiðjunesi að Vötnum og þaðan niður Raftagil þar sem rúta beið hópsins. Seinnipartur dagsins fór í frágang á tjöldum og öðrum búnaði.

Á sjöunda og síðasta degi áfangans var farið yfir þverun straumvatna fyrst inni í skólastofu í FAS en síðan fór hópurinn í Laxá í Nesjum og æfði sig í að þvera missterka strauma í ánni. Farið var yfir hvernig hægt er að lesa í varasama og örugga staði í ánni og allir æfðu sig bæði að vaða og að synda í ánni.

Alla daga tók hópurinn reglulega umræðuhring og deildi uppbyggilegri gagnrýni á það sem hafði farið fram þann dag til að draga lærdóm af því sem vel var gert og því sem hefði mátt gera betur. Síðasta daginn var tekin lokaumræða um áfangann í heild, hvernig hann mætti væntingum fólks, hvað var gott og hvað hefði gert hann betri.

[modula id=“13177″]

Inniratleikur í FAS

Nokkrum sinnum á önn eru svokölluð „uppbrot“ í skólastarfi í FAS en þá er felld niður kennsla í einn tíma og nemendur fást við eitthvað annað. Eitt slíkt var á dagskrá í dag og var ráðgert að það væri ratleikur. Þar sem veðurspáin fyrir daginn var ekki mjög spennandi til útiveru var brugðið á það ráð að setja upp ratleik inni í Nýheimum.

Það vill svo til að þessa daga eru fyrsta árs nemar í fjallanáminu í húsi og þegar þeir höfðu blandast staðnemendum var hópurinn orðinn nokkuð stór eða um 100 manns. Hópnum var skipt í 11 smærri hópa og þurftu þeir þá leita að og ganga á milli jafnmargra stöðva þar sem kennarar biðu þeirra og lögðu fyrir þraut. Þegar þrautin var leyst á hverjum stað fékk hópurinn bókstaf og þegar allar þrautir voru leystar gátu nemendur fundið lausnarorðið sem að þessu sinni var skólameistari.

Að leik loknum var boðið upp á morgunverð á Nýtorgi þar sem hún Hafdís okkar töfraði fram kræsingar eins og henni einni er lagið.

Þetta var hin fínasta skemmtun og ekki annað að sjá en allir skemmtu sér hið besta. Þetta er líka góð leið til kynnast nýju fólki.

[modula id=“13148″]

Gisti- og kennslutjald í FAS

Á dögunum eignaðist skólinn stórt og mikið tjald sem einkum er hugsað sem gistiaðstaða fyrir nemendur í fjallamennskunámi en auðvitað er hægt að nýta það fyrir annað starf í skólanum ef þarf.
Tjaldið var notað í fyrsta skipti í klifuráfanga sem var kenndur í Öræfum í síðustu viku. Tjaldið er uppblásið og tekur aðeins fáeinar mínútur að tjalda því. Þá voru líka keyptir 30 beddar sem nýtast fyrir gistingu. Tjaldið getur einnig nýst til kennslu í vettvangsferðum. Tjaldið reyndist ljómandi vel í sinni fyrstu ferð.
Ástæða þess að tjaldið var sett upp í dag fyrir utan FAS var að það þurfti að þurrka það áður en það verður notað næst.

[modula id=“13133″]