Sjókajaknámskeið FAS

Í apríl fóru fram tvö kajaknámskeið í fjallamennskunáminu. Þar fá nemendur örstutta hvíld frá fjöllunum og upplifa útivist sem er mjög frábrugðin klifri, jöklaferðum og skíðamennsku. Kajaknámskeiðið er frábær viðbót inn í flóru fjallamennskunámsins en þar opnast fyrir nemendum nýjar dyr innan útivistargeirans á Íslandi.  Kennarar námskeiðsins voru Magnús Sigurjónsson, Sigfús Sigfússon, Michael Walker og Erla Guðný Helgadóttir.

Í þessum áfanga byrjuðum við inni í skólastofu fyrir hádegi þar sem farið var yfir sjávarfallafræði, lesið í sjókort, leiðaval á sjó, alls kyns bjarganir og þann helsta búnað sem kayakleiðsögumenn þurfa að hafa með í för. Einnig var farið yfir kajakferðir og leiðsögn á jökullónum, þær hættur sem leynast þar og öryggisatriði.

Annar dagurinn fór í skipulag leiðangurs á kajak en þar þarf að huga að ýmsum þáttum sem nemendur voru margir að kynnast í fyrsta skipti. Hafstraumar og sjávarföll eru hugtök og fræði sem þarf að læra á til þess að skipuleggja góðan leiðangur á kajak. Nemendur fengu þó að sjálfsögðu einnig að spreyta sig á tækni og var haldið út á sjó. Þar fengu nemendur tækifæri til þess að kynnast hafstraumum, læra ýmsa róðratækni, æfa félagabjarganir, leiðsögutækni og leiðaval svo eitthvað sé nefnt.

Á fjórða og síðasta degi námskeiðsins æfðu nemendur leiðaval, að leiða hóp og einnig fékkst þar tækifæri til þess að æfa enn betur þá tækni sem kynnt var dagana áður. Þau fengu einnig að prófa svokallaða sit on top báta og æfðu félagabjörgun á þeim. Hópur tvö fékk tækifæri til þess að prófa kajakveltuna í sundlauginni á Höfn en það var ekki möguleiki fyrir fyrri hópinn.

Veðrið hjá báðum hópum var með ýmsu móti en að mestu gott þó að stundum hafi blásið hressilega. Kennarahópurinn var hæstánægður með frammistöðu nemenda og vonast til þess að þau geti nýtt sér öll þau tæki og tól sem þau öðluðust á námskeiðinu í náinni framtíð. Nú ættu nemendur að vera tilbúnir í næsta kajakævintýri!

[modula id=“12717″]

Úrslit í veggspjaldsamkeppni

Eins og við sögðum frá í síðustu viku hefðu 10 nemendur átt að vera í Noregi í síðustu viku. Þó engin væru ferðalögin var tæknin notuð til að vinna saman. Í hópavinnu voru tveir nemendur frá hverju landi og saman átti að vinna að veggspjaldi þar sem unnið var með heimsmarkmið 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu.
Auk skólanna þriggja í Finnlandi, Noregi og Íslandi eru jarðvangar í nágrenni skólanna samstarfsaðilar. Trollfjell jarðvangurinn í Noregi ákvað að efna til samkeppni um besta veggspjaldið þar sem m.a. eftirfarandi var til grundvallar; skýr og innihaldsríkur texti, góð litasamsetning og myndir við hæfi. Vinnan við veggspjöldin gekk mjög vel og síðasta daginn kynntu hóparnir afrakstur vinnunnar.
Í gær var svo tilkynnt hvaða veggspjald hefði borið sigur úr býtum og það var veggspjald frá hópi 3 en þar voru Harpa Sigríður og Karen Ása fulltrúar Íslands. Veggspjaldið verður sent til EGN (European Geoparks Network) sem er dreift til allra jarðvanga í Evrópu. Nánari upplýsingar um vinningsveggspjaldið má sjá hér. Öll veggspjöldin er að finna á síðu verkefnisins undir „Spring 2021 – Goal 12“
Öll fimm veggspjöldin sem voru unnin í síðustu viku verða hengd upp í FAS.

Axel Elí gefur út smáskífu

Við í FAS erum stolt að segja frá því að nemandi okkar, Axel Elí Friðriksson, gaf út sína fyrstu smáskífu nú í vikunni sem ber heitið „Glas af viskí“. Axel Elí vinnur undir listamannsnafninu „Seli“.

Plötuna má finna á Spotify. Platan var að hluta til tekin upp og hljóðblönduð í Stúdíói FAS (stofu 205). Annar nemandi, Karen Ása Benediktsdóttir, syngur líka á plötunni og Skrýmir listgreinakennari í FAS sá um hljóðjöfnun í lögunum.

Axel hefur áður gefið út tónlistarmyndbönd og er eitt nýtt á leiðinni bráðlega. Við óskum Axel innilega til hamingju með útgáfuna. Hægt er að hlutsta á lagið á þessari slóð: Spotify – Web Player: Music for everyone

Heimsmarkmið 12 og Cittaslow

Einn þeirra áfanga sem er kenndur í FAS þessa önnina heitir Erlend samskipti og í honum eru núna 10 nemendur. Þessi áfangi er hluti af þriggja ára samskiptaverkefni undir merkjum Nordplus. Í verkefninu eru skólar í Finnlandi, Noregi og Íslandi að vinna með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Áherslan þessa önnina er á heimsmarkmið 12 sem fjallar um ábyrga neyslu og framleiðslu. Fyrr á önninni hafa nemendur m.a. kynnt sér hvað einstaklingar og fyrirtæki eru að gera til að aðlaga sem best sína starfsemi að ábyrgri neyslu og framleiðslu.

Mánudaginn 12. apríl fór hópurinn í FAS í heimsókn á Djúpavog til að kynna sér Cittaslow en Djúpivogur hefur verið aðili að verkefninu frá 2013. Markmið Cittaslow-hreyfingarinnar sem einnig er kallað hæglætishreyfing er að auka lífsgæði og ánægju fólks með því að veita hnattvæðingu, einsleitni og hraðaáráttu í borgum og bæjum nútímans viðnám og heiðra þess í stað sérstöðu, vitund og sjálfbærni. Og þetta markmið fellur mjög vel að heimsmarkmiði 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu. Gréta Mjöll Samúelsdóttir atvinnu- og menningarmálafulltrúi á Djúpavogi tók á móti hópnum, sagði frá tilurð og starfsemi Cittaslow og hvernig Cittaslow tengist inn í daglegt líf á Djúpavogi. Eftir að hafa fengið fræðslu var gengið um bæinn og áhugaverðir staðir skoðaðir. Áður en lagt var af stað heim var snæddur hádegisverður á Djúpavogi. Ferðin gekk í alla staði vel og kom hópurinn reynslunni ríkari heim.

Samkvæmt umsókninni hefðu nemendur í áfanganum átt að vera í Noregi þessa vikuna en eins og allir vita eru ferðalög ekki vænlegur kostur um þessar mundir. Nemendur í verkefninu hafa því nýtt sér tæknina til að vinna saman og eru að vinna saman í smærri hópum að því að búa til veggspjald sem tengist heimsmarkmiði 12. Síðasti dagurinn í sameiginlegri vinnu í verkefninu á þessari önn er á morgun og í lok dags munu hóparnir kynna sín veggspjöld. Næsta haust er svo áætlað að hittast í Finnlandi og við vonum svo sannarlega að það gangi eftir.

Staðkennsla aftur heimil

Kennsla hefst þriðjudaginn 6. apríl samkvæmt stundaskrá og staðkennsla verður með sama hætti og hún var fram að lokun þann 25. mars.

Samkvæmt reglugerð um skólahald sem gildir frá 1. – 15. apríl þá er miðað við að hámarksfjöldi í rými sé 30 manns og blöndun heimil.

Framhaldsskólar:

  • Hámarksfjöldi nemenda og starfsmanna í rými er 30.
  • Halda skal 2 metra nálægðartakmörkun milli nemenda og starfsfólks en nota grímu ella.
  • Blöndun nemenda milli hópa er heimil og starfsfólk má fara milli rýma.
  • Um viðburði tengda starfi eða félagslífi í framhaldsskóla fer eftir ákvæði um sviðslistir í reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar.

https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Rg%20um%20takm%c3%b6rkun%20%c3%a1%20sk%c3%b3lastarfi%20vegna%20fars%c3%b3ttar_hreint%20lokaskjal.pdf

Páskafrí hefst í dag

Eftir kennslu í dag hefst páskafrí.

Kennsla hefst aftur þriðjudaginn 6. apríl. Á þessari stundu er ekki ljóst hvort kennt verður í staðnámi eða fjarnámi. Upplýsingar þar að lútandi verða sendar þegar nær dregur.

Bestu óskir um gleðilega páska og góða daga.