Snjóflóð og skíði

Nemendur í grunnnámi Fjallamennskunáms FAS lögðu leið sína austur á firði til Eskifjarðar dagana 11. – 15. febrúar og 18. – 22. febrúar. Þar var ætlunin að njóta blíðunnar í Oddsskarði á skíðum og læra allt sem hægt er að læra um snjóflóð á fimm dögum. Námskeiðin gengu bæði frábærlega og sýndu nemendur mikinn áhuga á fræðunum, færni í snjóflóðabjörgun og auðvitað magnaða skíða- og brettatakta.

Dagskrá námskeiðanna var þétt enda þurfti að koma miklu námsefni að og af nógu að taka þegar kemur að snjóflóðafræðum. Helst var farið yfir snjóflóðabjörgun, eðli snjóflóða, snjóflóða- og veðurspár, skipulagningu ferða, landslagslestur, snjóathuganir og aðferðir til að meta snjóflóðaaðstæður á staðnum og auðvitað skíða- og brettatækni sem er grunnur að því að ferðast af öryggi á skíðum/bretti í fjalllendi. Snjóflóðanámskeiðið er jafnframt undirbúningur fyrir komandi námskeið á önninni, enda er þekking á snjóflóðafræðum og færni í björgun grunnþáttur í fjallamennsku að vetrarlagi.

Lægðagangurinn í febrúar var sem fyrr látlaus og setti örlítið strik í reikninginn fyrir bæði námskeiðin, þá er mikilvægt að dagskráin sé sveigjanleg og öll móttækileg fyrir veðri og vindum og breyttum áformum. Þannig er eðli náms sem fer fram úti í náttúrunni, alltaf þarf að vinna með náttúruöflunum. Þrátt fyrir smávægilegan mótvind, var farið yfir allt námsefnið og allir komust heilu og höldnu heim til sín eftir áfangann.

Kennarar og nemendur dvöldu á hinni dásamlegu Mjóeyri, þar sem aðstaðan er frábær. Við innikennslu og bíókvöld var notast við sjálft Randulffssjóhús sem stendur á ströndinni í jaðri bæjarins en húsið er í umsjá staðarhaldara á Mjóeyri. Það er ekki annað hægt að segja en að Eskifjörður og Oddsskarð taki alltaf vel á móti FAS og erum við kennararnir spenntir að taka á móti fjallaskíðahópum nú í mars, í Austfirsku Alpana!

[modula id=“14032″]

Styttist í árshátíð

Það hefur aldeilis verið nóg um að vera í FAS það sem af er þessari viku. Stór hluti nemenda hefur verið að undirbúa árshátíð sem verður í næstu viku. Þar er að mörgu að hyggja. Það þarf að útbúa skreytingar, panta mat og sjá til þess að allt verði til reiðu. Síðast en ekki síst þarf að undirbúa skemmtiatriði og þá er gjarnan litið til þess hvernig síðasta skólaár hefur verið. Oftar en ekki er gert góðlátlegt grín að samferðafólkinu, bæði nemendum og kennurum.
Tæknin er sífellt meira nýtt og í stað þess að leika atriði á sviði eru þau gjarnan tekin upp og svo klippt saman í eitt árshátíðarmyndband. Meðfylgjandi mynd var tekin í dag en þá var einmitt verið að vinna í myndbandinu.

Opnir dagar í FAS

Það er fyrir löngu orðin hefð að hafa „opna daga“ í FAS á vorönninni en þá er námið sett til hliðar í þrjá daga og nemendur fást við eitthvað allt annað. Að þessu sinni ætlaði stór hluti staðnemenda að fara í skíðaferð í Oddskarð en veðurguðirnir gripu í taumana og sáu til þess að ekkert varð úr ferðinni.

Að venju starfa nokkrir hópar á „opnum dögum“. Þrír hópar eru að undirbúa árshátíð sem verður haldin fimmtudaginn 10. mars. Það er að mörgu að hyggja þegar halda skal árshátíð. Einn hópurinn er að undirbúa skreytingar, annar hópurinn er að búa til skemmtiatriði og þriðji hópurinn ætlar að búa til texta og lög sem verða flutt á árshátíðinni.

Síðasti hópurinn sem starfar á „opnum dögum“ veltir fyrir sér skapandi skrifum og þegar litið var til þeirra rétt áðan voru þeim heimsmálin síðustu daga hugleikin.

Veikindi lita „opna daga“ nokkuð að þessu sinni, Covid hefur náð í skottið á mörgum. En þeir sem eru mættir vinna vel.

Meðfylgjandi mynd var tekin hjá skreytingahópi fyrr í dag, þar er búið að ákveða þema árshátíðarinnar að þessu sinni en það verður ekkert upplýst um það að svo stöddu.

Hvert örstutt spor

Í tilefni af 60 ára afmæli Leikfélags Hornafjarðar er nú verið að æfa nýtt íslenskt leikrit sem ber nafnið „Hvert örstutt spor“. Stefán Sturla skrifaði handritið sem byggir á leikritinu „Silfurtunglið“ eftir Halldór Laxness. Áætluð frumsýning er þann 18. mars. Að uppsetningunni standa Leikfélag Hornafjarðar og sviðslistanemar FAS.

Æfingar hófust í janúar við afar erfiðar aðstæður í kaffiteríu Nýheima, Nýtorgi. Nú eru hins vegar æfingar hafnar í Mánagarði og er öll tæknivinna, leikmyndasmíði og önnur undirbúningsvinna unnin jöfnum höndum í menningarhluta Mánagarðs. Vonandi verður hugað sem fyrst að framtíðarhúsnæði fyrir menningu í sveitarfélaginu til lengri tíma.

Verkið fjallar um unga fólkið sem dreymir um frægð og frama og er tilbúið að leggja á sig „hvað sem er“ til að ná þeim árangri. Leikritið gerist í nútímanum og er með söngvum og dassi af samfélagsrýni, Twitter- og Instagram færslum og skemmtilegum hversdagsuppákomum.

Listrænir stjórnendur eru Stefán Sturla leikstjóri og höfundur, Heiðar Sigurðsson tónlistarstjóri, Lind Draumland búningar og grímur, Skrýmir Árnason kvikmyndaverkefni, Hólmfríður Bryndís Þrúðmarsdóttir dans, Tim Junge hönnun, Þorsteinn Sigurbergsson ljósahönnun og Birna J. Magnúsdóttir förðun.

Járninganámskeið í hestamennskunámi FAS

Skagfirðingurinn og járningameistarinn Stefán Steinþórsson kom til Hafnar síðastliðinn fimmtudag og hélt járninganámskeið fyrir nemendur FAS í hestamennsku. Stefán hefur um árabil búið í Noregi og járnað hesta um alla Skandinavíu. Hann er járningakennari við hestamennskunám Háskólans á Hólum í Hjaltadal.

Seinnipart fimmtudagsins hélt Stefán fyrirlestur í Nýheimum um heilbrigði hófa, járningu og áhrif fóðurs á hófa. Þá fór hann jafnframt yfir hversu mikilvægt sé að járna hesta reglulega til að styrkja jafnvægi hestsins, og forðast vöðva og sinabólgur. Á föstudeginum var síðan verkleg kennsla í reiðhöll hestamannafélagsins Hornfirðings þar sem nemendur lærðu rétt handtök við járningu hesta sinna. Um helgina var síðan járninganámskeið fyrir félagsfólk Hornfirðings en FAS og hestamannafélagið hefur verið í samstarfi í vetur vegna þessa nýja náms framhaldsskólans.

FAS minnir á að í vor verður tekið við skráningu nýnema og nema í framhaldsnám í hestamennsku fyrir næsta skólaár.

[modula id=“13899″]

Að lokinni umhverfisviku

Eins og við höfum áður sagt frá var síðasta vika helguð umhverfismálum í Nýheimum. Við skoðuðum matar- og ferðavenjur íbúanna, reiknuðum út kostnað og veltum líka fyrir okkur hvað væri best fyrir umhverfið. Sorpið var skoðað sérstaklega þessa vikuna og það flokkað. Heildarmagn úrgangs í Nýheimum í síðustu viku var 34,3 kíló og um 10% þess fellur undir óflokkað. Þegar nánar er rýnt í tölurnar sést að töluvert af því sem fellur í lífrænan úrgang mætti flokka sem matarsóun. Þar þurfum við að taka okkur á.

Við fengum fínan fyrirlestur frá Íslenska Gámafélaginu um flokkun sorps og stöðuna á því í Nýheimum. Það var sérstaklega gaman að sjá og heyra fyrirspurnir þátttakenda.

Í lok umhverfisvikunnar unnu svo nemendur alls kyns veggspjöld og hvatningar til að minna okkur á mikilvægi þess að vanda okkur sem mest í okkar daglega lífi umhverfinu til heilla. Góð vísa er sannarlega aldrei of oft kveðin. Hér fyrir neðan má sjá nokkur af hugverkum nemenda í umhverfisviku.

[modula id=“13876″]