Skagfirðingurinn og járningameistarinn Stefán Steinþórsson kom til Hafnar síðastliðinn fimmtudag og hélt járninganámskeið fyrir nemendur FAS í hestamennsku. Stefán hefur um árabil búið í Noregi og járnað hesta um alla Skandinavíu. Hann er járningakennari við hestamennskunám Háskólans á Hólum í Hjaltadal.
Seinnipart fimmtudagsins hélt Stefán fyrirlestur í Nýheimum um heilbrigði hófa, járningu og áhrif fóðurs á hófa. Þá fór hann jafnframt yfir hversu mikilvægt sé að járna hesta reglulega til að styrkja jafnvægi hestsins, og forðast vöðva og sinabólgur. Á föstudeginum var síðan verkleg kennsla í reiðhöll hestamannafélagsins Hornfirðings þar sem nemendur lærðu rétt handtök við járningu hesta sinna. Um helgina var síðan járninganámskeið fyrir félagsfólk Hornfirðings en FAS og hestamannafélagið hefur verið í samstarfi í vetur vegna þessa nýja náms framhaldsskólans.
FAS minnir á að í vor verður tekið við skráningu nýnema og nema í framhaldsnám í hestamennsku fyrir næsta skólaár.
[modula id=“13899″]