Nemendur í grunnnámi Fjallamennskunáms FAS lögðu leið sína austur á firði til Eskifjarðar dagana 11. – 15. febrúar og 18. – 22. febrúar. Þar var ætlunin að njóta blíðunnar í Oddsskarði á skíðum og læra allt sem hægt er að læra um snjóflóð á fimm dögum. Námskeiðin gengu bæði frábærlega og sýndu nemendur mikinn áhuga á fræðunum, færni í snjóflóðabjörgun og auðvitað magnaða skíða- og brettatakta.
Dagskrá námskeiðanna var þétt enda þurfti að koma miklu námsefni að og af nógu að taka þegar kemur að snjóflóðafræðum. Helst var farið yfir snjóflóðabjörgun, eðli snjóflóða, snjóflóða- og veðurspár, skipulagningu ferða, landslagslestur, snjóathuganir og aðferðir til að meta snjóflóðaaðstæður á staðnum og auðvitað skíða- og brettatækni sem er grunnur að því að ferðast af öryggi á skíðum/bretti í fjalllendi. Snjóflóðanámskeiðið er jafnframt undirbúningur fyrir komandi námskeið á önninni, enda er þekking á snjóflóðafræðum og færni í björgun grunnþáttur í fjallamennsku að vetrarlagi.
Lægðagangurinn í febrúar var sem fyrr látlaus og setti örlítið strik í reikninginn fyrir bæði námskeiðin, þá er mikilvægt að dagskráin sé sveigjanleg og öll móttækileg fyrir veðri og vindum og breyttum áformum. Þannig er eðli náms sem fer fram úti í náttúrunni, alltaf þarf að vinna með náttúruöflunum. Þrátt fyrir smávægilegan mótvind, var farið yfir allt námsefnið og allir komust heilu og höldnu heim til sín eftir áfangann.
Kennarar og nemendur dvöldu á hinni dásamlegu Mjóeyri, þar sem aðstaðan er frábær. Við innikennslu og bíókvöld var notast við sjálft Randulffssjóhús sem stendur á ströndinni í jaðri bæjarins en húsið er í umsjá staðarhaldara á Mjóeyri. Það er ekki annað hægt að segja en að Eskifjörður og Oddsskarð taki alltaf vel á móti FAS og erum við kennararnir spenntir að taka á móti fjallaskíðahópum nú í mars, í Austfirsku Alpana!
[modula id=“14032″]