FAS hefur í mörg ár verið þátttakandi í verkefninu heilsueflandi framhaldsskóli og fjallar reglulega um margt sem stuðlar að betri heilsu og vellíðan. Frá árinu 2016 hefur sveitarfélagið okkar verið heilsueflandi og gerir á sama hátt margt til að bæta heilsu og vellíðan íbúanna.
Dagana 23. – 30. september stendur yfir íþróttavika Evrópu og margir viðburðir í boði, bæði til að fræða og eins til að hægt sé að kynnast mismunandi íþróttagreinum.
Vinnustund í dag var helguð íþróttavikunni og fengum við fræðslu frá Margréti Láru Viðarsdóttur fyrrverandi landssliðskonu í fótbolta og Einari Erni Guðmundssyni sjúkraþjálfara. Þar var meðal annars fjallað um mikilvægi hreyfingar, réttrar næringar og slæm áhrif af neyslu orkudrykkja.
Við þökkum þeim Einari Erni og Margréti Láru kærlega fyrir komuna og mikilvægt innlegg og vonum að allir hafi haft bæði gagn og gaman af.
Í dag var komið að „stóra“ deginum á Íslandi í ForestWell verkefninu en það var ferð í Haukafell þar sem Skógræktarfélag Austur-Skaftafellssýslu er með svæði. Tilgangur ferðarinnar var að njóta náttúrunnar en um leið að gera gagn. Það voru nemendur í 6. og 7. bekk Grunnskóla Hornafjarðar og nemendur í FAS auk nokkurra kennara sem fóru í ferðina. Hulda Laxdal sem er verkefnastjóri í ForestWell verkefninu hafði yfirumsjón með því sem fram fór í Haukafelli.
Það voru tæplega 100 manns sem komu í Haukafell í tveimur rútum og í byrjun var þeim skipt í þrjá hópa sem fóru á milli stöðva. Á fyrstu stöðinni var plantað trjám, á annarri stöðinni æfðu þátttakendur sig í að njóta þess að vera í skógarumhverfi og veita því athygli sem er í nánasta umhverfi. Það var mikið líf á þriðju stöðinni þar sem boðið var upp á alls kyns sprell og leiki. Hver hópur hafði um það bil 30 mínútur á hverri stöð. Að sjálfsögðu var svo nestispása þar sem skólinn bauð upp á heitt súkkulaði en allir áttu að koma með nesti að heiman.
Þátttakendur prófuðu í lok ferðar AR- námsefni verkefnisins, en það er námsefni sem sett er fram í formi viðbætts veruleika (Augmented Reality). Lesendur geta prófað námsefnið og AR nálgunina sjálfir með því að fara inn á þessa slóð og er skemmtilegra að gera það í snjallsíma frekar en tölvu: ForestWellness (8thwall.app). Hér eru smá leiðbeiningar; Velja Launch – Leyfa notkun myndavélarinnar – Velja Go AR – Velja textann og byrja 😊
Það er skemmst frá því að segja að ferðin í dag lukkaðist afar vel og ekki spillti fyrir að veðurguðirnir voru okkur hliðhollir. Það voru settar niður 70 birkiplöntur, 24 ilmreyniplöntur, 13 reyniplöntur af mörgum mismunandi tegundum og tveir garðahlynir. Þeir voru staðsettir sitthvoru megin við minningarskjöld um Ásgrím Halldórsson en hann hafði forgöngu um það að hefja skógrækt í Haukafelli.
Það var sællegur hópur sem kom til baka á Höfn rétt fyrir hádegi og allir reynslunni ríkari. Nú er svo bara að vona að plönturnar sem voru settar niður nái að vaxa og dafna. Hér fyrir neðan fylgja nokkrar myndir úr ferðinni.
Við sögðum frá ForestWell menntaverkefninu í síðustu viku og fyrirhugaðri ferð í Haukafell í tengslum við verkefnið.
Nú hefur verið ákveðið að fara í ferðina þriðjudaginn 17. september og hafa nemendur og starfsfólk fengið póst þar að lútandi og eru allir beðnir um að lesa þann póst vel og vandlega. Ef það skyldu verða breytingar verður það tilkynnt.
ForestWell er eitt af þeim fjölmörgu Erasmus+ menntaverkefnum sem FAS hefur tekið þátt í. Í ForestWell verkefninu er unnið er að gerð námsefnis í samstarfi menntastofnanna og fyrirtækja á sviði markaðsmála og stafrænna lausna frá Danmörku, Finnlandi, Írlandi, Íslandi og Slóveníu.
Markmið ForestWell verkefnisins er að vinna rafræna náms- og þjálfunarpakka fyrir ferðaþjónustu-, upplifunar- og heilsueflingarfyrirtæki auk menntastofnanna.
Megininntak námsefnisins er að benda á leiðir til að nýta velferðaráhrif skógar- og kjarrlendis til heilsueflingar og atvinnusköpunar annars vegar, og stuðla að velferð skóga og gróinna svæða hins vegar. Talsvert af námsefni er nú þegar komið á heimasíðu verkefnisins og eru lesendur hvattir til að líta þar inn og t.d. prófa í snjallsímum sínum að fræðast um skóga með aðferðum AR (Augmented Reality) eða viðbætts veruleika. Rétt er þó að taka það fram að heimasíðan er enn í vinnslu og því hnökra að finna hér og þar.
Samstarf þátttökuaðila verkefnisins fer að mestu fram rafrænt en þó hafa verið haldnir verkefnafundir í raunheimum í Finnlandi, Slóveníu og Írlandi. Í byrjun júní sl. hafði verið blásið til sambærilegs fundar hér á Höfn en skemmst er frá því að segja að íslenska vorið tók á móti fundargestum á frekar kaldranalegan máta og komust þeir ekki lengra en á Selfoss þar sem öllum leiðum til Hafnar hafði verið lokað vegna veðurs. Þessi fundur fór því að hluta fram á netinu og í skólastofu á Selfossi. Finnski þátttakandinn dvaldi hér á landi í nokkra daga eftir að fundinum og vinnu í tengslum við hann lauk og hefur á síðu ForestWell birt skemmtilega grein um heimsókn sína til Íslands sem lesa má hér. Myndin sem fylgir fréttinni er einmitt frá fundinum sem halda átti á Höfn.
ForestWell verkefninu lýkur á komandi vori en nú í haust verður blásið til viðburðar þar sem nemendur og starfsfólk FAS og nemendur og kennarar 6. og 7. bekkjar í Grunnskóla Hornafjarðar auk annarra áhugasamra aðila fara í Haukafell og planta þar 100 skógarplöntum og til að njóta þess góða ræktunarstarfs sem Skógræktarfélag Austur – Skaftafellssýslu hefur unnið á liðnum árum.
Viðburður þessi verður auglýstur á miðlum FAS þegar nær dregur og eru áhugasamir hvattir til að fylgjast með og taka þátt í skemmtilegum skógardegi.
Það er heldur betur búið að vera líflegt í FAS í dag og margt um manninn. Í dag var haldin fyrsta vinnustofan í verkefninu HeimaHöfn en það er samstarfsverkefni Nýheima þekkingarseturs og Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Verkefnið felur í sér náið samstarf með ungu fólki, fulltrúum úr atvinnulífinu, skólum og öðrum hagsmunaaðilum á svæðinu. Meðal annars verður unnið að miðlun upplýsinga um fjölbreytt tækifæri til menntunar og atvinnu á svæðinu. Og allt miðar þetta að því að unga fólkið okkar viti hvaða möguleika og tækifæri þau hafi í framtíðinni en geti um leið valið að búa áfram í sveitarfélaginu okkar. Það eru þær stöllur Hugrún, Kristín Vala og Nejra sem stjórna för í verkefninu.
Það voru nemendur í 9. og 10 bekk grunnskólans auk staðnemenda í FAS sem tóku þátt í vinnustofunum í dag. Hópnum hafði verið skipt í sex smærri hópa og átti hver hópur að fjalla um ákveðin atriði eða leysa ákveðin verkefni enda er það mikilvægt að heyra raddir ungmennanna okkar. Vinnan hófst í morgun þar sem Kristín Vala fór yfir það sem væri fram undan og til hvers væri ætlast af þátttakendum. Í hádeginu var boðið upp á málsverð á Nýtorgi.
Það er skemmst frá því að segja að vinnan í dag tókst ljómandi vel og krakkarnir voru vel virkir og komu sínum sjónarmiðum á framfæri. Það verður gaman að fylgjast þessu verkefni á næstu vikum og mánuðum.
Við höfum ekki farið varhluta af umræðu um aukið ofbeldi í þjóðfélaginu síðustu daga og vikur. Það er mikilvægt að allir taki höndum saman um að sporna við öllu ofbeldi. Bleikur litur er orðinn tákn þess að ofbeldi verði aldrei samþykkt.
Undanfarna daga hafa sést víðs vega myndir í fréttum og á samfélagsmiðlum sem sýna samstöðu gegn ofbeldi. Að sjálfsögðu sýnum við í FAS samstöðu og í dag mátti sjá marga skarta bleikum lit. Þeim sem voru í húsi í löngu pásunni fyrir hádegi var hóað saman til myndatöku.