Hæfniferð Fjallamennskunáms FAS vor 2023

Hæfniferð FAS er ígildi lokaprófs en þar fá nemendur tækifæri til að sýna fram á þá hæfni og þekkingu sem þeir hafa öðlast í gegnum skólagönguna. Lagt er upp með í áfanganum að nemendur takist á við fjölbreytt og flókið landslag, hvort sem það er utan hefðbundinna gönguleiða eða upp á hájökli. Leiðbeinendur í þessum áfanga eru í aftursætinu og til ráðgjafar en nemendur stýra ferðinni og skiptast á að leiðsegja hópnum.

Veðurspáin var ekki upp á sitt besta fyrir fyrri hæfniferð en í byrjun ferðar rigndi mikið. Á meðan beðið var eftir veðurglugga til að hefja upphaf ferðar var samið við kajakfyrirtækið Iceguide um að leigja báta og búnað og róa um Heinabergslón en þetta bauð nemendum upp á aðra sýn inn í þá fjölbreyttu möguleika sem ferðaþjónustan býr að á svæðinu.

Næst var förinni heitið milli Skaftafells og Núpsstaðaskógar, yfir Skeiðarárjökul. Það er tilkomumikil ganga sem oft er gengin á þremur eða fjórum dögum. Hópurinn fór hratt yfir og kláraði gönguna á tveimur og hálfum degi. Aðra nóttina gistu þau í Skaftafellsfjöllum í um 700 metra hæð og hina á heiðinni norðan Súlutinda þar sem komið er í land af jöklinum. Hópurinn tók eftir það einn hvíldardag og skipulagði ferð á Þverártindsegg daginn eftir sem lá um Kálfafellsdal. Á hvíldardeginum var æfður böruburður með léttri línuaðstoð en oft á tíðum eru það leiðsögumenn sem eru fyrstir á staðinn þegar slys verða í fjalllendi og því nauðsynlegt að kunna réttu handtökin.

Í seinni hæfniferð var spáin allslæm á sunnanverðu landinu. Því var brugðið á það ráð að skipuleggja göngu um Víknaslóðir þar sem besta veðrinu var spáð. Gengið var á þremur dögum frá Borgarfirði eystri og suður á Seyðisfjörð með gistingu í skálum Breiðuvíkur og Loðmundarfjarðar. Við viljum þakka fyrir frábærar móttökur hjá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs sem tók höfðinglega á móti nemendum og kennurum og við erum viss um að þarna kemur FAS aftur. Það var gaman að enda árið í veglegum skálum í óbyggðum enda frábær ferðamáti sem gerir fólki kleyft að ganga lengra með léttari poka, svo ekki sé minnst á samveruna sem er hvergi betri en utan símasambands í fögrum dal og góðum skála.

Í lok ferðar var ætlunin að ganga á Snæfell en vegna veðurs var ákveðið að ganga á hinn formfagra Búlandstind í Berufirði. Frábær tindur sem bauð upp á brölt og skemmtilegt leiðarval í brattlendi. Einnig fór hópurinn saman á Óbyggðasetrið á glæsilega sýningu um sögu óbyggða- og fjallaferða í gegnum aldirnar. Þetta var því ekki bara fjalla- og hæfniferð heldur einnig nokkurs konar menningarferð þar sem nemendur lærðu sitthvað nýtt um sögu fjallaferða hér á landi.

Ferðirnar tvær voru ólíkar að flestu leyti en gengu þó báðar stórvel, spiluðu með veðri og stóðu nemendur sig með stakri prýði.

Kennarar í áfanganum voru: Tómas Eldjárn Vilhjálmsson, Elín Lóa Baldursdóttir, Erla Guðný Helgadóttir og Árni Stefán Haldorsen.

Framhald í klettaklifri – maí 2023

Eins og svo oft áður á þessu fallega skeri var veðrið aðeins að stríða okkur. Því var ákveðið að byrja kennsluna innanhúss og til þess er enginn staður betri en Mikligarður – við kunnum Klifurhúsinu og Garðabæ bestu þakkir fyrir að fá að nýta þessa aðstöðu.

Leiðsluveggurinn í Miklagarði býður upp á frábært tækifæri til að vinna í tækni, æfa sig í að leiða og læra á GriGri (tryggingartól sem notað er í sportklettaklifri og er skylda að nota í flestum veggjum innanhúss). Það var gaman að sjá hvað nemendurnar okkar þrír voru áhugasamir og höfðu gaman af því að „toga í plastið.“

Við náðum svo einum útidegi í Stardal – sem er gýgtappi rétt utan við Reykjavík sem býður upp á það allra besta dótaklifur sem fyrirfinnst á íslandi. Þessa fyrstu tvo daga var Óli með okkur sem gestakennari og við því með þrjá kennara og þrjá nemendur. Það var upplagt að nýta það. Við byrjuðum því á að klifra hver og einn með sinn nemanda og skiptum leiðinni upp í stuttar spannir þannig að þeir fengu allir að kynnast því hvernig ferlið virkar, millitryggingar, megintryggingar og það að skipta á milli spanna. Eftir hádegið hafði veðrið batnað verulega og við lékum okkur aðeins í Leikhúsinu og svo tóku nemendurnir við að leiða mjög létta leið, setja inn sínar eigin tryggingar og byggja akkeri. Við kennararnir fylgdum svo með léttu spjalli um hvað var vel gert og hvað væri hægt að bæta.

Þriðja daginn var veðrið aftur orðið vafasamt og við tókum léttan dag í Miklagarði. Fjórði dagurinn fór svo alfarið í veður (sem var stjörnuvitlaust) og akstur á Höfn. Því miður höfðu orðið nokkur afföll af nemendum þegar til Hafnar var komið og aðeins þriðjungur skilaði sér alla leið – Guðný Gígja var ein eftir og fékk því að velja sér sjálf hvernig við nýttum fimmta daginn. Hún valdi ekki minna metnaðarfullt en 11 spanna leiðina Boreal sem var boltuð af þeim félögum Guðjóni Snæ og Snævari Guðmundssyni. Leiðin er litlir 480m af klifri + aðkoma um mjög grófa skriðu upp Vestrahornið og eitt sig af bakhliðinni – og svo sama skriðan niður. Þó klifrið sé kannski ekki erfitt í sjálfu sér skiptir öllu máli að allir kunni til verka, skiptingar milli spanna séu fumlausar og að klifrið flæði nokkuð vel. Því þó 480m séu ekki mikil vegalengd í okkar daglega lífi – þá er þetta töluverð vegalengd í klifri.

Í stuttu máli gekk þessi dagur eins og í sögu. Við vorum í skjóli frá hvössum austanvindi þangað til kom að því að síga niður bakhliðina og klifrið var því hið ánægjulegasta. Guðný hafi greinilega verið að fylgjast með dagana áður og var fumlaus í allri sinni vinnu og við Mika áttum algerlega frábæran dag í vinnunni.

Þar sem það var litlu við þetta að bæta, bara einn nemandi eftir sem var þegar búinn að klifra leið sem fæstir ná nokkurn tímann að klifra og rigning í spánni þá fékk Guðný frí síðasta daginn. Hægt er að skoða leiðina nánar á https://www.isalp.is/problem/boreal

Kennarar voru Mike Walker & Ívar F. Finnbogason. Nemendur í ferðinni voru: Arna, Guðný Gígja og Ásta.

Útskrift frá FAS

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast 11 stúdentar, einn nemandi af Vélstjórn A og einn nemandi af framhaldsskólabraut.

Nýstúdentar eru: Carmen Diljá Eyrúnardóttir, Erlendur Rafnkell Svansson, Eydís Arna Sigurðardóttir, Júlíana Rós Sigurðardóttir, Kjartan Jóhann R. Einarsson, Kolbrún Ósk Guðmundsdóttir, Ragnheiður Inga Björnsdóttir, Selma Ýr Ívarsdóttir, Sigjón Atli Ragnheiðarson, Sævar Rafn Gunnlaugsson og Tómas Nói Hauksson.

Af A stigi vélstjórnar útskrifast: Þorsteinn Kristinsson og Embla Hafsteinsdóttir útskrifast af framhaldsskólabraut.

Bestum árangri á stúdentprófi að þessu sinn nær Selma Ýr Ívarsdóttir.

Starfsfólk FAS óskar útskriftarnemendum öllum til hamingju með áfangann og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

Útskrift frá FAS 20. maí

Laugardaginn 20. maí verður útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast ellefu stúdentar, einn nemandi af framhaldsskólabraut og einn nemandi úr Vélstjórn A. Athöfnin fer fram í Nýheimum og hefst klukkan 14.

Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Það væri gaman ef þeir sem eiga útskriftarafmæli mæta.

Vinnufundur PEAK í FAS

Í vikunni lauk tveggja daga vinnufundi samstarfsaðila FAS í Erasmus+ nýsköpunarverkefninu PEAK sem áður hefur verið greint frá hér á síðu skólans. Til að rifja stuttlega upp tilgang verkefnisins þá er hann að vinna námsefni fyrir bæði leiðbeinendur og kennara ungra frumkvöðla í fjallahéruðum og dreifðum byggðum, sem og fyrir frumkvöðlana sjálfa. Verkefnavinna sem þessi er liður í starfi FAS við að efla og hlúa að almennri menntun í nærsamfélagi sínu.

Það líður senn að lokum PEAK verkefnisins sem hefur staðið yfir í rúmlega þrjú ár, en því lýkur formlega 31. júlí n.k. Þessi fundur var sá síðasti þar sem samstarfsaðilarnir hittast í raunheimum en þeir sem mættu til Hafnar komu frá Skotlandi, Ítalíu og Grikklandi. Auk ferðalanganna tóku samstarfsaðilar frá Grikklandi, Írlandi og Norður-Írlandi þátt í vinnufundinum í gegnum netið.

Gestirnir dreifðu sér á milli nokkurra af okkar góðu gististöðum á meðan á dvöl þeirra stóð. Þeir unnu sína vinnu í FAS, nærðu sig m.a. hjá Lindu í mötuneyti skólans og kynntu sér starfsemi Nýheima og Vöruhússins þar sem Fab Lab-ið vakti mikla lukku. Þeir fengu auk þess stutta söguferð um bæinn og litu inn á bæði Pakkhúsið og Ottó. Gestunum fannst við búa mjög vel að öllu leyti og sérstaklega fannst þeim magnað að við hefðum svona glæsilega Fab Lab starfsstöð í okkar litla samfélagi.

Afurðir PEAK eru teknar að birtast á heimasíðu þess; https://www.peakentrepreneurs.eu/ og eru allir hvattir til að líta þangað inn og kynna sér áhugavert stuðningsefni fyrir frjóa einstaklinga sem áhuga hafa á nýsköpun og frumkvöðlavinnu. Síðan er enn í vinnslu en meira efni mun bætast inn á hana á komandi vikum. Auk heimasíðunnar er PEAK verkefnið einnig á samfélagsmiðlum en þeir eru einnig í  vinnslu á þessari stundu:

YouTube: https://www.youtube.com/@peakentrepreneurs2892/videos

TikTok: https://www.tiktok.com/@peakentrepreneurs

Instagram: https://www.instagram.com/peak.entrepreneurs/

Facebook: https://www.facebook.com/PeakEntrepreneurs

Í verkefninu segja ungir frumkvöðlar allra samstarfslandanna m.a. frá sinni reynslu af því að fá hugmyndir að atvinnumöguleikum og að hrinda þeim í framkvæmd. Saga þeirra birtist í stuttum myndböndum á heimasíðunni. Lesendur þessarar fréttar gæru verið sérstaklega áhugasamir að kynna sér hvað íslensku frumkvöðlarnir höfðu að segja, en myndböndin þeirra er að finna hér (https://www.peakentrepreneurs.eu/youth-entrepreneurs-video-showcase/#iceland)

Kynningarráðstefna verður haldin í Nýheimum í lok júní þar sem verkefnið verður kynnt formlega og sumt af efni þess prufukeyrt. Er það von undirritaðrar að sem flestir mæti á þá ráðstefnu og taki þátt. Nánari tímasetning verður auglýst síðar.

Verkefnastjóri PEAK á Íslandi, Hulda L. Hauksdóttir

 

Klettaklifur í annarlok

Svínfellingarnir Dan og Íris ásamt Ólafi Þór kenndu áfangann Klifurval í maí. Nemendurnir voru spenntir að komast út að klifra á ný eftir veturinn.

Að þessu sinni hófst áfanginn á Höfn og svo var haldið út í klifurparadísina á Vestrahorni þar sem við fórum yfir ferli fjölspannaklifurs í leiðinni Námsbraut. Þann dag rigndi mikið og því var virkilega gott að komast í vöfflur og kaffi á kaffhúsinu í Vestrahorni.

Næsti dagur var í Svínafelli í Skjólgili en þar eru dótaklifurleiðir í stuðlabergi. Hér klifruðum við í sprungum og settum inn dótatryggingar. Í Káraskjóli í Freysnesi er klifurveggur sem Klifurfélag Öræfa á en hann nýtist okkur vel í fjallamennskunáminu. Þar er hægt að æfa klifurhreyfingar og línuvinnu sem er einstaklega gagnlegt á rigningardögum. Síðasta daginn var loksins þurrt á Hnappavöllum, stærsta klifursvæði landsins. Þar leiddu hér um bil allir nemendurnir klifurleiðir og komust vel af stað inn í klifursumarið.  

Takk kærlega fyrir samveruna kæru nemendur.