Veðrið gaf góðan tón í byrjun skólaárs á fyrsta námskeiði hjá glænýjum hóp í Fjallamennskunáminu. Kennurum til stórkostlegrar undrunar var þurrt alla dagana nema þann fyrsta, en það gerði ekkert til. Meira að segja júmmæfingar á Skeiðarárbrú fóru fram í sól og blíðu sem er yfirleitt geymt fyrir rigningardaga á þessu námskeiði.
Og þegar veðrið er gott þá leikur lífið við klifrara en nemendur fengu tækifæri til þess að klifra eins og þau lysti. Nýir nemendur sýndu klifuríþróttinni mikinn áhuga og voru mörg farin að leiða allskonar leiðir á Hnappavöllum undir lok námskeiðs.
Það var ekki bara klifrað en áfanginn leggur mesta áherslu á línuvinnu á borð við sig og júmm, uppsetningu bergtrygginga og að sjálfsögðu var lögð mikil áhersla á góða tækni þegar kemur að því að tryggja klifrara. Að kunna að síga er mikilvægt í fjallamennsku, hvort sem það er í klifri eða jöklaferðamennsku. Sigið var æft á Hnappavöllum, þá æfðu þau tæknina fyrst í brattri brekku áður en þau sigu fram af Miðskjóli á bergtryggingum sem þau smíðuðu sjálf undir handleiðslu kennara. Eins og kom fram þá spreyttu þau sig í júmmi (línuklifri) á Skeiðarárbrúnni sem nýtist vel ár hvert á þessu námskeiði þó hún nýtist ekki lengur sem brú. Línuklifrið munu þau síðan æfa enn frekar í jöklaferð sem verður haldin í október og loks í vor á AIMG Jöklaleiðsögn 1 sem hluti af sprungubjörgunarprófi. Þannig leggur þessi áfangi áherslu á helstu grunnatriði í línuvinnu sem mun gagnast þeim sem frábær grunnur inn í námskeið vetrarins.
Hnappavellir skörtuðu sínu fegursta þessa vikuna og við kennararnir erum himinlifandi með árangurinn. Nýi hópurinn er virkilega sterkur og stemningin í hópnum frábær. Við vonum að okkur hafi tekist að vekja áhuga hjá nemendum á hinum magnaða heim klettaklifurs, að þau haldi áfram að æfa klifur í vetur og mæti fersk í klifurvaláfangann í vor.
Við þökkum fyrir frábæra viku og samveru. Það verður gaman að kynnast öllum enn betur í vetur, þegar alvaran tekur við. Á fjöllum og jöklum í öllum veðrum, þá reynir fyrst á hópinn en jafnframt styrkjast böndin hvergi betur en á fjöllum.
Kennarar voru Árni Stefán Haldorsen, Erla Guðný Helgadóttir, Íris Ragnarsdóttir Pedersen og Ólafur Þór Kristinsson.
Staðnemendur í inngangsáfanga að náttúruvísindum fóru á Skeiðarársand í gær, fimmtudag, til að vitja gróðurreita sem FAS hefur fylgst með frá árinu 2009. Það er reynt að fara alltaf á svipuðum árstíma til að afla gagna svo upplýsingar verði sem sambærilegastar á milli ára. Það er að mörgu að huga í ferðinni. Þannig þurfa nemendur að skoða hvaða gróður er að finna í reitunum, áætla gróðurþekju innan reitanna og samsetningu hennar, telja allar trjáplöntur og ef trjáplanta hefur náð 10 cm hæð þarf að mæla hæð hennar, finna lengsta árssprota, athuga hvort hún myndar rekkla og eins að athuga ummerki um beit eða ágang skordýra. Síðast en ekki síst þarf að skrá allar upplýsingar skýrt og skilmerkilega. Veður í gær var ákjósanlegt til útiveru og athuganir og mælingar gengu ljómandi vel. Með í för voru þær Hólmfríður og Lilja frá Náttúrustofu Suðausturlands og stjórnuðu öðrum hópnum á vettvangi.
Undanfarnar vikur og mánuði höfum við oft heyrt að sumarið hafi ekki verið mjög sérstakt og það sjáum við líka í gróðurreitunum okkar á sandinum. Mjög margar trjáplöntur virðast vera að drepast, sumar að hluta en aðrar alveg. Margar plöntur lækka jafnvel á milli ára. Þá voru margar greinar sem á síðasta ári voru laufgaðar berar og greinilega að drepast eða dauðar.
Næstu daga munu nemendar vinna skýrslu um ferðina þar sem m.a. er verið að bera saman upplýsingar á milli ára.
Vegna mikillar umræðu í samfélaginu um fjallamennskunám FAS vill skólameistari koma því á framfæri að skólinn hefur verið í samtali við mennta- og barnamálaráðuneytið um framtíðarmöguleika námsins en sífellt fleiri sannfærast um mikilvægi þess. Áfram verður leitað leiða til þess að hægt verði að halda náminu áfram í námsframboði skólans.
Í gær voru veittir styrkir úr Afreks- og hvatningasjóði stúdenta HÍ en þeir sem hljóta styrk þar hafa náð framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs. Auk árangurs á stúdentsprófi er litið til annarra þátta, s.s. þátttöku í félagsstörfum, íþróttum eða öðru því sem er eftirtektarvert. Að þessu sinni fékk sjóðurinn 76 umsóknir en 31 hlaut styrkinn.
Það er okkur í FAS mikið gleðiefni að á meðal styrkþega í ár er Anna Lára Grétarsdóttir sem útskrifaðist í vor frá okkur í FAS. Í umsögn frá Afreks- og hvatningasjóði stúdenta HÍ kemur eftirfarandi fram um Önnu Láru:
Anna Lára Grétarsdóttir brautskráðist frá Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu í vor og
var dúx skólans með hreina tíu. Hún hlaut fjölmargar viðurkenningar við útskrift, þar á meðal
Menntaverðlaun Háskóla Íslands. Anna Lára sigraði í þýskuþraut framhaldsskólanna í ár og þá er
hún í Fókus sigursveit Músíkiltilrauna í fyrra, Fókus, auk þess sem hún var valin
hljómborðsleikari Músíktilrauna. Anna Lára var auk þess forseti Nemendafélags FAS á lokaári
sínu. Anna Lára hefur hafið nám í lífeindafræði.
Við óskum Önnu Láru innilega til hamingju með styrkinn og óskum henni sem og styrkþegum öllum alls hins besta. Nánar má lesa um styrkveitinguna hér og á myndinni sést Anna Lára taka við verðlaununum úr hendi Jóns Atla Benediktssonar, rektors HÍ.
Tíminn eftir hádegi í dag var helgaður nýnemum. Eldri nemendur voru búnir að undirbúa dagskrá sem miðaði að því allir myndu kynnast og hafa gaman saman.
Öllum nemendum var skipt í nokkra hópa og þurfti hver hópur að leysa ýmis verkefni og vinna sér um leið inn stig. Áður en hóparnir héldu af stað var boðið upp á pylsur svo allir hefðu næga orku í verkefnið fram undan. Hver hópur þurfti að fara á nokkra staði til að leysa þrautir og um leið og hver þraut var leyst þurfti að taka mynd til að hafa sönnun. Líklega hafa einhverjir séð þegar hóparnir voru á vappi um bæinn eftir hádegi.
Allir eru sammála um að vel hafi tekist til og nemendur náðu að kynnast ágætlega. Á morgun hefst svo kennsla samkvæmt stundaskrá. Í meðfylgjandi frétt má sjá nokkrar myndir og hvað hóparnir þurftu að gera.
Skólastarf haustannarinnar hófst formlega í morgun þegar staðnemendur mættu. Lind skólameistari bauð alla velkomna og fór yfir nokkur mikilvæg atriði er varða komandi önn. Kristján áfangastjóri tók því næst við með nokkur orð. Í kjölfarið voru fundir með umsjónarkennurum. Eftir hádegi var stutt námskeið þar sem sérstaklega nýnemar voru aðstoðaðir við að komast inn í kerfi skólans.
Á morgun, miðvikudag verður kennt eftir svokallaðri hraðtöflu þar sem farið er yfir kennsluáætlanir og skipulag áfanga sem eru í boði á haustönninni. Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá á fimmtudag. Bóksalan er líkt og verið hefur á bókasafninu í Nýheimum og opnaði í dag klukkan 13. Fjarnemendur ættu líka að hafa fengið póst í þeim áföngum sem þeir eru skráðir í.
Á morgun mæta líka nemendur í fjallamennsku í hús og þá má segja að skólastarf sé komið á fullt.
Það er gaman að sjá meira líf í Nýheimum og heyra skvaldur og skraf nemenda okkar.