Snjóflóðagrunnur og skíðamennska

Nemendur í grunnnámi Fjallamennskunáms FAS lögðu leið sína norður í land til Dalvíkur dagana 2. – 6. febrúar. Þar var á dagskrá að skíða saman og læra allt sem hægt er að læra um snjóflóð á fimm dögum. Fyrirlestrar og innikennsla fóru fram í Menntaskólanum á Tröllaskaga en þar er glæsileg aðstaða til kennslu. Útiæfingar og skíðamennska fóru fram á Dalvík og í Hlíðarfjalli.  

Námskeiðið gekk vel en nemendur sýndu mikla framför á skíðunum, áhuga á snjóflóðafræðunum, fengu tækifæri til þess að æfa snjóflóðabjörgun og margt fleira. Það voru flottar aðstæður og hópurinn náði að skíða hálfan dag á Dalvík og heilan skíðadag í Hlíðarfjalli. Heilt yfir var veðrið betra en hægt er að biðja um í byrjun febrúar. Þó snjóaði töluvert fyrir síðasta daginn og snjóflóðahætta kom í veg fyrir að hægt væri að keyra um Ólafsfjarðarmúlann til þess að klára námskeiðið í skólanum. Síðasti morguninn var því tekinn í Gistihúsinu Gimli á Dalvík, sem var mjög notalegt.  

Dagskrá námskeiðanna var þétt enda þurfti að koma miklu námsefni að. Farið var í snjóflóðabjörgun, eðli snjóflóða, snjóflóða- og veðurspár, skipulagningu ferða, landslagslestur, snjóathuganir og aðferðir til að meta snjóflóðaaðstæður á staðnum. En auðvitað var lögð áhersla á skíða- og brettatækni sem er mikilvægur grunnur að því að ferðast af öryggi á skíðum/bretti í fjalllendi. Snjóflóðanámskeiðið er jafnframt undirbúningur fyrir öll komandi námskeið á önninni, enda er þekking á snjóflóðafræðum og færni í björgun grunnþáttur í fjallamennsku að vetrarlagi. Skíðahluti námskeiðsins sker að auki úr um hvort nemendur geti tekið þátt á fjallaskíðanámskeiði, en grunnskíðafærni er skilyrði. 

Eins og svo oft áður þá stýrði veður svolítið förinni og dagskráin á þessu námskeiði hefur alltaf verið sveigjanleg eftir því. Nemendur og kennarar sýndu þolinmæði og aðlögunarhæfni enda mikilvægt að vera móttækileg fyrir veðri og vindum og breyttum áformum. Þannig er eðli náms sem fer fram úti I náttúrunni en alltaf þarf að vinna með náttúruöflunum sem hafa úrslitavald þegar upp er staðið.  

Skólinn þakkar kærlega fyrir höfðinglegar móttökur í Menntaskólanum á Tröllaskaga og við hlökkum til frekara samstarfs í framtíðinni!  

Við hlökkum til að fá fjallaskíðahópinn til okkar eftir tæpar tvær vikur en nú eru frábærar fjallaskíðaaðstæður á Tröllaskaga og Eyjafirði.  

Kennarar á námskeiðunum voru Erla Guðný Helgadóttir, Daniel Saulite, Tómas Eldjárn Vilhjálmsson, Smári Stefánsson og Ívar Finnbogason.

 

Miðannarsamtöl framundan

Öll erum við farin að taka eftir því að sól er farin að hækka á lofti sem segir okkur að það sé farið að styttast í vorið. Og áfram flýgur tíminn í skólanum. Þessa vikuna eru flestir kennarar með ýmis konar stöðumat og munu í framhaldinu setja miðannarmat í Innu. Því ættu allir nemendur að vera búnir að fá miðannarmat í sínum áföngum í lok vikunnar.

Í næstu viku verða svo miðannarsamtöl en þá hittast nemandi og kennari í spjalli þar sem farið yfir stöðuna. Það er mikilvægt fyrir nemendur að undirbúa sig fyrir þau viðtöl svo þau verði að sem mestu gagni.

Hraðstefnumót á öskudegi

Þeir sem hafa komið í Nýheima í dag hafa eflaust tekið eftir að margir eru öðruvísi klæddir en dags daglega. Það á við bæði um íbúa hússins og gesti. Tilefnið er að sjálfsögðu öskudagur.

Af þessu tilefni brugðu nemendur á leik í vinnustund og héldu svokallað „hraðstefnumót“. Nemendur hittust á Nýtorgi og stilltu sér upp í tvo hringi. Þeir áttu síðan að ganga í takt við ákveðið lag í hring og þegar lagið stoppaði átti hvert par að ræða ákveðið málefni í tvær mínútur. Þetta var hin mesta skemmtun og ekki að sjá annað en að allir skemmtu sér vel.

Skólafundur í FAS

Á hverri önn hittast nemendur og starfsfólk skólans á sameiginlegum fundi og er þar farið yfir mikilvæg málefni skólans hverju sinni. Fyrir skólafundinn sem var haldinn í dag hafði fólki verið skipt upp í fjórar málstofur og búið var að ákveða fyrir fram umræðuefni. Í hverri málstofu er stjórnandi og svo ritari sem skráir niður helstu punkta. Að þessu sinni voru fjórar málstofur og umræðuefnin voru; skólakerfið, lesstofa, umgengni í skólanum og svo síðast en ekki síst fór námsráðgjafi á hvern stað og var með innlegg.

Það voru líflegar umræður í hópunum enda leggjum við áherlsu á að raddir allra heyrist og öllum gefist tækifæri til að koma sínu sjónarmiði á framfæri. Farið verður yfir niðurstöðurnar af fundinum fljótlega og þær síðan kynntar og jafnvel notaðar til að breyta og bæta skólastarfið.

Ísklifur í framhaldsnámi í fjallamennsku FAS

Í lok janúar fór fram ísklifuráfangi í framhaldsnámi fjallamennsku FAS. Að þessu sinni var ákveðið að áfanginn færi fram í nágrenni höfuðborgarsvæðisins en þar er að finna nokkur af bestu ísklifursvæðum landsins og oft á tíðum helst hitastig þar undir frostmarki. Eins og við er að búast í lok janúar á Íslandi setti veðrið strik í reikninginn en þrátt fyrir það náðist að spila eins vel úr kortunum og hægt var og eiga virkilega góða klifurdaga.  

Klifrað var á Hvalfjarðareyri, í Miðdalsgljúfri og í Úlfarsfelli en áhersluatriðin voru ísklifurtækni, æfingar í leiðslu, fjölbreytt línuvinna og æfingar í fjölspannaklifri.  

Það sem stendur upp úr er að sjálfsögðu að sjá hve langt nemendurnir okkar eru komnir eftir að verða 2-3 ára nám hjá okkur í fjallamennskunámi FAS. Þau eru samheldinn og þéttur hópur sem getur leyst fjölbreytt verkefni á fjöllum.

Kennarar í áfanganum voru Árni Stefán, Mike og Íris. Við þökkum nemendum okkar kærlega fyrir ánægjulegar klifurstundir og vonumst til þess að þau komist út að klifra meiri ís í vetur.

Tíundi bekkur heimsækir FAS

Í dag fengum við góða gesti í heimsókn en það voru nemendur í 10. bekk grunnskólans. Þeir voru hingað komnir til að kynna sér skólann enda orðið stutt eftir af grunnskólagöngunni og kominn tími til að athuga næstu skref í leik og starfi. Krökkunum var boðið í súpu og nýbakað brauð og var nemendum FAS og kennarahópnum einnig boðið í mat. Á meðan á snæðingi stóð kynntu forsvarsmenn nemendafélagsins félagslífið í skólanum.

Eftir matinn kynnti Svala námsráðgjafi hvernig námið í FAS er byggt upp og hvað er hægt að læra hér hjá okkur. Hún fór einnig yfir það hvenær og hvernig er hægt að skrá sig í nám í framhaldsskóla.

Við þökkum krökkunum kærlega fyrir komuna og vonumst til að sjá sem flesta hér næsta haust.