HeimaHöfn – heimsókn í Skinney-Þinganes

21.jan.2025

Við höfum sagt frá því áður að á þessu skólaári tekur FAS þátt í samstarfsverkefninu HeimaHöfn með Þekkingarsetri Nýheima og Sveitarfélaginu Hornafirði. Þar er verið að vinna með ungu fólki, fulltrúum úr atvinnulífinu, skólum og öðrum hagsmunaaðilum á svæðinu. Meðal annars er verið að miðla upplýsingum um fjölbreytt tækifæri til menntunar og atvinnu á svæðinu. Og í dag var komið að því að fara í heimsókn í Skinney-Þinganes en það er stærsta fyrirtækið í sveitarfélaginu og þar vinna um 350 manns. Skinney-Þinganes er öflugt hátæknifyrirtæki sem vinnur á sjálfbæran hátt og fullvinnur allar afurðir.

Gestunum frá FAS var skipt í tvo hópa. Á meðan annar hópurinn fékk fræðslu um fyrirtækið gekk hinn hópurinn um vinnslusalina og skoðaði starfsemina. Það var sannarlega margt sem kom á óvart í þessari heimsókn. Þar má t.d. nefna öll þau fjölhæfu störf sem eru unnin í fyrirtækinu. Þar er að finna störf úr flestum greinum atvinnulífsins sem krefjast mismunandi undirbúnings og menntunar. Lögð var á það áhersla að fyrirtækið mun þurfa á fólki í fjölbreytt störf í framtíðinni sem krefjist alls konar sérhæfingar. Það var líka áhugavert að sjá alla sjálfvirknina í vinnslusölunum og hvernig vélar og róbótar vinna mörg störf sem mannshöndin sinnti áður.

Þá var nokkuð rætt um kosti þess að búa í samfélagi eins og okkar en líka rætt um mikilvægi þess að fólk kynnist öðrum svæðum og störfum. Það eykur víðsýni og reynslu sem er gott að búa að. En það er líka mikilvægt að unga fólkið okkar viti af öllum þeim tækifærum sem er að finna í heimabyggðinni. Það er þó allra best þegar fólk flytur aftur heim og finnur sér störf.

Við þökkum kærlega fyrir góðar móttökur og góða fræðslu.

 

 

Aðrar fréttir

Nóg að gera í lok annar

Nóg að gera í lok annar

Nú er upp runnin síðasta heila kennsluvika annarinnar og mikið um að vera. Nemendur eru í óða önn að leggja lokahönd á vinnu sína í skólanum. Á miðvikudag munu nemendur í áfanganum Hönnun og nýsköpun kynna Graffíl listahátíð sem þau eru að vinna að ásamt fleiri...

Hájöklaferð í fjallamennskunáminu

Hájöklaferð í fjallamennskunáminu

Áfanginn hájöklaferðamennska í grunnnámi fjallamennskubrautarinnar fór fram dagana 26. apríl til 1. maí á Öræfajökli. Ákveðið var að fara aðeins aðra leið en hefur verið farin undanfarin ár og lagt af stað upp Svínafellið vestanvert, gengið upp í gegnum Skörð og þaðan...

Landvarðanám FAS

Landvarðanám FAS

Í byrjun apríl lauk áfanga í landvörslu FAS í blíðskaparveðri í Skaftafelli. Landvarðanámskeið hefur lengi verið námskeið sem skólastjórnendum í FAS hefur langað til að bæta við námsbrautirnar í fjallamennsku en það tókst síðasta haust og nú hefur FAS leyfi til að...