Umsóknir tíundu bekkinga

Nú eru flestir grunnskólar landsins að ljúka sínu skólastarfi og þá fara margir útskriftarnemendur að huga að næstu skrefum. Opið er fyrir umsóknir 10. bekkinga í FAS í gegnum Menntagátt og er opið fyrir umsóknir til 10. júní.

Frá 30. maí til 10. júní er umsækjendum boðið í viðtal með foreldrum sínum þar sem farið er yfir skipulag náms og námsval í FAS. Fundarboð verða send í tölvupósti. Nánari upplýsingar um skólann og umsóknarferlið veitir Fríður námsráðgjafi  – fridur@fas.is

Styrkur úr Þóunarsjóði námsgagna

Nýverið fengu þeir Ástvaldur Helgi Gylfason og Tómas Eldjárn Vilhjálmsson kennarar í Fjallamennskunámi FAS tveggja milljóna króna styrk úr Þróunarsjóði námsgagna. Styrkinn ætlar þeir að nota til að skrifa og þróa kennsluefni í rötun sem mun meðal annars nýtast beint nemendum í fjallamennskunáminu.

Hugmyndin er að útbúa handbók sem nemendur muni geta stuðst við í gegnum allt námið sitt og mun taka fyrir rötun með korti, áttavita, gps og öðrum snjalltækjum. Ætlunin er bæði að uppfæra gamalt námsefni sem og að búa til nýtt sem hentar þeim staðli sem unnið er eftir í dag í leiðsögninni. Námsefnið verður gefið út rafrænt en einnig verða gerð kennslumyndbönd. Þeir Ástvaldur og Tómas stefna á að ljúka námsefnisgerðinni fyrir haustið 2023.

Þetta eru frábærar fréttir því það er mikilvægt að til sé gott námsefni í fjallamennskunáminu. Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

Annars árs nemar í lokaferð á Vatnajökli

Síðasti áfangi annars árs nema við fjallamennskubraut FAS lauk með átta daga leiðangri á Vatnajökli þar sem nemendur drógu sleða á eftir sér með öllum þeim búnaði og vistum sem þurfti til að geta athafnað sig á jöklinum við fjölbreyttar aðstæður.

Nemendur nýttu sér þá þekkingu og reynslu sem þeir höfðu öðlast á síðastliðnum árum í náminu til að rata á öruggan hátt um jökulinn en gist var sex nætur í tjaldi og eina nótt í fjallaskála Jörfa á Grímsfjalli. Miklar breytingar voru í veðri á þeim tíma sem leiðangurinn stóð yfir og þurfti að stytta hann um tvo daga vegna þess en bróðurpart tímans var varið í hvítblindu. Ferðast var frá Skálafellsjökli og yfir í Grímsvötn en þaðan var ferðinni heitið í Hermannaskarð og að lokum niður Breiðamerkurjökul.

Það er skemmst frá því að segja að ferðin gekk mjög vel og hópurinn var einstaklega flottur. Allir unnu saman eins og smurð vél við oft á tíðum krefjandi aðstæður.

Kennarar voru Ívar Freyr Finnbogason og Tómas Eldjárn Vilhjálmsson.

 

Útskrift frá FAS

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast 14 stúdentar og átta nemendur af Vélstjórn A.

Nýstúdentar eru: Andrea Rán Ragnarsdóttir Breiðfjörð, Aníta Aðalsteinsdóttir, Arna Ósk Arnarsdóttir, Ástrós Aníta Óskarsdóttir, Birgir Sigurðsson, Daníel Snær Garðarsson, Guðrún Brynjólfsdóttir, Hermann Þór Ragnarsson, Karen Ása Benediktsdóttir, Ragna Björk Einarsdóttir, Signý Ingvadóttir, Tinna María Sævarsdóttir, Tómas Orri Hjálmarsson og Þórunn María Kærnested.

Af A stigi vélstjórnar útskrifast: Atli Dagur Eyjólfsson, Benedikt Óttar Snæbjörnsson, Gísli Eysteinn Helgason, Kjartan Jóhann R. Einarsson, Kolbeinn Benedikt Guðjónsson, Sigurður Helgi Pétursson, Steindór Már Ólafsson og Þröstur Jóhannsson. 

Bestum árangri á stúdentprófi að þessu sinn nær Tinna María Sævarsdóttir.

Starfsfólk FAS óskar útskriftarnemendum öllum til hamingju með áfangann og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.                  
                                

 

Útskrift frá FAS

Laugardaginn 21. maí verður útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast átta nemendur af Vélstjórn A og fjórtán stúdentar. Athöfnin fer fram í Nýheimum og hefst klukkan 14.

Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Það væri gaman ef þeir sem eiga útskriftarafmæli mæti.

Hæfniferð vor 2022 – Núpstaðaskógur – Skaftafell

Eftir langan og skemmtilegan vetur endar námsár nemenda við Fjallamennskunám FAS á áfanganum Hæfniferð. Markmið áfangans er að nemendur undirbúi og skipuleggi eigin ferð á hálendi Íslands. Þegar hópurinn lagðist í fyrstu skipulagsvinnuna þá komu upp margar hugmyndir. T.d. gönguferð um Lónsöræfi, gisting í tjöldum á Öræfajökli, toppadagar í Tindfjöllum og á Eyjafjallajökli.

Margar skemmtilegar hugmyndir voru nefndar en að endingu varð ganga frá Núpstaðaskógum yfir í Skaftafell fyrir valinu þar sem ferðast er með allt á bakinu um 33 kílómetra leið. Ferðin hófst með akstri inn í Núpstaðaskóg með Aroni hjá Local Guide of Vatnajökull. Þaðan hélt leiðin áfram inn Núpstaðaskóg og upp keðjuna margfrægu. Eftir að nemendur og kennarar höfðu tryggt sig þar upp með viðeigandi búnaði var leitað að góðum náttstað.

Ákveðið var að halda snemma af stað daginn eftir þar sem lengsti leggurinn væri framundan, Skeiðarárjökull. Langur en frábær dagur þar sem nemendur þurftu að rata um krefjandi jöklalandslag í þoku mestallan daginn. Fundinn var góður náttstaður undir Færneseggjum, tjaldbúðir reistar og kærkominn kvöldmatur snæddur.

Á þriðja degi þarf að þvera sig í gegnum Skaftafellsfjöll og svo upp og yfir Blátind. Færið var þungt og þurftu nemendur að troða snjó á köflum upp í mitti, en eftir að hafa æft og þjálfað sig í heilan vetur þá gekk þessi dagur alveg glimrandi vel. Allir skiptust á að leiða, segja sögur og alltaf var stutt í húmorinn. Þegar allir voru komnir öryggir fram hjá Blátindi var ákveðið að tjalda í 400 metrum við Vestragil.

Á fjórða degi var haldið í átt að bílunum og farið var yfir Skaftafellsheiði. Dagurinn var frekar afslappaður og var ákveðið að njóta á leiðinni til baka. Frábært var að sjá hversu natnir starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs hafa verið í gegnum árin að byggja upp svæðið, þar sem göngustígar og allar upplýsingar eru alveg til fyrirmyndar.

Eftir um 33 kílómetra göngu komust nemendur og kennarar loks í bílanna þar sem endað var á góðum teygjuhring. Einn dagur var eftir og því þurfti að skipuleggja alveg frábæran dag til að enda áfangann. Ferð í Ingólfshöfða með Einari hjá Öræfaferðum varð fyrir valinu og hvílíkur dagur. Nemendur höfðu sérstaklega gaman að sjá reyndan leiðsögumann í sínu náttúrulega umhverfi og ekki spillti fyrir magnið af lundamyndunum sem náðust í ferðinni. Ferðin heppnaðist vel í alla staði og vilja nemendur og kennarar koma sérstöku þakklæti til allra þeirra sem lögðu hönd á plóg til að láta ferðina verða veruleika.

Takk fyrir frábæran vetur og gleðilegt sumar!