Fjallamennskunemendur í gönguferð

Nemendur á fyrsta ári í Fjallamennskunámi FAS fóru í áfangann Gönguferð dagana 30. ágúst til 5. september. Hópurinn sem er að byrja í náminu í ár er stór og er því skipt í tvennt í þessum áfanga. Seinni hluti hópsins tekur áfangann 13. til 19. september. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Ástvaldur Helgi Gylfason, Elín Lóa Baldursdóttir, Svanhvít Helga Jóhannsdóttir og Tómas Eldjárn Vilhjálmsson. Markmið áfangans er að nemendur öðlist grunn í kortalestri, rötun, að ferðast með allan búnað á bakinu, útieldun, tjaldbúðalífi og þverun straumvatna. Hópurinn gekk í Lóni í fjóra daga og varði þremur nóttum í tjaldi en áfanginn er vika í heildina.

Á fyrsta degi var farið í hópefli til að hrista nýjan hóp saman og talað var um væntingar hvers og eins bæði til námsins og áfangans. Næst var farið í hvernig lesa og skrá niður veðurspá og hvaða búnað er nauðsynlegt og/eða gott að hafa með í gönguferð. Hópnum var skipt í tjald- og matarhópa en þau sáu sjálf um að skipuleggja matarinnkaup fyrir ferðina.

Á öðrum degi var farið í að lesa hæðarlínur á landakorti, átta sig á því að taka stefnu með áttavita og finna hnit á korti. Farið var yfir gerð leiðarkorts og heimaverkefni dagsins var að skipuleggja fyrstu tvo daga ferðarinnar hvað varðar vegalengdir, stefnur og tímaáætlanir.

Á þriðja degi var farið í GPS og ýmis símaforrit kynnt sem hægt er að nota til rötunar og kortalesturs. Eftir hádegi var hópnum skutlað að Borgarbrekku í Lóni og lagt var af stað í göngu. Nemendum var skipt í hópa og einn hópur leiðsagði hinum þangað sem ferðinni var heitið. Þegar komið var á áætlaðan náttstað var farið yfir hvað er gott að hafa í huga þegar tjaldað er og hvernig hægt er að forðast að stór gönguhópur eins og okkar skilji eftir sig nokkur ummerki þegar tjaldsvæðið er yfirgefið næsta morgun.

Á fjórða degi námskeiðsins var tjöldum pakkað saman og göngu haldið áfram eftir morgunmat. Lítið var í öllum ám og lækjum vegna lítillar úrkomu undanfarið en vaðið var yfir Karlsá einu sinni áður en leiðsöguhópur dagsins stefndi hópnum upp Fokkugil. Þegar komið var upp úr Fokkugili var stefnan tekin niður Sléttugil. Leiðsöguhópi dagsins reyndist erfiðara en þau höfðu gert ráð fyrir að finna leið niður meðfram Sléttugili og að endingu var tekin ákvörðun um að tjalda á litlum grasbala vestan í Lambafelli á bakka gilsins.

Á fimmta degi var haldið niður austan Sléttugils og Karlsánni fylgt vestur og svo gengið suður Hvannadal og niður Hvannagil. Á þessari leið komu upp sviðsett meiðsli þar sem hópurinn þurfti að bregðast við, hlúa að “meidda” einstaklingnum og vera reiðubúinn að gefa björgunarteymi upp staðsetningu sína á korti. Þriðju og síðustu nóttina gisti hópurinn á tjaldsvæðinu í Smiðjunesi.

Á sjötta degi var gengið frá Smiðjunesi að Vötnum og þaðan niður Raftagil þar sem rúta beið hópsins. Seinnipartur dagsins fór í frágang á tjöldum og öðrum búnaði.

Á sjöunda og síðasta degi áfangans var farið yfir þverun straumvatna fyrst inni í skólastofu í FAS en síðan fór hópurinn í Laxá í Nesjum og æfði sig í að þvera missterka strauma í ánni. Farið var yfir hvernig hægt er að lesa í varasama og örugga staði í ánni og allir æfðu sig bæði að vaða og að synda í ánni.

Alla daga tók hópurinn reglulega umræðuhring og deildi uppbyggilegri gagnrýni á það sem hafði farið fram þann dag til að draga lærdóm af því sem vel var gert og því sem hefði mátt gera betur. Síðasta daginn var tekin lokaumræða um áfangann í heild, hvernig hann mætti væntingum fólks, hvað var gott og hvað hefði gert hann betri.

[modula id=“13177″]

Inniratleikur í FAS

Nokkrum sinnum á önn eru svokölluð „uppbrot“ í skólastarfi í FAS en þá er felld niður kennsla í einn tíma og nemendur fást við eitthvað annað. Eitt slíkt var á dagskrá í dag og var ráðgert að það væri ratleikur. Þar sem veðurspáin fyrir daginn var ekki mjög spennandi til útiveru var brugðið á það ráð að setja upp ratleik inni í Nýheimum.

Það vill svo til að þessa daga eru fyrsta árs nemar í fjallanáminu í húsi og þegar þeir höfðu blandast staðnemendum var hópurinn orðinn nokkuð stór eða um 100 manns. Hópnum var skipt í 11 smærri hópa og þurftu þeir þá leita að og ganga á milli jafnmargra stöðva þar sem kennarar biðu þeirra og lögðu fyrir þraut. Þegar þrautin var leyst á hverjum stað fékk hópurinn bókstaf og þegar allar þrautir voru leystar gátu nemendur fundið lausnarorðið sem að þessu sinni var skólameistari.

Að leik loknum var boðið upp á morgunverð á Nýtorgi þar sem hún Hafdís okkar töfraði fram kræsingar eins og henni einni er lagið.

Þetta var hin fínasta skemmtun og ekki annað að sjá en allir skemmtu sér hið besta. Þetta er líka góð leið til kynnast nýju fólki.

[modula id=“13148″]

Gisti- og kennslutjald í FAS

Á dögunum eignaðist skólinn stórt og mikið tjald sem einkum er hugsað sem gistiaðstaða fyrir nemendur í fjallamennskunámi en auðvitað er hægt að nýta það fyrir annað starf í skólanum ef þarf.
Tjaldið var notað í fyrsta skipti í klifuráfanga sem var kenndur í Öræfum í síðustu viku. Tjaldið er uppblásið og tekur aðeins fáeinar mínútur að tjalda því. Þá voru líka keyptir 30 beddar sem nýtast fyrir gistingu. Tjaldið getur einnig nýst til kennslu í vettvangsferðum. Tjaldið reyndist ljómandi vel í sinni fyrstu ferð.
Ástæða þess að tjaldið var sett upp í dag fyrir utan FAS var að það þurfti að þurrka það áður en það verður notað næst.

[modula id=“13133″]

Grunnur í klettaklifri

Nýr nemendahópur í grunnnámi á fjallamennskubraut FAS var boðinn velkominn á dögunum. Hópurinn verður stór í vetur og því voru fyrstu námskeiðin, gönguferðin annars vegar og klettaklifur og línuvinna hins vegar, haldin samtímis og hópnum skipt í tvennt. Kennarar í klettaklifri og línuvinnu voru Árni Stefán Haldorsen, Bjartur Týr Ólafsson, Daniel Saulite, Íris Ragnarsdóttir og Magnús Arturo Batista.

Námskeiðið gekk afar vel enda hópurinn hress og metnaðarfullur og við nutum eindæma veðurblíðu. Markmið námskeiðsins er að kynna hópinn fyrir klettaklifursíþróttinni auk þess að leggja grunninn að línuvinnu. Námskeiðið var vikulangt og því góður tími til æfa bæði klifurtæknina sem og tæknilega hluti.

Háfjallatöffarinn og efnafræðingurinn Arlene Blum var á landinu og stödd í Skaftafelli í vikunni. Hún var með myndasýningu og fyrirlestur á Hótel Skaftafelli og hópurinn mætti þangað. Hún sagði frá ævintýrum sínum; m.a. fyrstu kvennaleiðöngrunum á Denali og Annapurna, göngu yfir Himalaya fjallgarðinn endilangan og störfum hennar sem efnafræðingur og baráttu gegn skaðlegum efnum í neytendavörum. Frábær fyrirlestur og mikil fyrirmynd þar á ferð.

Námskeiðið hófst á kynningu á skólanum og vetrinum framundan, nemendum og kennurum, og helsta búnaði sem notaður er í klettaklifri. Að því loknu hélt hópurinn út á Hafnartanga við Vestrahorn þar sem flestir stigu sín fyrstu skref í grjótglímu. Grjótglíma er undirgrein klettaklifurs þar sem klifrað er í lágum klettum og notast við dýnur til fallvarnar. Í lok dags var keyrt í Skaftafell og þar settar upp tjaldbúðir. Næstu þrjá daga notuðum við á Hnappavöllum, sem er stærsta klifursvæði landsins. Farið var vel í notkun sigtóla, bæði til sigs og tryggingu klifrara, hópurinn lærði innsetningu bergtrygginga, helstu hnúta, uppsetningu akkera, þræðingu akkera, sig, gráðunarkerfi klettaklifurs skoðað og margt fleira. En umfram allt var mikið klifrað. Á fimmta degi var kominn tími á hvíld frá klifrinu. Við skoðuðum eðlisfræði klifurs og gerð klifurlína, fleiri hnúta og klifur upp línu. Daginn enduðum við svo með bíókvöldi þar sem horft var á klifurmyndina Progression. Sjötta daginn var haldið í klifurvegginn í Káraskjóli þar sem nemendur kynntust innanhússklifri fram eftir degi og enduðu svo á því að æfa uppsetningu einstefnuloka og að líkja eftir ferli fjölspannaklifurs. Það var svo æft í raunverulegri aðstæðum á lokadegi námskeiðsins þegar farið var aftur að Vestrahorni og leiðin Námsbraut klifin.

Æðisleg vika og magnaður hópur, það stefnir í frábæran vetur! Takk fyrir okkur.

Árni Stefán

[modula id=“13117″]

Fréttir af DETOUR verkefninu

Fjölþjóðlega Erasmus+ verkefnið, DETOUR sem FAS er þátttakandi í er nú langt komið. Í verkefninu hefur verið unnið stuðnings- og upplýsingaefni sem nýst getur ferðaþjónustuaðilum og samfélögum sem vilja efla framboð heilsueflandi ferðaþjónustuafurða eða viðburða í sínu nærumhverfi.
Stuðnings- og upplýsingaefnið er aðgengilegt og opið öllum á heimasíðu DETOUR  https://www.detourproject.eu/ Nánar má lesa um verkefnið í meðfylgjandi fréttabréfi.

 

 

Ingunn Ósk hlýtur styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði HÍ

Háskóli Íslands hefur um margra ára skeið veitt nýnemum sem bæði hafa náð framúrskarandi árangri á stúdentsprófi og látið til sín taka á öðrum sviðum styrk þegar þeir hefja nám í skólanum. Úthlutunarathöfnin fyrir nýhafið skólaár fór fram fyrr í vikunni.
Meðal styrkþega að þessu sinni er Ingunn Ósk Grétarsdóttir sem útskrifaðist síðasta vor frá FAS með einstökum árangri. Hún er að hefja nám í lífeindafræði í háskólanum. Við óskum henni sem og öðrum styrkþegum velfarnaðar á nýjum vettvangi.
Hér er tengill á frétt frá Háskóla Íslands um styrkveitinguna. Á myndinni má sjá Ingunni með Jóni Atla Benediktssyni háskólarektor.