Nú er heldur betur farið að styttast í að skólastarf haustannarinnar hefjist. Skólinn verður settur fimmtudaginn 18. ágúst í fyrirlestrasal Nýheima klukkan 10. Í kjölfarið verða svo fundir með umsjónarkennurum. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá föstudaginn 19. ágúst. Stundatöflur verða vonandi aðgengilegar fljótlega í næstu viku inni á Innu og þar verður líka hægt að finna bókalista.
Eins og oft áður verða breytingar í starfsliði skólans frá ári til árs. Við höfum fyrr sagt frá að Lind Draumland Völundardóttir er nýr skólameistari og Herdís Ingólfsdóttir Waage er nýr áfangastjóri. Að auki eru einhverjar breytingar í kennaraliði skólans. Við bjóðum allt nýtt starfsfólk sem og nemendur velkomin til starfa.
Ef það eru einhverjir sem eru að velta fyrir sér að fara í nám hvetjum við þá til að skoða námsframboð skólans og hægt er að sækja um nám hér. Best er að sækja um nám sem fyrst.
Nú er orðið ljóst að Lind okkar í FAS hefur verið skipuð skólameistari til næstu fimm ára. Það var orðið langþráð fyrir okkur starfsfólk og nemendur að fá að vita hver myndi gegna þessu embætti.
Við bjóðum Lind hjartanlega velkomna í starfið og hlökkum til samvinnu á komandi tímum.
Nánar er hægt að lesa um starfsferil Lindar í frétt frá Stjórnarráðinu.
Nú er störfum síðasta skólaárs lokið og starfsfólk farið í sumarfrí. Skrifstofa skólans opnar aftur miðvikudaginn 3. ágúst.
Ef einhverjir eru að velta fyrir sér að fara í nám í haust er hægt að skoða upplýsingar um námsframboð á vef skólans og þar er einnig hægt að sækja um nám.
Við vonum að sumarið verði öllum ánægjulegt.
Í dag fór fram útskrift í fjallamennskunáminu í FAS. Af fyrsta ári útskrifuðust 24 nemendur og tveir af öðru ári. Þetta er í fyrsta skipti sem nemendur útskriftast af öðru ári.
Við óskum útskriftarnemendum innilega til hamingju með áfangann og óskum þeim jafnframt velfarnaðar í framtíðinni.
Þá er síðasta áfanga fjallamennskunámsins lokið en seinni hópurinn í hæfniferð hefur nýlokið ævintýralegri ferð. Að þessu sinni stóð leiðangur upp á Öræfajökul uppi sem sigurvegari kosninganna en nemendur og kennarar velja í sameiningu verkefni við hæfi í hæfniferð.
Á fyrsta degi lagði hópurinn lokahönd á skipulag og búnað í FAS og lagði af stað í Öræfin þar sem Óli hjá Local Guide skutlaði okkur upp að jökli um Sléttubjörg ofan við Hnappavelli. Gangan hófst því í um 800 metra hæð en það var kærkomið þar sem við bárum þungar birgðir fyrir þriggja nátta dvöl á jöklinum. Við gengum upp jökulinn, upp að Hnappi og settum upp tjaldbúðir í 1800 metra hæð á öskju Öræfajökuls í skafrenningi, kulda og roki. Í sameiningu byggðum við stóran skjólvegg og öll hjálpuðumst við að við að tjalda og byggja skjól.
Á öðrum degi var gengið yfir öskjuna í átt að Dyrhamri (1917 m) og Hvannadalshnjúk (2110 m). Við toppuðum öll Dyrhamar eftir þrjár spannir og fengum að launum stórkostlegt útsýni yfir Svínafellsjökul, Tindaborg og öræfska fjalladýrð. Þá héldu sum í átt að Hvannadalshnjúk og toppuðu hann einnig en önnur fóru á Rótarfjallshnjúk (1848 m) á leið heim í náttstað. Á þriðja degi gengum við í austurátt að Sveinstindi (2044 m) og Sveinsgnípu (1925 m) og toppuðum báða tindana, Sveinstindur er annar hæsti tindur landsins. Dagurinn gekk vel og þegar við komum aftur í tjaldbúðir tókum við smá kaffitíma en héldum síðan aftur út og klifruðum upp á Hnapp (1849 m) og þau sem ekki fóru á Rótarfjallshnjúk daginn áður héldu þangað líka.
Á fjórða degi var komið að því að ljúka dvöl okkar á Öræfajökli en við héldum niður af stærsta eldfjalli landsins um Kvískerjaleið og enduðum við hið fagra Múlagljúfur. Þar mættum við undrandi ferðamönnum sem spurðu hvort þau þyrftu allan þennan búnað sem við bárum á bakinu til þess að skoða gljúfrið.
Af þessari frægðarsögu sjáið þið að það vantar ekki kraftinn í útskriftarnemendur Fjallamennskunámsins. Við viljum þakka þeim öllum fyrir frábæran vetur og vonumst til að hitta útskriftarhópinn á fjöllum í sumar!
Takk fyrir okkur, Árni Stefán, Erla Guðný og Íris R.
Dagana 22. – 25. maí var annar af tveimur valáföngum í klifri haldinn og tóku níu nemendur þátt í námskeiðinu. Veðrið réði för og námskeiðið byjraði á svæðinu Háabjalla – sem hentar einstaklega vel fyrir byrjendur. Ekki spillti veðrið fyrir en það var sól og blíða. Næsta dag var farið í Stardal og dótaklifur tekið fyrir. Nokkrir nemendur leiddu sína fyrstu dótaleið þennan dag.
Ekki er hægt að ætlast til að fá gott veður á Íslandi þrjá daga í röð þannig að farið var inn hjá Klifurfélaginu Björk á þriðja degi og aðeins unnið í línuvinnu þar auk þess sem aðstaðan þar var nýtt til klifurs.
Síðasta daginn vorum við svo í mekka klettaklifursins á Íslandi, Hnappavöllum og eyddum blautum morgni í að byggja dótaakkeri og fara í aðra fjölspanna línuvinnu eins og hægt var. Seinnipartinn var svo bara klifrað eins og hver hafði smekk til.
Kennarar á námskeiðinu voru Dan Saulite, Mike Walker og Ívar F. Finnboga.