Græn skref í FAS

Nú er í gangi í FAS vinna við verkefnið Græn skref, sem er verkefni fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna eins og segir á vefsíðu verkefnisins. Þetta er þarft og mikilvægt verkefni á tímum loftslagsbreytinga.

Með verkefninu á að draga úr neikvæðum áhrifum starfsemi stofnana á umhverfið. Ætlunin er að bæta flokkun, minnka matarsóun, setja upp grænt bókhald og bæta hjólaaðstöðu við Nýheima svo eitthvað sé nefnt. Grænu skrefin eru fimm og samkvæmt Loftslagsstefnu Stjórnarráðsins er gerð krafa um að allar ríkisstofnanir uppfylli öll fimm Grænu skrefin fyrir árslok 2021.

Núna er verið að vinna að því að móta loftslagsstefnu fyrir skólann og vinna í skrefum eitt og tvö. Í hverju skrefi þarf að huga að 20 – 40 mismunandi atriðum sem þarf að uppfylla til að hljóta viðurkenningu. Verkefnastjóri með Grænum skrefum í FAS er Olga Ingólfsdóttir.

Mælingar á Fláajökli

Í dag fóru staðnemendur í áfanganum JARÐ2IJ05 í ferð að Fláajökli til að skoða stöðu jökulsporðsins. Með í för var Snævarr Guðmundsson frá Náttúrustofu Suðausturlands en hann er manna fróðastur hér um slóðir um jökla og breytingar á þeim.

Í ferðum sem þessum er margt að sjá tengt náttúrunni og breytingum á henni. Því er oft staldrað við til að skoða ummerki náttúrunnar, hvort sem það tengist rofi, gróðurframvindu eða öðru sýnilegu í umhverfinu.
Veðrið í dag var ljómandi gott en nokkuð napurt inni við jökulinn þar sem mælingar fórum fram.

Nemendur frá FAS fóru fyrst til mælinga á Fláajökli vestanverðum vorið 2016 og síðan þá hafa orðið gríðarlega breytingar. Sem dæmi má nefna að þá gátu nemendur gengið á löngum köflum á jökulsporðinum en núna er komið nokkur hundruð metra breytt lón á milli jökuls og lands.

Næstu daga munu nemendur svo vinna nánar úr gögnunum sem var aflað í feðrinni.

[modula id=“13340″]

 

Góðir gestir í FAS

Í dag komu til okkar fulltrúar frá Konfúsíusarstofnuninni Norðurljósum. Stofnunin byggir á samvinnu þriggja aðila; Háskóla Íslands, Ningbo háskóla í Kína og Hanban sem er móðurstofnun Konfúsíusarstofnana í heiminum. Stofnunin er bakhjarl námslínu kínverskra fræða og hefur líka staðið fyrir námi á framhaldsskólastigi í kínversku.

Gestirnir komu færandi hendi en skólinn fékk að gjöf nokkrar kennslubækur og orðabækur. Það væri gaman ef að í framtíðinni yrði boðið upp á nám í kínversku í FAS.

Það vakti athygli gestanna að á vegg skólans hangir kínverskt ljóð en það er gjöf frá fyrrum nemanda okkar Chiharu Kawai en hún er japönsk og lauk héðan stúdentsprófi 2006.

Kærar þakkir fyrir komuna ágæta fólk.

 

Langþráð ball í FAS

Í gær ríkti nokkur eftirvænting í FAS og ástæðan var sú að loksins var komið að langþráðu balli en slíkt hefur verið erfitt undanfarið vegna covid. Ballið var haldið í Sindrabæ og það var nemendaráð sem hafði veg og vanda að undirbúningnum.

Það er skemmst frá því að segja að ballið og allt í kringum það í gær tókst einstaklega vel. Það var ljóst að þeir sem mættu voru ákveðnir í að skemmta sér og njóta stundarinnar. Það var þó ekki einungis dansað heldur að þá var búið að undirbúa alls kyns leiki og sprell.

Mætingin var ágæt, sérstaklega hjá nemendum á fyrsta ári. Það má með sanni segja að allt í tengslum við ballið; undirbúningur, dansleikurinn sjálfur og svo frágangur hafi verið til miklllar fyrirmyndar og það sem var fyrir mestu að allir skemmtu sér vel.

Frábært hjá ykkur krakkar – þið kunnið svo sannarlega að skemmta ykkur!!

Miðannarmat og miðannarviðtöl

Þessa vikuna standa yfir svokölluð miðannarviðtöl í FAS. Þá hittast nemendur og kennari einslega og fara yfir stöðuna í áfanganum. Fyrir miðannarviðtölin fá nemendur miðannarmat í Innu en þar eru gefnar þrjár einkunnir; G sem stendur fyrir góðan árangur og þá er nemandinn með allt á hreinu. V stendur fyrir viðunandi sem þýðir að allt sé í lagi en vel hægt að bæta árangurinn. O stendur síðan fyrir óviðunandi sem þýðir að ef nemandi tekur sig ekki verulega á geti það þýtt fall í viðkomandi áfanga. Nemendur fá einnig umsögn sem á að vera lýsandi fyrir stöðuna.

Þeir nemendur sem fá tvö O eða fleira eru boðaðir í viðtal hjá umsjónarkennara þar sem reynt er að ráðleggja hvernig megi skipuleggja sig betur. Ef nemendur eru yngri en 18 ára eru foreldrar viðkomandi einnig boðaðir á fund.

Meðfylgjandi mynd var tekin í íslenskutíma í morgun.

Á leið til Finnlands

Haustið 2020 hófst þriggja ára samstarfsverkefni á milli Finnlands, Noregs og Íslands og er verkefnið styrkt af Nordplus. Verkefnið er einnig í samstarfi við jarðvanga í löndunum þremur og Vatnajökulsþjóðgarð. Í verkefninu er verið að vinna með valin heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og er eitt markmið tekið fyrir á hverri önn.
Síðastliðið haust áttu finnskir og norskir nemendur að koma til Íslands og síðasta vor átti að fara í heimsókn til Noregs. Ekkert varð þó úr ferðalögum vegna COVID19. Núna hefur heldur birt til og tiltölulega auðvelt fyrir bæði Íslendinga og Finna að ferðast en næsta ferð samkvæmt umsókn er til Finnlands. Það eru þó enn miklar takmarkanir í Noregi. Þegar umsjónarmenn verkefnisins hittust í upphafi haustannar var ákveðið að íslenski hópurinn fari til Finnlands í viku 39 eins og gert er ráð fyrir í umsókninni. Þátttakendur í verkefninu í Noregi ætla að fara í vettvangsferðir nálægt Brønnøysund. En hóparnir ætla líka að nýta tæknina og vinna saman í gegnum Teams.
Næsta sunnudag er svo komið að því að leggja af stað til Finnlands og hópurinn verður kominn til Vaala á mánudagskvöld. Í Finnlandi verður tíminn notaður vel í vettvangsferðir og vinnu tengda verkefninu. Við munum segja frá ferðalaginu á vefsíðu verkefnisins https://geoheritage.fas.is/.
Það er óhætt að segja að mikil eftirvænting sé fyrir ferðinni og allir farnir að hlakka til að ferðast aftur og ekki síst að kynnast nýju landi og nýju fólki. Á myndinni má sjá hópinn sem er á leiðinni til Finnlands.