FAS vinnur nú að umfangsmiklu samstarfsverkefni um ábyrga ferðaþjónustu ásamt skólum frá Tyrklandi og Ítalíu. Að því tilefni fóru fjórir kennarar frá FAS, allir úr fjallamennskudeildinni, til Adana í Tyrklandi til að hitta samstarfsaðilana. Sú ferð var farin um miðjan desember.
Ferðalagið var langt en þegar á áfangastað var komið var hitastigið um 15-20 gráður og mjög frábrugðinn menningarheimur. Fundardagarnir voru langir og strangir en við fengum þó að kynnast suðausturhluta Tyrklands, svæðinu sem jarðskjálftarnir nú í febrúar höfðu mikil áhrif á.
Dagana 27. febrúar – 4. mars tókum við í FAS ásamt Markaðsstofu Reykjaness á móti samstarfsaðilum okkar frá Tyrklandi og Ítalíu. Að þessu sinni funduðum við á Reykjanesi og ferðuðumst þar um og kynntum gestum okkar fyrir ábyrgri ferðaþjónustu á Íslandi.
Næsti liður í verkefninu er nemendaferð til Tyrklands en þangað halda þrír nemendur og tveir kennarar í apríl.
Í gær komu nemendur úr 10. bekk í heimsókn til okkar í FAS. Þegar hópurinn mætti var þeim boðið í morgunmat með nemendum og kennurum skólans. Í framhaldi af því var kynning á skólanum, námsframboði og félagslífinu. Við vonum að kynningin hafi verið gagnleg og fróðleg, einnig að gestirnir séu einhverju nær um það hvað tekur við að loknum grunnskóla. Á meðfylgjandi mynd má sjá ummæli núverandi nemenda um það hvers vegna FAS ætti að verða fyrir valinu að loknum grunnskóla.
Í dag verður fundur með foreldrum 10. bekkinga. Þar fá foreldrar sams konar kynningu á skólanum og nemendur fengu. Jafnframt fá þeir tækifæri til að spyrja nánar um skólann. Við vonumst til að sjá sem flesta í dag.
Árshátíð FAS fór fram síðastliðinn fimmtudag, þann 2.mars. Þemað að þessu sinni var „90’s“ og var Sindrabær skreyttur í takt við þann tíma. Skreytingarnar voru afurð árshátíðarhóps á opnum dögum sem fóru fram fyrr hluta síðustu viku.
Að loknu borðhaldi var sýnt myndband sem árshátíðarhópurinn vann á opnum dögum. Árshátíðardans var svo dansaður en stífar æfingar höfðu átt sér stað í skólanum og lukkaðist hann vel. Við höfum áður sagt frá því að nemendur í sviðslistum eiga heiðurinn af dansinum. Það var svo hljómsveitin Nostalgia sem spilaði fyrir dansi og hélt stemningunni uppi.
Eftir stendur vel lukkuð árshátíð sem hefði ekki getað átt sér stað nema fyrir kennara, foreldra sem buðu sig fram í gæslu og svo að sjálfsögðu nemandanna sem skipulögðu hana svo vel. Takk krakkar!!
Nemendur í grunnnámi Fjallamennskunáms FAS lögðu leið sína norður í land til Dalvíkur (eða Ennis, Alaska) dagana 3. – 7. og 10. – 14. febrúar. Þar var ætlunin að njóta blíðunnar á Dalvík, Eyjafirði og Tröllaskaga á skíðum og læra allt sem hægt er að læra um snjóflóð og ferðamennsku í snjóflóðaumhverfi á fimm dögum.
Námskeiðin gengu bæði frábærlega og sýndu nemendur mikla framför, áhuga á fræðunum, færni í snjóflóðabjörgun og auðvitað frábæra skíða- og brettatakta. Ekki náðist að skíða jafnmikið og ætlunin var en mikill lægðagangur, hlýindi og sterkir vindar komu í veg fyrir að lyfturnar um allt svæðið væru opnar allan tímann. Það kom ekki að sök, enda af nægu að taka þegar kemur að efninu og nóg að gera í æfingum og fyrirlestrum þó að veður hafi ekki leyft mikla skíðamennsku.
Dagskrá námskeiðanna var þétt enda þurfti að koma miklu námsefni að. Farið var ítarlega í snjóflóðabjörgun, eðli snjóflóða, snjóflóða- og veðurspár, skipulagningu ferða, landslagslestur, snjóathuganir og aðferðir til að meta snjóflóðaaðstæður á staðnum og auðvitað skíða- og brettatækni sem er grunnur að því að ferðast af öryggi á skíðum/bretti í fjalllendi. Snjóflóðanámskeiðið er jafnframt undirbúningur fyrir öll komandi námskeið á önninni, enda er þekking á snjóflóðafræðum og færni í björgun grunnþáttur í fjallamennsku að vetrarlagi. Skíðahluti námskeiðsins sker að auki úr um hvort nemendur komist á fjallaskíðanámskeið.
Lægðagangurinn í febrúar var sem fyrr sagði látlaus og setti örlítið strik í reikninginn fyrir bæði námskeiðin, þá er mikilvægt að dagskráin sé sveigjanleg en bæði nemendur og kennarar sýndu mikla aðlögunarhæfni enda mikilvægt að vera móttækileg fyrir veðri og vindum og breyttum áformum. Þannig er eðli náms sem fer fram úti í náttúrunni en alltaf þarf að vinna með náttúruöflunum sem hafa úrslitavald þegar upp er staðið.
Skólinn hafði fyrirlestraaðstöðu á kaffihúsi Bakkabræðra á Dalvík og þakkar kærlega fyrir höfðinglegar móttökur frá Heiði og Bjarna á notalegasta kaffihúsi norðan heiða! Vel var tekið á móti skólanum á Dalvík en staðurinn hentar einstaklega vel fyrir þetta námskeið, sem og fjallaskíðanámskeiðin.
Við hlökkum til að fá seinni fjallaskíðahópinn til okkar um komandi helgi en það spáir meiri snjó og miklum kulda sem við tökum fagnandi.
Kennarar á námskeiðunum voru Erla Guðný Helgadóttir, Daniel Saulite og Svanhvít Helga Jóhannsdóttir
Í dag er síðasti dagur opinna daga í FAS og af því tilefni efndu nemendur og kennarar til kaffisamsætis á Nýtorgi. Þar var margt girnilegt í boði; ávextir, kökur og kruðirí. Allt rann þetta ljúflega niður.
Eftir hádegi í dag munu hóparnir kynna afrakstur vinnu sinnar og það sem eftir lifir dags verður lokið við það sem eftir er að vinna og haldið áfram að undirbúa árshátíðina sem verður annað kvöld.
Kennsla hefst svo aftur í fyrramálið samkvæmt stundaskrá.
Núna standa yfir opnir dagar í FAS. Þá leggja nemendur hefðbundin verkefni til hliðar og fást við ýmislegt annað. Nemendur gátu valið sér hóp eftir áhuga og hafa því mikið um það að segja hvað er gert á opnum dögum.
Við erum með útvarpshóp sem ætlar að vera með tvær útsendingar á youtube rás skólans í dag. Fyrri þátturinn fer í loftið klukkan 13:30 og ber hann heitið Pedro. Seinni þátturinn er gerður af Rúntklúbbnum og heitir Rúntkastið og útsending hefst klukkan 14:15.
Þá er starfandi blaðahópur og það er aldrei að vita nema að við sjáum eitthvað frá þeim hópi i Eystrahorni í næstu viku. Þriðji hópurinn er að skoða skólaumhverfið og veltir fyrir sér hvernig megi bæta það. Síðast en ekki síst er árshátíðarhópur starfandi en eins og nafnið ber með sér er hann að skipuleggja árshátíð skólans sem verður fimmtudaginn 2. mars.