Alpaferð og AIMG Jöklaleiðsögn 1

Það var nóg að gera í lok apríl í Fjallamennskunáminu. Að þessu sinni voru það alpaferðin og AIMG Jöklaleiðsögn 1. Námskeiðin voru haldin í Öræfum, enda býður svæðið upp á einstakt aðgengi að sprungnum skriðjöklum, bröttum fjöllum og hájöklum. Vegna stærðar hópsins var hvort námskeið haldið í tvígang. Veðrið lék við okkur allan tímann og ljóst að sumarið kom snemma í Öræfin.  

Alpaferðin leggur áherslu á að undirbúa nemendur fyrir ferðalög á hájöklum. Áhersluatriði eru rötun, ferðaskipulagning, notkun línu til að tryggja gönguhóp og sprungubjörgun. Farið var upp á Hrútsfjallstinda og tjaldbúðir reistar í tæplega 1600m hæð í skjóli Vesturtinds. Þaðan voru Vesturtindur, Hátindur og Miðtindur heimsóttir auk þess sem stórar jökulsprungur milli tindanna voru nýttar í björgunaræfingar. 

AIMG Jöklaleiðsögn 1 er staðlað námskeið sem haldið var í samvinnu við Félag Fjallaleiðsögumanna á Íslandi (AIMG). Námskeiðið miðar að því að undirbúa nemendur fyrir að vinna á skriðjöklum við leiðsögn. Farið er í sprungubjörgun og ísklifur, en megináherslan er á leiðsöguhliðina; samskipti við gesti, leiðaval, leiðsögutækni og áhættustýringu. 

Öll námskeiðin tókust vel og stóðu nemendur sig með prýði. Næstu skref hjá hópnum verða valnámskeið í klettaklifri og svo hæfniferð, en það er vikulöng ferð sem nemendur skipuleggja.

Nemendaráð kaupir billjardborð

Fyrir nokkrum árum gaf Kiwanisklúbburinn Ós nemendum FAS fótboltaspil sem er staðsett í aðstöðu nemenda á efri hæð. Það hefur verið mikið notað. Núverandi nemendaráði fannst vanta meiri afþreyingu fyrir nemendur og fyrir stuttu var ráðist í að festa kaup á nýju billjardborði. Nemendafélagið notaði hluta af sjóði sínum til að fjárfesta í borðinu.

Billjardborðið hefur heldur betur vakið lukku á meðal nemenda og nánast í hverjum frímínútum eru einhverjir að nýta aðstöðuna, hvort sem er í billjard eða í fótboltaspilinu. Það hefur jafnvel verið sett upp keppni fyrir lið.

Þetta er frábært framtak hjá nemendaráði og þetta framtak þeirra mun nýtast bæði núverandi og væntanlegum nemendum FAS til langs tíma.

 

Heimsókn frá Póllandi

Síðustu daga hafa verið hér góðir gestir frá framhaldsskóla í Ledziny í Suður-Póllandi. Tildrög þess að hópurinn er kominn hingað eru þau að hann vildi kynnast skóla á Íslandi sem býður upp á áhugavert nám tengt heilsu.

Hér í FAS hafa þau hitt kennara sem koma að kennslu í heilsutengdum greinum og þá sem halda utan um félagslíf nemenda. Þau hittu einnig nemendaráð til að fræðast um félagslífið og skipulag þess. Auk þess fræddust þau um íslenska skólakerfið og hvernig námið er byggt upp í FAS með áherslu á starfsnám og stuðningskerfið. Þá hafa þau í heimsókn sinni hitt bæjarstjóra, skoðað Vöruhúsið og fræðst um starfsemi í Nýheimum.

Gestirnir eru mjög ánægðir með móttökurnar og þann möguleika að geta kynnst öðru skólaumhverfi og eru sammála um að hér hjá okkur sé mun meiri sveigjanleiki í námi en hjá þeim. Það er áhugi á áframhaldandi samstarfi. Þar er t.d. verið að skoða samstarf tengt íþróttum og eins varðandi nemendur af erlendum uppruna. Það verður spennandi að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér. 

Nám í hestamennsku í FAS

Hefur þú áhuga á að læra meira og fá góða undirstöðu fyrir þína hestamennsku? Hvað veist þú um fóðrun, járningar, reiðtygi, holdafar, sjúkdómagreiningu eða sögu íslenska hestsins? Hvernig gengur þér að þjálfa, skilja og vinna með hestinn þinn? FAS býður uppá fimm anna nám í hestamennsku, fyrir byrjendur og lengra komna.

Hestamennskunám undirbýr nemendur til að vera aðstoðarmenn í hvers konar hestatengdri starfsemi, svo sem á hestabúgörðum, við hestatengda ferðaþjónustu eða hjá öðrum sambærilegum fyrirtækjum. Að nemendur geti sinnt helstu verkþáttum í hirðingu hesta og aðstoðað við þjálfun þeirra. Geti aðstoðað viðskiptavini í hestaferðum hjá hestatengdum ferðaþjónustufyrirtækjum og leiðbeint um grunnþætti hestamennsku.

Nemendur í hestamennskunámi FAS þurfa að vera með eiginn hest og allan búnað. Fyrir þá sem hafa ekki aðgang að hesthúsplássi, mun Hestamannafélagið Hornfirðingur aðstoða við að útvega það. Verklega kennslan fer fram í reiðhöll og á svæði Hestamannafélagsins Hornfirðings við Stekkhól og hestar nemenda þurfa að vera í þar á kennslutíma. Nemendur bera allan kostnað af hesthúsi og fóðri fyrir hestinn.

Reynsla í hestamennsku er metin til eininga í verklega náminu. Bóklegir áfangar eru skipulagðir sem fjarnám en verklegt nám er kennt í lotum.

 

Umhverfisdagur í Nýheimum og ráðhúsinu

Í dag hittust allir íbúar Nýheima og ráðhússins um stund til að huga að umhverfinu en það er orðin venja að gera slíkt í sumarbyrjun. Veður vetrarins fara ekki alltaf blíðlega með umhverfið og ýmislegt þarf að laga þegar veturinn lætur undan.

Nemendum í FAS var skipt í hópa og það átti að snurfusa bæði utan dyra og innan. Meðal þess sem var gert var að sópa stéttir, tína rusl og hreinsa beð. Þá fengu tveir hópar það hlutverk að taka tyggjóklessur. Annar hópurinn skóf upp klessur utan dyra en hinn hópurinn fékk það hlutverk að skoða undir öll borð í kennslustofum og á lesstofu. Það kom sannarlega á óvart að sjá hversu mikið var af tyggjóklessum undir borðum, ekki síst í ljósi þess að öll borð voru tekin og hreinsuð fyrir tveimur árum. Þá þótti hópnum sem hreinsaði innan dyra ekki gott að sjá að munntóbakstuggum virðist oft vera hent upp á hillur á bókasafni í stað þess að henda þeim í ruslið. Það er svo sannarlega hægt að taka sig á og bæta umgengni.

Það er oft sagt að margar hendur vinni létt verk og það á svo sannarlega við í dag. Eftir tiltektina var boðið upp á grillaða hamborgara og voru þeim gerð góð skil.

[modula id=“14272″]

Snjóflóðanámskeið á Siglufirði

Fjórir leiðbeinendur við Fjallamennskunám FAS luku vikulöngu snjóflóðanámskeiði á Siglufirði um páskana. Námskeiðið er frá Kanadíska Snjóflóðafélaginu (CAA) og kallast Avalanche Operations Level 1. Félag Íslenskra Fjallaleiðsögumanna (AIMG) hafði milligöngu um að fá námskeiðið til Íslands en það er hluti af menntunarstiga félagsins auk þess að vera alþjóðlega viðurkennd vottun.

Þau Daniel Saulite, Íris R. Pedersen, Svanhvít H. Jóhannsdóttir og Tómas E. Vilhjálmsson hafa nú hlotið Level 1 réttindi og geta miðlað þekkingu sinni áfram inn í kennslu við FAS.

[modula id=“14252″]