Snjóflóð og skíði

06.mar.2023

Nemendur í grunnnámi Fjallamennskunáms FAS lögðu leið sína norður í land til Dalvíkur (eða Ennis, Alaska) dagana 3. – 7. og 10. – 14. febrúar. Þar var ætlunin að njóta blíðunnar á Dalvík, Eyjafirði og Tröllaskaga á skíðum og læra allt sem hægt er að læra um snjóflóð og ferðamennsku í snjóflóðaumhverfi á fimm dögum.  

Námskeiðin gengu bæði frábærlega og sýndu nemendur mikla framför, áhuga á fræðunum, færni í snjóflóðabjörgun og auðvitað frábæra skíða- og brettatakta. Ekki náðist að skíða jafnmikið og ætlunin var en mikill lægðagangur, hlýindi og sterkir vindar komu í veg fyrir að lyfturnar um allt svæðið væru opnar allan tímann. Það kom ekki að sök, enda af nægu að taka þegar kemur að efninu og nóg að gera í æfingum og fyrirlestrum þó að veður hafi ekki leyft mikla skíðamennsku.  

Dagskrá námskeiðanna var þétt enda þurfti að koma miklu námsefni að. Farið var ítarlega í snjóflóðabjörgun, eðli snjóflóða, snjóflóða- og veðurspár, skipulagningu ferða, landslagslestur, snjóathuganir og aðferðir til að meta snjóflóðaaðstæður á staðnum og auðvitað skíða- og brettatækni sem er grunnur að því að ferðast af öryggi á skíðum/bretti í fjalllendi. Snjóflóðanámskeiðið er jafnframt undirbúningur fyrir öll komandi námskeið á önninni, enda er þekking á snjóflóðafræðum og færni í björgun grunnþáttur í fjallamennsku að vetrarlagi. Skíðahluti námskeiðsins sker að auki úr um hvort nemendur komist á fjallaskíðanámskeið. 

Lægðagangurinn í febrúar var sem fyrr sagði látlaus og setti örlítið strik í reikninginn fyrir bæði námskeiðin, þá er mikilvægt að dagskráin sé sveigjanleg en bæði nemendur og kennarar sýndu mikla aðlögunarhæfni enda mikilvægt að vera móttækileg fyrir veðri og vindum og breyttum áformum. Þannig er eðli náms sem fer fram úti í náttúrunni en alltaf þarf að vinna með náttúruöflunum sem hafa úrslitavald þegar upp er staðið.  

Skólinn hafði fyrirlestraaðstöðu á kaffihúsi Bakkabræðra á Dalvík og þakkar kærlega fyrir höfðinglegar móttökur frá Heiði og Bjarna á notalegasta kaffihúsi norðan heiða! Vel var tekið á móti skólanum á Dalvík en staðurinn hentar einstaklega vel fyrir þetta námskeið, sem og fjallaskíðanámskeiðin.  

Við hlökkum til að fá seinni fjallaskíðahópinn til okkar um komandi helgi en það spáir meiri snjó og miklum kulda sem við tökum fagnandi. 

Kennarar á námskeiðunum voru Erla Guðný Helgadóttir, Daniel Saulite og Svanhvít Helga Jóhannsdóttir 

 

Aðrar fréttir

Útskrift frá FAS

Útskrift frá FAS

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast 10 stúdentar og 16 nemendur úr gunnnámi fjallamennsku. Nýstúdentar eru; Almar Páll Lárusson, Amylee Vitoria Da Silva Trindade, Anna Lára Grétarsdóttir, Atli Steinar Siggeirsson, Filip Orzedowski, Guðjón Arnar...

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Síðasti áfangi í grunnnámi Fjalla-FAS, Lokaferð, kláraðist í vikunni. Í þeim áfanga skipuleggja nemendur í sameiningu sína eigin ferð og leiða hana og kennarar eru þeim innan handar. Nemendur fá tækifæri til að sýna fram á þá færni sem þau hafa öðlast í náminu í...

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Níu annars árs nemendur fóru með þeim Dan Saulite og Ívari F. Finnboga í átta daga vetrarleiðangur á Vatnajökul 15. til 22. maí. Hópurinn fór upp Skáfallsjökul og náði í Grímsvötn á fjórða degi í frábæru veðri. Daginn eftir var brostið á með stormi sem stóð í tvo daga...