Draugahús í FAS

Föstudaginn 4. nóvember breyttist FAS í draugahús um stund. Það voru nemendur í FAS sem gerðu þar í samstarfi við Þrykkjuráð. Tilgangurinn var að leyfa nemendum í Heppuskóla og FAS að koma og hræðast ógnarlegar furðuverur sem voru á kreiki. Krökkunum var skipt í hópa og hver hópur var leiddur í gegnum „hryllingshúsið“ ógnarlega.

Viðburðurinn var vel sóttur og allir skemmtu sér vel þó einhverjir viðurkenndu að þeir væru hálfsmeykir. Í lokin gæddu allir sér á pizzu og fóru saddir og sælir heim.

Það er ánægjulegt að sjá þetta samstarf hjá FAS og Þrykkjunni og hversu vel það tókst.

 

Landmótun jökla skoðuð

Í dag var komið að árlegri ferð að Heinabergsjökli og eru það nemendur í Inngangsáfanga að náttúruvísindum sem fara í þessa ferð. Þegar var farið í sambærilega ferð fyrir ári síðan var orðið ljóst að miklar breytingar höfðu orðið á jökulsporðinum á Heinabergsjökli og fremsti hlutinn sem eitt sinn var hluti af jöklinum er nú stærðarinnar jaki sem er þakinn seti. Það er því ekki hægt að mæla stöðu jökulsins eins og gert var um árabil en þess í stað er áhersla á að fræða nemendur um landmótun jökla og hvernig hægt sé að rýna í landslag og sjá þær breytingar sem hafa orðið eða „lesa í landslagið“ eins og við segjum stundum.

Það voru tíu nemendur sem fóru í ferðina í dag. Auk kennara var Snævarr frá Náttúrustofunni með í ferðinni en hann er allra manna fróðastur um jökla hér um slóðir og frábært að hann skuli gefa sér tíma til að miðla af þekkingu sinni.

Veðrið skartaði sínu fegursta, hiti var rétt yfir frostmarki, logn og heiðríkja. Líkt og undanfarin ár hefur verið gengið frá brúnni þar sem Heinabergsvötn áður runnu og þaðan yfir jökulöldurnar að lóninu fyrir framan Heinabergsjökul. Gönguferðin endar svo á bílastæðinu við Heinabergsjökul. Á leiðinni er oft staldrað við og ýmis jarðfræðileg fyrirbrigði skoðuð. Inni við Heinabergslón var notaður fjarlægðarkíkir til að sjá hversu langt er í stóra jakann sem var áður hluti af jöklinum.

Ferðin okkar í dag var ljómandi góð. Það nærir bæði líkama og sál að njóta útiveru og ekki spillti veðrið fyrir. Næstu daga munu nemendur vinna skýrslu um ferðina.

Frábærir vísindadagar á enda

Í allmörg ár hafa svokallaðir vísindadagar verið haldnir í FAS þar sem nemendur leggjast í ýmis konar rannsóknarstörf. Undanfarin ár hefur nærsamfélagið verið skoðað annað hvert ár og hitt árið hefur verið farið í heimsókn í nærliggjandi sveitarfélög og verkefni unnin þar.

Að þessu sinni vorum við að skoða nærsamfélagið og voru vinnuhóparnir fjórir. Einn hópur var að skoða atvinnuhætti í sveitarfélaginu, annar hópur skoðaði hvernig menning svæðisins hefur þróast, þriðji hópurinn skoðaði munnmælasögur tengdar sveitarfélaginu og fjórði hópurinn var að skoða þau hús á Höfn sem bæði hafa götuheiti og sérheiti. Í upphafi var ákveðið að nýta bæði ritaðar heimildir og eins að leita til íbúa og afla upplýsinga hjá þeim.

Afrakstur vísindadaga var kynntur í hádeginu í dag og var foreldrum nemenda okkar og eldri Hornfirðingum sérstaklega boðið. Hún Hafdís okkar hafði eldað dýrindis súpu sem nemendur og gestir snæddu á meðan kynningarnar stóðu yfir. Að kynningum loknum gafst gestum síðan tækifæri á að fara í stofur og kynna sér vinnu nemenda nánar.

Það verður að segjast eins og er að við erum í skýjunum eftir daginn. Húsið iðaði af mannlífi og greinilegt var að fólk hafði gaman að því að koma og sjá hvað unga fólkið okkar er að gera. Það var heldur ekki verra að margir voru tilbúnir að bæta við upplýsingum til að gera góða vinnu enn betri.

Á næstunni munum við yfirfara og eftir þörfum betrumbæta þau gögn sem söfnuðust á vísindadögum. Þegar það hefur verið gert munu verkefni nemenda verða birt á http://stadur.is/ en það er vefur sem ætlaður er fyrir staðfræðiupplýsingar og þar eru mörg nemendaverkefni birt.

Takk öll – það var gaman í Nýheimum í dag.

Vísindadagar í FAS

Í morgun hófust svokallaðir vísindadagar í FAS en þá eru námsbækurnar lagðar til hliðar það sem eftir er vikunnar og nemendur fást við annars konar verkefni. Þeir kynnast um leið vísindalegum vinnubrögðum þar sem þarf að afla gagna, vinna úr upplýsingum og setja fram gögn á skýran og skilmerkilegan máta.

Að þessu sinni eru fjórir hópar starfandi og eru þeir allir að skoða nærumhverfið. Einn hópur er að skoða atvinnuhætti í sveitarfélaginu, annar hópur er að skoða hvernig menning hefur þróast, þriðji hópurinn skoðar munnmælasögur tengdar sveitarfélaginu og fjórði og síðasti hópurinn er að skoða þau hús á Höfn sem bæði hafa götuheiti og einnig sérheiti. Heimildir eru bæði munnlegar og ritaðar og það er gaman að geta nýtt sér fróðleik eldri Hornfirðinga í vinnu sem þessari. Á meðfylgjandi mynd eru Guðný Svararsdóttir og Kristbjörg Guðmundsdóttir að aðstoða nemendur við að finna sérnöfn á húsum á Höfn.

Í dag og á morgun felst vinnan í því að afla upplýsinga og eins að ákveða framsetningu gagnanna. Á föstudag munu hóparnir síðan kynna vinnuna sína og verður sú kynning á Nýtorgi og hefst klukkan 12. Þar er foreldrum og eldri borgurum sérstaklega boðið og verður boðið upp á súpu og brauð. Við vonumst til að sjá sem flesta.

Geðlestin í FAS

Það voru aldeilis góðir gestir sem komu í dag  til okkar í FAS. Það voru aðilar á vegum Geðlestarinnar en Geðlestin er geðfræðsla fyrir nemendur í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla sem byggir á þeirri staðreynd að við búum öll við geð rétt eins og við erum með hjarta. Á lífsleiðinni er mjög líklegt að við lendum í mótvindi og þurfum jafnvel að leita okkur aðstoðar. Öflug geðrækt frá unga aldri út lífið er besta ráðið til að takast á við þær áskoranir sem lífið færir okkur. Geðlestin er samstarfsverkefni Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og er verkefnið er styrkt af félagsmála- og heilbrigðisráðuneytunum.

Það var víða komið við í fræðslunni í dag. Gestirnir deildu reynslu sinni og hvaða leið þeir fóru til að takast á við lífið þegar á móti blæs. Og það eru svo sannarlega til leiðir til að takast á við vandamál. En það þurfa ekki heldur að vera vandamál til staðar, við þurfum alltaf að rækta geðheilsuna til að okkur líði sem best.

Með Geðlestinni í dag var rapparinn Flóni og tók hann nokkur lög við góðar undirtektir. Við þökkum gestunum kærlega fyrir komuna og viljum benda öllum á að muna eftir að rækta bæði sál og líkama.

 

 

Starfsfólk FAS bauð íbúum Nýheima í kaffi

Fyrir nokkrum árum skiptust íbúar Nýheima á að sjá um sameiginlega kaffitíma fyrir húsið. Þetta var gert til að allir þeir fjölmörgu sem í húsinu starfa hefðu færi á að hittast og spjalla yfir kaffibolla og maula á góðgæti. Vegna Covid lögðust þessi sameiginlegu kaffitímar af en það hefur þó alltaf af og til rætt um að það endurvekja þá.

Í morgun var svo komið að fyrsta sameiginlega kaffinu og var það starfsfólk FAS sem sá um að koma með meðlæti. Það er skemmst frá því að segja að íbúar hússins tóku tilbreytingunni vel og fjölmenntu á Nýtorg í löngu frímínútunum. Veitingarnar runnu ljúflega niður og íbúar hússins spjölluðu um daginn og veginn.

Við erum strax farin að hlakka til næsta sameiginlega kaffitíma.