Í dag var haldinn nýnemadagur í FAS til þess að bjóða nýja nemendur velkomna í skólann. Það var nemendaráð sem hafði veg og vanda að því að skipuleggja dagskrána. Nemendum var skipt í hópa og átti hver hópur að safna stigum með því að leysa ýmsar skemmtilegar þrautir, t.d. hoppa í sjóinn, betla mat, skríða inni í Nettó, taka myndir með einkennisklæddum, lita á sér hárið og fleira. Fyrir hverja þraut fengust ákveðið mörg stig. Markmiðið var að safna sem flestum stigum. Það var þó ekki upplýst í dag hverjir náðu að safna flestum stigum. Það verður gert á nýnemaballi sem verður haldið síðar í þessum mánuði.
Eftir stigaleikinn voru grillaðir hamborgarar og skólasöngur FAS var spilaður á Nýtorgi. Leikurinn fékk nemendur sem þekkjast lítið til að vinna saman og allir tóku þátt í sprellinu og var ekki annað að sjá en að allir skemmtu sér hið besta. Við þökkum nemendaráði kærlega fyrir þeirra aðkomu að þessum skemmtilega degi.