Námskeið í skyndihjálp

Í nóvember fór fram síðasti verklegi áfanginn hjá nemendum í fjallamennskunáminu. Nemendur voru í fjóra daga að æfa fyrstu hjálp þar sem tekið var á ýmsum þáttum hvað varðar slys og veikindi í óbyggðum. Mikil áhersla var á verklega kennslu en meðal námsþátta voru fyrstu viðbrögð við bráðum veikindum og slysum, móttaka þyrlu, teipa/vefja stoðkerfisáverka, hópslys og umræður um hvað við viljum  hafa í fyrstu hjálpar töskunni.

Reynt var að hafa kennslustofuna sem mest úti en haustlægðirnar settu ákveðið strik í reikninginn.

Vinnufundur PEAK í Grikklandi

PEAK, https://www.peakentrepreneurs.eu/ er verkefni sem styrkt er af Erasmus+ og miðar að því að auka möguleika ungmenna í frumkvöðlastarfi til að skapa sér ný tækifæri á atvinnumarkaði í fjallahéruðum og fámennum byggðum. Ungir frumkvöðlar og fyrirtækjaeigendur hafa lagt verkefninu lið með því að greina frá vegferð sinni við hugmyndavinnu, undirbúning og rekstur fyrirtækja sinna á myndbandsformi. Þessi myndbönd verða fljótlega tilbúin til birtingar. Einnig er búið að vinna námsefni fyrir leiðbeinendur og kennara ungs fólks sem nýta má til að efla færni unga fólksins við að vinna að nýjum hugmyndum og kynnast leiðum til að koma hugmynd í framkvæmd eða afurð.

Nokkrir kennarar og leiðbeinendur í nærsamfélaginu, sem unnið hafa með ungum frumkvöðlum hafa lagt verkefninu lið með því að rýna námsefnispakkana. Fá þeir bestu þakkir fyrir því það mikilvægt fyrir PEAK verkefnið að fá mat þeirra á námsefninu.

Nú í nóvember var haldinn samstarfsfundur þátttökustofnananna sex í fjallabænum Metsovo í Grikklandi. Þátttakendur verkefnisins eru tækniháskólinn NTUA í Grikklandi,  markaðs- og ráðgjafafyrirtækið MMS á Írlandi, framhaldsskólinn FAS á Íslandi, þróunarstofnunin GAL Meridaunia á Ítalíu, ráðgjafafyrirtækið CCL á Norður-Írlandi/Danmörku og háskólinn UHI í Skotlandi.

Vinnufundurinn var árangursríkur og voru þar m.a. lagðar línurnar fyrir síðustu mánuði verkefnisins, en því lýkur formlega í júní 2023.

 

Opið fyrir skráningar á næstu önn

Það er mikilvægt hafa gott yfirlit yfir nám sitt og hvaða áfanga á að taka hverju sinni. Nemendur í FAS eiga nú allir að vera búnir að staðfesta val sitt fyrir næstu önn í Innu.

Það eru alltaf einhverjir sem vilja hefja aftur nám eða bæta við sig. Við viljum vekja athygli á því að nú er opið fyrir skráningar í nám í FAS á næstu önn. Hér er yfirlit yfir námsframboð skólans. Og hér er hægt að lesa kennsluáætlanir fyrir þá áfanga sem eru í boði. Langflestir áfangar sem eru í boði í hefðbundu námi er einnig hægt að taka í fjarnámi. Hægt er að sækja um nám hér. 

Það er best að skrá sig sem fyrst en það er opið fyrir skráningar til 10. janúar.

Góðgjörðir á Nýtorgi

Í dag var komið að sameiginlegu kaffi íbúa Nýheima á Nýtorgi. Það voru íbúar á Vesturgangi sem sáu um veitingar að þessu sinni og þær voru ekki af verri endanum.

Það er bæði gaman og gagnlegt fyrir íbúa hússins að hittast og skrafa yfir kaffibolla og kræsingum. Bæði til að sjá hversu stór vinnustaðurinn er og ekki síður að kynnast nýju fólki og hvað það er að gera. Við erum strax farin að hlakka til næsta hittings.

Listauppbrot í FAS

Í dag kom til okkar Margrét H. Blöndal myndlistarkennari og listamaður. Hún er hingað komin til að vera með námskeið í listsköpun fyrir nemendur í grunnskólanum en það fékkst styrkur úr Barnamenningarsjóði til að kosta ferð hennar hingað. Að auki á Margrét verk á sýningunni – Tilraun æðarrækt – sjálfbært samfélag sem er í Svavarssafni og kemur hún að tveimur verkum á sýningunni. Annars vegar á hún hljóðverk í Gömlubúð og hins vegar er hægt að sjá myndir í sundlauginni á Höfn sem börn í Landakotsskóla gerðu undir hennar handleiðslu.

Margét byrjaði á því að segja frá bakgrunni sínum og hvað gerði hana að þeim listamanni sem hún er í dag. Hún er mest að mála og gera skúlptúra og sækir efnivið víða, jafnvel í eitthvað sem öðrum finnst drasl. Henni finnst best að vinna ein við listsköpun sína. Hún sagði okkur líka frá því að henni hefði boðist að sýna á Listasafni Íslands. Hún fékk leyfi til að breyta sýningarrýminu til að það myndi henta hennar hugmyndum sem best en hún vinnur gjarnan með innsetningu þar sem rýmið er hluti af sýningunni og verkin ná að tala hvert við annað.

Nemendum var gefinn kostur á að spyrja og nokkrir nýttu sér það. Meðal annars var spurt hvenær listamaður viti að verk hans er tilbúið og hvernig hægt sé að komast í Listaháskólann.

Við þökkum Margréti kærlega fyrir komuna og að miðla af reynslu sinni.

 

 

Skemmtileg heimsókn í Svavarssafn

Að loknum fundahöldum síðasta föstudag hjá kennurum í FAS var farið á Svavarssafn til að skoða sýninguna um æðarrækt á Íslandi. Snæbjörn Brynjarsson safnvörður tók á móti hópnum og sagði frá tildrögum þess að sýningin er hingað komin. Sýningin var opnuð um miðjan september og tengjast nokkur verk hennar út fyrir safnið. Þau er m.a. að finna í Nýheimum, Nettó og Gömlubúð.

Það var mjög gaman að sjá þessa sýningu og það var enn skemmtilegra að sjá hvað heimurinn er oft lítill. Tveir listamannanna sem eiga verk á sýningunni eiga tengingar til okkar á suðausturhorninu. Signý Jónsdóttir er nemandi í fjallamennskunáminu í FAS. Hún hefur lært hönnun og líka komið að æðarrækt austur á fjörðum. Hún hannaði kápu til að safna æðardún, hanska til að tína dún og höfðufat í kórónulíki sem er líka hentugt til að fæla burtu kríur en oft verpa kríur og æðarfugl á sama svæði. Hanna Jónsdóttir sem á ættir að rekja í Suðursveit hannaði blómavasa sem eru á sýningunni. Vasarnir eru eftirlíking af æðarfugli sem styngur sér eftir æti.

Þá komumst við að því að sýninging sem er farandsýning fer næst til eyjarinnar Vega í Noregi. Eyjan er á Heimsminjaskrá UNESCO. Fyrir rúmlega mánuði var hópur nemenda í FAS í heimsókn í Brønnøysund í Noregi og fór til Vega, gisti þar og vann að verkefnum. Meðal þess sem hópurinn kynntist á Vega er nýting æðardúns á svæðinu.

Það er sannarlega gott að líta upp úr amstri hversdagsins og kynnast einhverju nýju og sú var raunin á Svavarssafni síðasta föstudag. Við hvetjum alla til að skoða þessa skemmtilegu sýningu – hvort sem er á Svavarsafni eða öðrum stöðum þar sem hluta sýningarinnar er að finna. Og kærar þakkir fyrir góðar móttökur.