Snjóflóð og skíði

Nemendur í grunnnámi Fjallamennskunáms FAS lögðu leið sína norður í land til Dalvíkur (eða Ennis, Alaska) dagana 3. – 7. og 10. – 14. febrúar. Þar var ætlunin að njóta blíðunnar á Dalvík, Eyjafirði og Tröllaskaga á skíðum og læra allt sem hægt er að læra um snjóflóð og ferðamennsku í snjóflóðaumhverfi á fimm dögum.  

Námskeiðin gengu bæði frábærlega og sýndu nemendur mikla framför, áhuga á fræðunum, færni í snjóflóðabjörgun og auðvitað frábæra skíða- og brettatakta. Ekki náðist að skíða jafnmikið og ætlunin var en mikill lægðagangur, hlýindi og sterkir vindar komu í veg fyrir að lyfturnar um allt svæðið væru opnar allan tímann. Það kom ekki að sök, enda af nægu að taka þegar kemur að efninu og nóg að gera í æfingum og fyrirlestrum þó að veður hafi ekki leyft mikla skíðamennsku.  

Dagskrá námskeiðanna var þétt enda þurfti að koma miklu námsefni að. Farið var ítarlega í snjóflóðabjörgun, eðli snjóflóða, snjóflóða- og veðurspár, skipulagningu ferða, landslagslestur, snjóathuganir og aðferðir til að meta snjóflóðaaðstæður á staðnum og auðvitað skíða- og brettatækni sem er grunnur að því að ferðast af öryggi á skíðum/bretti í fjalllendi. Snjóflóðanámskeiðið er jafnframt undirbúningur fyrir öll komandi námskeið á önninni, enda er þekking á snjóflóðafræðum og færni í björgun grunnþáttur í fjallamennsku að vetrarlagi. Skíðahluti námskeiðsins sker að auki úr um hvort nemendur komist á fjallaskíðanámskeið. 

Lægðagangurinn í febrúar var sem fyrr sagði látlaus og setti örlítið strik í reikninginn fyrir bæði námskeiðin, þá er mikilvægt að dagskráin sé sveigjanleg en bæði nemendur og kennarar sýndu mikla aðlögunarhæfni enda mikilvægt að vera móttækileg fyrir veðri og vindum og breyttum áformum. Þannig er eðli náms sem fer fram úti í náttúrunni en alltaf þarf að vinna með náttúruöflunum sem hafa úrslitavald þegar upp er staðið.  

Skólinn hafði fyrirlestraaðstöðu á kaffihúsi Bakkabræðra á Dalvík og þakkar kærlega fyrir höfðinglegar móttökur frá Heiði og Bjarna á notalegasta kaffihúsi norðan heiða! Vel var tekið á móti skólanum á Dalvík en staðurinn hentar einstaklega vel fyrir þetta námskeið, sem og fjallaskíðanámskeiðin.  

Við hlökkum til að fá seinni fjallaskíðahópinn til okkar um komandi helgi en það spáir meiri snjó og miklum kulda sem við tökum fagnandi. 

Kennarar á námskeiðunum voru Erla Guðný Helgadóttir, Daniel Saulite og Svanhvít Helga Jóhannsdóttir 

 

Kaffiboð á opnum dögum

Í dag er síðasti dagur opinna daga í FAS og af því tilefni efndu nemendur og kennarar til kaffisamsætis á Nýtorgi. Þar var margt girnilegt í boði; ávextir, kökur og kruðirí. Allt rann þetta ljúflega niður.

Eftir hádegi í dag munu hóparnir kynna afrakstur vinnu sinnar og það sem eftir lifir dags verður lokið við það sem eftir er að vinna og haldið áfram að undirbúa árshátíðina sem verður annað kvöld.

Kennsla hefst svo aftur í fyrramálið samkvæmt stundaskrá.

Opnir dagar í FAS

Núna standa yfir opnir dagar í FAS. Þá leggja nemendur hefðbundin verkefni til hliðar og fást við ýmislegt annað. Nemendur gátu valið sér hóp eftir áhuga og hafa því mikið um það að segja hvað er gert á opnum dögum.

Við erum með útvarpshóp sem ætlar að vera með tvær útsendingar á youtube rás skólans í dag. Fyrri þátturinn fer í loftið klukkan 13:30 og ber hann heitið Pedro. Seinni þátturinn er gerður af Rúntklúbbnum og heitir Rúntkastið og útsending hefst klukkan 14:15.

Þá er starfandi blaðahópur og það er aldrei að vita nema að við sjáum eitthvað frá þeim hópi i Eystrahorni í næstu viku. Þriðji hópurinn er að skoða skólaumhverfið og veltir fyrir sér hvernig megi bæta það. Síðast en ekki síst er árshátíðarhópur starfandi en eins og nafnið ber með sér er hann að skipuleggja árshátíð skólans sem verður fimmtudaginn 2. mars.

Opnir dagar á næsta leiti

Í næstu viku verða opnir dagar hjá okkur í FAS. En þá eru bækurnar lagðar til hliðar í þrjá daga og nemendur fást við önnur verkefni. Opnum dögum lýkur svo með árshátíð sem verður fimmtudaginn 2. mars.

Nemendur í sviðslistum hafa síðustu daga búið til dans fyrir árshátíðina og í dag var komið að því að kenna öðrum að stíga dansinn. Þeir sem ekki komust geta horft á dansinn á þessu myndbroti og allir eru hvattir til þess að tileinka sér sporin svo hægt sé að dansa með á árshátiðinni.

Þá var kynning á þeim hópum sem munu verða starfandi á opnum dögum og nemendur gátu skráð sig í hóp eftir áhuga. Þeir sem eiga eftir að skrá sig í hóp er bent á að hafa samband við Herdísi. Ef nemandi er ekki búinn að skrá sig í hóp á morgun, föstudag mun hann verða skráður í hóp.

Spilauppbrot á öskudegi

Það er við hæfi á öskudegi að bregða aðeins út af vananum. Margir mættu í dag í grímubúningi í FAS. Þannig má sjá t.d. Klóa, vitring, fótboltavöll og íþróttafrík á göngum skólans í dag svo eitthvað sé nefnt.

Í seinni vinnustund dagsins var komið að spilauppbroti. Nemendur voru hvattir til að mæta með spil og eiga stund saman með sprelli og leik. Eftir hádegið má búast við mörgum gestum í Nýheima af tilefni öskudagsins sem ætla að gleðja með söng og fá smáræði í staðinn. Við hvetjum okkar fólk til að hefja upp raust sína og taka þátt í fjörinu.

Bolla, bolla í FAS

Það fer víst ekki fram hjá mörgum að í dag er bolludagur en sá dagur er einn af þremur sem marka upphaf  lönguföstu sem má rekja til 40 daga föstu Gyðinga fyrir páska. Langafasta, einnig kölluð sjöviknafasta, hefst á öskudegi, miðvikudegi í 7. viku fyrir páska. Föstuinngangur stendur frá sunnudeginum á undan og getur borið upp á 1. febrúar til 7. mars. Þetta segir okkur líka að á miðvikudag séu 40 dagar til páska.

FAS bauð nemendum og starfsfólki upp á bollur á Nýtorgi í dag og voru þeim gerð góð skil. Þær stöllur Anna Lára og Siggerður létu sig að sjálfsögðu ekki vanta í svona fínt bolluboð.