Í gærkvöldi, mánudaginn 18. desember stóð NEMFAS fyrir jólaballi á Hafinu og fór það mjög vel fram. Stórhljómsveitin Stuðlabandið var fengin til þess að spila og stóð hún svo sannarlega undir væntingum. Mæting var mjög góð og nýttu þó nokkrir jafnaldrar úr öðrum skólum tækifærið til þess að mæta á ball, en þeir voru komnir heim í jólafrí úr öðrum skólum.
Ungmennaráðið og Þrykkjan sameinuðu kraftana með NEMFAS og nýttu það að fá hljómsveit af þessari stærðargráðu hingað á Höfn og stóðu fyrir balli á undan NEMFAS fyrir nemendur grunnskólans. Nemendum grunnskólans á Djúpavogi var boðið á ballið og var mjög gaman að fá þá í heimsókn.
Við fögnum samstarfinu og þökkum öllum þeim sem komu að skipulaginu. Það er gaman að geta endað skólaárið á svona skemmtilegan máta.